Útdrættir frá málþingum
Hér eru birtir útdrættir erinda sem flutt eru á málþingum félagsins. Málþing félagsins eru haldin reglulega. Hægt er að sjá yfirlit yfir í næstu málþing sem skipulögð hafa verið hér
Veiðar við Ísland á sautjándu, átjándu og nítjándu öld
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Hafrannsóknir á síðustu árum átjándu aldar
Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Að morgni 1. júní árið 1791, gekkst Sveinn Pálsson, 29 ára læknanemi við Hafnarháskóla, undir próf í náttúrufræðum hjá Naturhistorie Selskabet í Kaupmannahöfn, fyrstur manna. Að launum fékk hann þriggja ára styrk til rannsókna í heimalandi sínu og viðfangsefnið var bókstaflega allt sem varðaði náttúru þess, meðal annars hafið. Í erindisbréfi Sveins frá 16. júní 1791, var honum gert að kanna fæðuöflun innlendra dýra, ekki síst fiska, með sérstöku tilliti til „fiskenes træk eller reiser eller søgen hen til landet, da derpaa og paa fiskenes føde fiskerierne formodentlig beroe og derved bestemmes.“ Betri skilningur á atferli fiska gat með öðrum orðum stuðlað að auknum afla!
Meðal fárra verkfæra sem Sveinn tók með sér um sumarið voru fiskikarfa úr járni, 400 faðma langur strengur og tvö kíló af snæri sem nýttust með poka sem mun hafa fylgt körfunni. Annað var það ekki.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um veikburða viðleitni Sveins á þessum grundvelli næstu fjögur árin og það í samhengi við tilburði annarra styrkþega Náttúrufræðafélagsins á sömu árum. Byggt verður á ferðabók Sveins en einkum á óbirtum bréfum hans til Náttúrufræðafélagsins þar sem hann oft á tíðum harmar eigin frammistöðu vegna tímaskorts, fjárskorts og tækjaskorts.
Umsvif Hollendinga og starfsemi þeirra á Ströndum á sautjándu og átjándu öld
Ragnar Edvardsson, sjávarfornleifafræðingur á
Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum
Nýlegar rannsóknir benda til þess að umsvif erlendra þjóða við Ísland hafi verið mun meiri en áður var talið allt frá fjórtándu öld og fram á nútíma. Ein þessara þjóða voru Hollendingar, en frá öndverðri sautjándu öld sóttu þeir af krafti til norðurslóða til verslunar, fisk- og hvalveiða.
Íslenskar ritheimildir eru fáorðar um starfsemi Hollendinga á Íslandi á sautjándu og átjándu öld en fornleifarannsóknir á sautjándu aldar hvalveiðistöðvum, öskuhaugum valinna bæjarstæða á Ströndum, íslenskum og hollenskum ritheimildum sýna mikil umsvif Hollendinga að minnsta kosti frá miðri sautjándu öld og langt fram á átjándu öldina. Að auki benda rannsóknirnar til þess að Hollendingar hafi spilað mun stærra hlutverk í einokunarversluninni og að þeir hafi haft talsverð áhrif á sautjándu og átjándu aldar samfélag Íslendinga.
Selveiðar á Íslandi á átjándu og nítjándu öld
Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra
Það hafa löngum þótt viðtekin sannindi í íslenskri söguskoðun – sem sjá má víða – að selveiðar hafi verið stundaðar til búdrýginda hér á landi frá landnámi og fram á tuttugustu öld. Það hefur þó lítið farið fyrir eiginlegum rannsóknum á þessu viðfangsefni.
Í erindinu verður fjallað um selveiðar og selveiðihlunnindi á Íslandi frá átjándu öld til tuttugustu aldar. Byggt verður á rannsókn höfundar á selveiðum við Húnaflóa á þessu tímabili en einnig verður vikið að selveiðum víðar um land. Rætt verður um þátt selveiða og nýtingu selaafurða í lífskjörum og búrekstri á fyrri tíð og velt upp spurningum um hvort og þá hvernig framkvæmd selveiða, nýting selveiðihlunninda og viðhorf til sela og selveiðihlunninda kunni að hafa breyst í tímans rás.
