Um félagið
Félag um átjándu aldar fræði er þvervísindalegt fræðafélag, öllum opið. Málþing félagsins fara fram í febrúar, apríl/maí og í október. Viðfangsefnin eru fjölbreytt. Félagið var stofnað árið 1994 og eru félagar nú 330 talsins.
Stjórn
Stjórn félagsins 2025:
Margrét Gunnarsdóttir, formaður
Gunnar Skarphéðinsson, varaformaður
Ingi Þorleifur Bjarnason, ritari
Helga Kristín Gunnarsdóttir, gjaldkeri
Halldór Baldursson, meðstjórnandi
Ingi Sigurðsson, meðstjórnandi
Erla Dóris Halldórsdóttir, meðstjórnandi
Ragnhildur Anna Kjartansdóttir, meðstjórnandi
Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, meðstjórnandi
Erlent samstarf
ISECS (The International Society for Eighteenth-Century Studies)
Félag um átjándu aldar fræði er sem fyrr aðili að heimssamtökum félaga um átjándu aldar fræði (International Society for Eighteenth-Century Studies – ISECS). Öll þau félög, sem eiga aðild að heimssamtökunum (ISECS), tilnefna fulltrúa í svokallaða framkvæmdanefnd (executive committee). Kristín Bragadóttir hefur gegnt starfinu fyrir hönd Félags um átjándu aldar fræði síðan á heimsþinginu í Rotterdam árið 2015. Að undanförnu hafa alþjóðasamtökin unnið að undirbúningi heimsþings alþjóðasamtakanna sem haldið verður í Róm 9.–14. júlí 2023.
Félagið á aðild að ársritinu 1700-tal: Nordic Journal for Eighteenth-Century Studies. Sænska átjándu aldar félagið (Svenska sällskapet för 1700–tallstudier) gefur út í samvinnu við hin átjándu aldar félögin á Norðurlöndum, Suomen 1700–luvun turkimuksen seura, Norsk selskab for 1700-tallsstudier, Dansk selskab for 1700–talsstudier og Félag um átjándu aldar fræði. Ritið er ritrýnt fjölþjóðlegt tímarit. Greinar eru birtar á sjö tungumálum (sænsku, dönsku, norsku (bæði bókmáli og nýnorsku), ensku, frönsku og þýsku). Kristín Bragadóttir er ritstjóri fyrir hönd félagsins og Sigurgeir Guðjónsson annast ritdómaritstjórn fyrir hönd félagsins. Anna Agnarsdóttir situr í ráðgjafarnefnd ársritsins. Ritið er í opnum aðgangi á slóðinni: https://septentrio.uit.no/index.php/1700.
Ritstjórn Vefnis
Ritstjóri
Margrét Gunnarsdóttir
Meðritstjórnendur:
Kristín Bragadóttir
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir
Kristín Bragadóttir
Lög
LÖG FÉLAGS UM ÁTJÁNDU ALDAR FRÆÐI - eftir aðalfund 27. febrúar 2021
1. gr.
Félagið heitir Félag um átjándu aldar fræði. Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Markmið félagsins er að efla og kynna rannsóknir á sviði átjándu aldar fræða og skyldra efna, bæði hér á landi og erlendis, m.a. með því að halda fræðafundi.
3. gr.
Inngöngu í félagið geta fengið allir áhugamenn um átjándu aldar fræði. Heimilt er að kjósa heiðursfélaga á aðalfundi.
4. gr.
Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og fimm meðstjórnendur, fjórir sem kjörnir eru til þess starfa svo og sá fyrrverandi formanna sem síðast lét af störfum. Stjórn er kosin á aðalfundi. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Heimilt er að endurkjósa þá nema hvað formaður má ekki gegna þeirri stöðu lengur en tvö kjörtímabil í senn. Á aðalfundum fer til skiptis fram kjör formanns, varaformanns og tveggja meðstjórnenda annars vegar og ritara, gjaldkera og tveggja meðstjórnenda hins vegar. Allir félagar sem skuldlausir eru við félagið eru kjörgengir til stjórnarstarfa. Nú losnar sæti stjórnarmanns og skal stjórn þá kveðja félagsmann til stjórnarstarfa fram að næsta aðalfundi. Formanni er skylt að boða stjórnarfund óski a.m.k. þrír stjórnarmenn eftir því. Tillögur um kjör manna í stjórn skal annaðhvort afhenda ritara félagsins fyrir aðalfund eða bera upp á aðalfundi.
5. gr.
Stjórn fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda, tekur ákvarðanir um starfsemi þess og útgjöld. Félagsmönnum skulu veittar sem fyllstar upplýsingar um starfsemi félagsins, m.a. í fundarboðum. Gerðir stjórnarfunda skulu bókfærðar.
6. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í febrúar ár hvert og skal boðað til hans skriflega með minnst viku fyrirvara. Þar skal flytja starfsskýrslu stjórnar og leggja fram endurskoðaða reikninga til samþykktar, kjósa tvo endurskoðendur reikninga auk stjórnar, ákveða árgjald og sinna öðrum hefðbundnum aðalfundarstörfum.
7. gr.
Formanni er skylt að boða til almenns félagsfundar óski a.m.k. tíu félagsmenn eftir því.
8. gr.
Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga verða að fá stuðning tveggja þriðju hluta þeirra sem atkvæði greiða til þess að hljóta samþykki.
9. gr.
Unnt er að ákveða á aðalfundi að leggja félagið niður. Slíka tillögu ber að senda formanni félagsins eigi síðar en hálfum mánuði fyrir aðalfund og skal hún koma fram í aðalfundarboði. Til þess að slík tillaga hljóti samþykki þarf minnst helmingur félagsmanna að sitja fundinn og a.m.k. þrír fjórðu hlutar fundarmanna þurfa að greiða atkvæði með tillögunni. Komi til þess að félagið verði lagt niður skal stjórn taka ákvörðun um að láta eignir þess renna til einhvers þess félags sem sinnir áþekkum verkefnum.