Huldufiskur í hafi: Viðhorf hákarlamanna til hákarlsins á nítjándu öld
Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur
Ætla má að hákarlar nítjándu aldar syndi enn við strendur Íslands með hliðsjón af langlífi þessarar fisktegundar. Hákarlamenn nítjándu aldar og þeirra fley eru hins vegar löngu horfin af haffletinum – en þó ekki af sögusviðinu. Saga hákarlaveiða á nítjándu öld lifir í rituðum heimildum og munnmælum; saga sem gefur einstaka innsýn í samband hákarlamanna og huldufisks norðurhvelsins, hákarlsins (Somniosus microcephalus). Saga sú vitnar um stórbrotið samspil millum manna, hákarla og náttúruafla á hafi úti, sem náði sögulegu hámarki á nítjándu öld þegar mikil uppsveifla varð í hákarlaveiðum. Í fyrirlestrinum er haldið út á hákarlamið nítjándu aldar í því skyni að fanga hugmyndir hákarlamanna þess tíma um hákarlinn. Í anda dýrasögunnar (e. animal history) er hákarlinum hér léð meginvægi.
Rætt er um viðhorf nítjándu aldar hákarlamanna til hákarlsins sem lífveru og afurðar út frá veiðum þeirra og verkun á hákarlinum – og reifað hvernig hákarlinn mótaði sjálfsmynd hákarlamanna.
Af dráttlist, silfursmiðum, silfursmíð, málaralist og höfðaletriá Íslandi á átjándu og nítjándu öld
Dráttlist Sæmundar Hólm
Ásgeir Ásgeirsson, sagnfræðingur
Sæmundur Magnússon Hólm (1749–1821) er líklega fyrsti íslenski lærði listamaðurinn. Sæmundur var bókhneigður bóndason úr Meðallandi sem fékk tækifæri til að ganga menntaveginn, fyrst í heimaskóla, síðan í Skálholtsskóla, loks í Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann útskrifaðist sem guðfræðingur í ársbyrjun 1783. Hann varð um síðir prestur á Helgafelli (1789–1819) þar sem hann átti í mörgum málaferlum að aldarsið.
Það sem einkum heldur nafni hans á lofti er vera hans á Listaakademíunni – fyrstur Íslendinga – þar sem hann vann til verðlauna en varð einnig fyrir vonbrigðum. Eftir hann liggur fjöldi myndverka, einkum kort og teikningar til uppfræðingar eða til að lýsa efni annarra; auk mannamynda (mest rauðkrítarteikningar) sem eru líklega heildstæðasti myndabrunnur hans samtíma. Reynt verður að varpa ljósi á margháttaða dráttlist Sæmundar með hans eigin myndir að leiðarljósi.
Silfursmiðir og silfursmíð á átjándu og nítjándu öld
Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður
Heitin gullsmiður og silfursmiður eru höfð nokkuð jöfnum höndum um þá menn sem sérhæfðu sig í smíði gripa úr þessum málmum. Þekkt eru nöfn ýmissa silfursmiða hérlendis á öllum öldum, jafnvel á miðöldum, en verk sem eigna megi ákveðnum smiðum þeirra eru fæst þekkt fyrr en kemur fram á nítjándu öld. Líklegt er að fáeinir kaleikar og patínur, sem varðveitzt hafa í kirkjum hér frá miðöldum, séu verk íslenzkra gullsmiða.
Á átjándu öld, á tímum upplýsingarstefnunnar, tóku Íslendingar að sækja til Danmerkur til náms í ýmsum iðngreinum, þeirra á meðal allmargir sem lögðu stund á silfursmíð. Þar ytra eru má finna nákvæmar skrár um nema í gullsmíði, og sést þar um námsferil þeirra, meistara og síðan prófsmíð.
Sumir þessara smiða urðu síðan meistarar í iðninni og ílentust ytra, og tóku síðan ýmsir þeirra íslenzka nema til kennslu. Flestir þessara smiða komu þó út aftur að sveinsprófi loknu. Þeir gerðust nær allir bændur er hingað kom, en margir stunduðu þó silfursmíð og aðrar smíðar með búskapnum. Lengi vel var enginn grundvöllur til að geta séð sér og sínum farborða með handiðnum eingöngu.
Í Danmörku hafði lengi verið skylt að meistarar merktu sér gripi sína, einkum vegna skatts sem kóngur lagði á smíðisgripi af silfri yfir ákveðinni þyngd. Nokkrir islenzkir silfursmiðir tóku í lok átjándu aldar að merkja gripi sína, stimpla í þá fangamark sitt, en hér voru ekki ákvæði um merkingu silfurgripa fyrr en löngu síðar. En eftir stimplum, eða rituðum heimildum, svo sem í kirkjustólum, má sjá nöfn smiða er gripina smíðuðu, og síðan má oft rekja aðra gripi til þeirra eftir handbragði.
Námið til sveinsprófs tók að jafnaði um þrjú ár. Að því loknu skiluðu menn sveinsstykki, sem skyldi vera vandaður og vandsmíðaður gripur. Algeng sveinsstykki voru allt frá súpuskeiðum og til kirkjukaleika. Smíðisgripurinn var lagður fram til mats félagsmanna í gullsmiðagildinu og allajafna metinn hæfur til sveinsprófs.
Það sem silfursmiðir hér heima smíðuðu var einkum silfur á kvenbúninga, matskeiðar, súpuskeiðar, staup og bikarar. Sumir smíðuðu kaleika og patínur í kirkjur, en kirkjusilfur þurfti oft að endurnýja. Tíðum var þó kirkjusilfrið fengið frá Danmörku.
Hér á Íslandi er tiltölulega mikið af gömlu dönsku silfursmíð, og er margt af því gert af íslenzkum smiðum ytra, en verk þeirra eru að jafnaði í ritum færð undir danska silfursmíð.
Silfureign var nokkuð algeng meðal hinna æðri stétta þjóðfélagsins, sýslumanna, presta og embættismanna, sem sumir lögðu nokkurn metnað í að eiga fagra og fáséða gripi svo sem sem vandaða silfurgripi.
Flest af hinu gamla, íslenzka silfri, og silfri eftir íslenzka smiði erlendis, er nú komið í söfn, en sumt er þó enn í kirkjum og eitthvað er í einkaeigu. Íslenzkir smiðir munu allajafna hafa smíðað tiltölulega fáa gripi, enda var silfur dýr málmur og vandfenginn, og allajafna urðu menn að leggja silfrið til sjálfir, brotasilfur eða silfurpeninga. Því er tiltölulega lítið til af gömlu íslenzku silfri og eftir fæsta nafnkennda smiði fyrri tíðar er nokkur gripur þekktur, í sumum tilvikum rétt aðeins einn eða tveir.
Þrjú málverk í Nesi. Vangaveltur um táknmynd
Halldór Baldursson, læknir og sagnfræðingur
Blómsturmálarinn Sören Johannes Helt málaði tvær táknmyndir í Nesstofu að beiðni Bjarna Pálssonar landlæknis og myndskreytti einnig prédikunarstól sem var smíðaður í Kaupmannahöfn fyrir kirkjuna í Nesi. Þessi málverk Helts hafa ekki varðveist.
Málverkin tvö í Nesstofu voru endurgerð árið 1987, eftir lýsingu í lokaúttekt hússins 1767. Á öðru málverkinu er merki Íslands sýnt sem flattur fiskur með þrem kórónum í boga þar yfir. Könnun á táknmyndum bendir til þess að kórónurnar þrjár yfir fiskinum séu á misskilningi byggðar. Líklegra er að flatti fiskurinn hafi verið málaður hvítur eða silfurlitur á rauðum grunni með einni gylltri kórónu yfir og þar fyrir ofan á bláum grunni þrjár gylltar kórónur að auki, svipað og var í skjaldarmerki konungs.
Höfðaletur – séríslensk skrautleturgerð
Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir Sesseljudóttir, sérfræðingur við Þjóðminjasafn Íslands
Hið séríslenska höfðaletur þróaðist út frá gotnesku letri á sextándu öld og í fjórar aldir var það fyrst og fremst notað til skreytis í tréskurði. Efniviðurinn og útskurðaráhöld mótuðu útlit stafanna. Höfðaletrið var alþýðulist og nöfn útskurðarmanna eru alla jafna óþekkt. Þrátt fyrir ákveðnar „reglur“ í höfðaleturshefðinni eru afbrigði hennar nánast jafn mörg þeim er skáru.
Höfðaletur var notað á hversdagsgripi og áletranir voru oftast vísur, trúarlegir textar eða sögðu til um eignarhald. Höfðaletrið átti að vera dularfullt og torrætt og ekki áreynslulaust til lesturs. Fjöldi varðveittra gripa með höfðaletursáletrunum ber vitni um vinsældir letursins. Það virðist hafa höfðað ríkt til fegurðarskyns Íslendinga og hefur þann eiginleika að jafnvel þótt útskurðarfærnin sé takmörkuð, og hver og einn stafur klaufalegur og ljótur, er heildarútkoman alla jafna gullfalleg. Þrátt fyrir að blómaskeiði höfðaletursins hafi lokið á ofanverðri nítjándu öld lifði það engu að síður áfram. Efnisnotkun varð fjölbreytilegri og í dag sjáum við höfðaletur einna helst á hvers kyns minjagripum
Rannsóknir ungra sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
„Eins og ein heimilispersóna“. Saumavélar á íslenskum heimilum á nítjándu öld
Arnheiður Steinþórsdóttir, sagnfræðingur
Tilkoma saumavélarinnar hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag. Þegar fyrstu vélarnar bárust til landsins í kringum 1866 upphófst athyglisverð þróun þegar saumavélar fóru úr því að vera munaðarvara yfir í þarfaþing sem finna mátti á flestum heimilum landsins. En hvernig var saumavélinni fundinn staður á íslenskum heimilum? Hvaða áhrif hafði hún á störf kvenna innan heimilisins og hvaða tækifæri fylgdu henni? Í fyrirlestrinum verður fjallað um saumavélar sem heimilistæki á seinni hluta nítjándu aldar og hvernig þær urðu smám saman sem „ein heimilispersóna“.
Legorðsbrot, staða foreldra og trúlofunarsambúð til sjávar og sveita 1750–1800
Unnur Helga Vífilsdóttir, sagnfræðingur
Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn höfundar á legorðsbrotum í íslensku samfélagi á síðari hluta átjándu aldar. Í þessari rannsókn var athuguð tíðni legorðsbrota á tímabilinu 1750–1800 í fjórum prestaköllum á landinu og niðurstöðurnar bornar saman. Einnig kemur þjóðfélagsstaða foreldra inn í myndina þar sem ógiftir og fátækir einstaklingar urðu oft uppvísir af lauslæti. Mikilvægi trúlofunarsambúðar í samfélaginu hafði áhrif, einkum hjá einstaklingum sem ekki gátu eða vildu ganga í hjónaband en bjuggu samt sem áður í hjúskap. Harðindi þessa tímabils settu svip sinn á samfélagið í heild sinni. Almenn fæðingartíðni féll til muna á tímum móðuharðinda. Fæðingartíðni óskilgetinna barna var þó heldur flóknara fyrirbæri og breytileg milli prestakalla og verður gerð skýr grein fyrir þeim muni og hvað gæti hafa haft áhrif.
Eigur vinnuhjúa í Skagafirði um miðja nítjándu öld
Kolbeinn Sturla G. Heiðuson, sagnfræðingur
Í fyrirlestrinum verður fjallað um eignastöðu vinnuhjúa í Skagafirði um miðbik nítjándu aldar. Hin hefðbundna ímynd sem fólk gjarnan hefur af vinnumennsku einkennist einna helst af fátækt, undirokun og erfiðri lífsbaráttu. Vinnuhjú hafa þá gjarnan verið skilgreind sem afmörkuð samfélagsstétt. Raunveruleikinn var þó margslungnari en svo og oft voru skilin milli þess að vera bóndi og vinnuhjú mjög óskýr. Með því að styðjast við heimildir líkt og dánarbú, skiptabækur, manntöl og prestsþjónustubækur er hægt að rekja æviferil einstaklinga og bera hann saman við þær eignir sem þeir skildu eftir sig. Vinnuhjú á fleiri en einum bæ eru þá borin saman með tilliti til eignastöðu, aldurs, kyns og uppruna til að gera grein fyrir því hversu fjölbreyttur hópur þetta var í raun og veru.
Fyrirmyndarmenn. Karlmennskuhugmyndir í Árbókum Lærða skólans á nítjándu öld
Þórey Einarsdóttir, sagnfræðingur
Erindið fjallar um rannsókn höfundar á karlmennskuhugmyndum í Lærða skólanum, og hvernig þær birtast á síðum Árbóka Lærða skólans, einskonar annálum sem skólapiltar skrifuðu á tæplega 30 ára tímabili seint á nítjándu öld og í upphafi tuttugustu aldar. Höfundur athugar fimm ár við upphaf og endi Árbóka Lærða skólans þ.e. tímabilin 1874–1879 og 1897–1902. Stuðst var við kenningar Raewyn Connell um stigveldi karlmennskunnar og samfélagsstaða skólapilta skoðuð út frá hugmyndum Connell. Markmið rannsóknarinnar var að lesa af síðum Árbóka Lærða skólans hvaða hugmyndir skólapiltar í Lærða skólanum höfðu um karlmennsku og hvernig þær samræmdust viðhorfum í samtíð þeirra.
Af heilbrigðismálum á Íslandi á átjándu og nítjándu öld
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Heilsufar skólapilta í Hólavallarskóla 1785–1804
Sveinn Magnússon, læknir
Farsóttir, harðindi og hallæri herjuðu endurtekið á Íslendinga á átjándu öld og léku heilsufar þjóðarinnar grátt. Þjóðfélagsbreytingar og endurteknar náttúruhamfarir urðu til þess að Skálholtsskóli var lagður niður 1784, eftir aldalanga starfsemi. Í stað hans var Hólavallarskóli settur á laggirnar í Reykjavík og tók hann til starfa 1786. Ýmsar frásagnir má finna um bágborinn aðbúnað nemenda í skólanum, ekki síst vegna þess hve skólabyggingin með heimavistinni var léleg.
Í erindinu verður greint frá heilsufari nemendanna, einkum verður rakin skýrsla Sveins Pálssonar setts landlæknis, sem skoðar alla piltana vorið 1804.
Helsta sjúkdómsgreining hans er skyrbjúgur og verður lauslega greint frá eðli hans. Segja má að dapurleg lýsing Sveins Pálssonar á hörmulegu ástandi á heilsufari skólapiltanna vegi þungt í þeirri ákvörðun yfirvalda að leggja skólann niður og flytja hann til Bessastaða.
Saga flogaveiki á Íslandi á átjándu og nítjándu öld
Brynhildur Lea Ragnarsdóttir, sagnfræðingur
Aðeins ein ritgerð hefur verið tekin saman um flogaveiki á Íslandi fyrir aldamótin 1900. Þó hefur veikin verið þekkt hér á landi að minnsta kosti frá sautjándu öld. Fjallað er um flogaveiki í handriti í lækningabók frá árinu 1686. Í öðrum handritum frá átjándu öld má finna hin ýmsu „lækningaráð” við niðurfallssýki, líkt og sjúkdómurinn var oftast kallaður í þá daga, og mögulegar orsakir hans.
Ekki eru til heimildir um hve margir voru flogaveikir á átjándu öld. Frá og með árinu 1804 var héraðslæknum gert skylt að senda heilbrigðisskýrslur til Kaupmannahafnar, meðal annars um þá sjúkdóma sem þeir greindu hjá landsmönnum. Þar eru að minnsta kosti 344 tilfelli skráð, þó aðeins 64 fyrir árið 1876 enda fjölgaði þá læknishéruðum úr átta í 20. Flestir læknar á Íslandi virðast þó hafa þekkt sjúkdóminn en þess má til dæmis geta að fyrsti landlæknir Íslands, Bjarni Pálsson (1719–1779), var sjálfur flogaveikur undir lok ævi sinnar.
Ekki er gott að segja til um hvert viðhorf samfélagsins til flogaveikra var á þessum árum en tilgátur eru um það og má ef til vill lesa á milli línanna í drauga- og álfasögum frá tuttugustu öld, þar sem persónur þeirra þjóðsagna áttu sér hliðstæður í lifanda lífi á átjándu og nítjándu öld.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir hvað vitað var um flogaveiki á átjándu og nítjándu öld, hvað talið var orsaka sjúkdóminn og helstu lækningar og ráð við honum. Einnig verður skoðað hve margir greindust með flogaveiki á nítjándu öld og reynt að varpa ljósi á samfélagsstöðu þeirra sem þjáðust af sjúkdómnum.
Refsing fyrir skottulækningar (kvaksalverí) á Íslandi –
230 ár frá gildistöku tilskipunarinnar
Erla Dóris Halldórsdóttir, sagnfræðingur og formaður Félags um
átjándu aldar fræði
Í fyrirlestrinum verður fjallað um tilurð tilskipunar um refsingu fyrir skottulækningar (kvaksalverí) á Íslandi. Þann 5. september 1794 gekk umrædd tilskipun í gildi fyrir Danmörku og Noreg og var hún lesin upp á Alþingi á Þingvöllum 10. júlí 1795. Dæmi er um að þessi tilskipun hafi kallast „hlaupalæknastraff“ á íslensku.
Í tilskipuninni var notast við orðið „kvaksalverí“ um ólöglegar lækningar og þeir sem stunduðu þannig lækningar, konur og karlar, voru kallaðir „kvaksalvere“. Ef þeir ollu heilsutjóni hjá fólki með ólöglegum lækningum sínum skyldi þeim refsað.
Á Íslandi, sem og í öðrum ríkjum Danakonungs, var í gildi tilskipun um lærða lækna og lyfsala frá 4. desember 1672 (hún var lesin upp á Alþingi á Þingvöllum 20. júlí 1773) og í henni kom fram að til þess að fá viðurkenningu sem læknir og lyfsali urðu læknar að hafa lokið doktorsprófi frá læknadeild Hafnarháskóla, og lyfsalar einnig prófi frá deildinni, fengið starfsleyfi og svarið eið.
Í fyrirlestrinum verður m.a. leitað svara við því hvenær íslenska orðið „skottulæknir“ kemur til sögunnar. Í tilskipuninni um refsingu fyrir kvaksalverí frá 5. september 1794 var almenningur varaður stórlega við því að leita til ólærðra kvenna eða karla og eiga á hættu að fá skaðlega læknismeðferð hjá þeim. Fólk átti þvert á móti að nýta sér þjónustu lærðra lækna og þeirra sem höfðu leyfi yfirvalda til að sinna lækningum. En læknisembættin hér á landi voru fá og ef fólk átti við heilsubrest að stríða leitaði það á náðir þeirra sem höfðu orð á sér fyrir að vera góðir „læknar“.
Kæra á hendur Árna Sveinssyni, hlaupalækni, fyrir lækningatilraunir hans á nítjándu öld
Jón Torfason, íslenskufræðingur
Árni Sveinsson (1771–1839) var ólærður læknir sem starfaði í Húnaþingi á árunum 1817–1820. Hann var fæddur á Suðurlandi en dvaldi í Húnaþingi í fimm til sex ár. Þaðan fór hann til Vestfjarða og bar þar beinin. Árið 1820 var hann kærður fyrir ólöglegar lækningar, lausamennsku og fals og hlaut dóm fyrir flakk og lausamennsku en var sýknaður í yfirrétti fyrir lækningarnar, m.a. með þeim rökum að hann hefði engan skaðað og enginn lærður læknir væri til staðar í héraðinu.
Í yfirheyrslum yfir Árna kom ýmislegt fram um lækningar hans, hvar og af hverjum hann nam það sem hann kunni og hvaða bækur hann studdist við. Fram kemur að hann notaði mikið íslenskar jurtir og bjó til úr þeim seyði til inngjafar. Einnig gerði hann plástra og bakstra til að leggja við meinsemdir. Þá hankaði hann menn og tók þeim blóð, aðallega með svonefndri hornsetningu.
Með dómsskjölunum liggja 38 vottorð frá fólki sem hafði notið aðstoðar Árna og eru 11 þeirra undirrituð af konum, nær því þriðjungur. Þar er lýst meinsemdum sem höfðu yfirleitt batnað við aðgerðir Árna og stundum er greint frá því hvaða læknisaðgerðum hann beitti.
Hér fyrir neðan er sýnishorn af vottorði frá Ingveldi Sigurðardóttur á Illugastöðum, dagsett 9. október 1820, þar sem hún gefur Árna Sveinssyni bestu meðmæli vegna tilraunahreinsunar hans með stólpípu og batnaði henni þembingurinn.
Hrappseyjarprentsmiðja —250 ár frá stofnun hennar
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 14. október 2023.
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Tilkoma Hrappseyjarprents og helstu aðstandendur prentsmiðjunnar
Hrafnkell Lárusson, nýdoktor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands
Átjándu öldinni hefur víða verið lýst sem öld róttækra hugarfarsbreytinga, einkum í stjórnmálum, trúmálum og vísindum, og ýmsar þær hræringar sem þá áttu sér stað hafa verið kenndar við upplýsinguna. Yfirvöld á þessum tíma leituðust þó jafnan við að stýra umræðu og flæði upplýsinga, með valdbeitingu ef með þurfti. Þrátt fyrir tilvist ritskoðunar jókst blaða- og tímaritaútgáfa í Danmörku á síðustu áratugum átjándu aldar og má tengja tilkomu Hrappseyjarprentsmiðju við hræringar sem þá urðu í dönsku þjóðlífi.
Í þessu erindi verður rætt um tilurð þess að fyrsta veraldlega prentsmiðja landsins var sett upp í Hrappsey á Breiðafirði og sagt frá hlutverki þeirra sem voru mest áberandi í hópi aðstandenda Hrappseyjarprents.
Helstu efnisflokkar í útgáfuritum Hrappseyjarprentsmiðju
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands
Frá því að prentverk var fyrst flutt til Íslands um 1530 höfðu kirkjunnar menn stjórnað bókaútgáfu í landinu og lagt höfuðáherslu á trúarleg rit. Einokun kirkjunnar á prentun bóka var ekki aflétt fyrr en 1773 með stofnun prentsmiðju í Hrappsey á Breiðafirði og urðu þá tímamót í útgáfu veraldlegra rita á Íslandi. Þar voru prentuð 83 rit, flest veraldlegs eðlis, en trúarrit sem komu þar út má telja á fingrum annarrar handar enda var markmiðið að skemmta og fræða í anda upplýsingarinnar. Meðal ritanna voru lögbækur, rímur, kvæði, fræðslurit, annálar og Íslendingasögur. Þar var líka gefið út fyrsta íslenska tímaritið, Islandske Maaneds-Tidender, sem reyndar var skrifað á dönsku og einkum ætlað þeim mörgu áskrifendum útgáfunnar sem búsettir voru í Danmörku.
Í fyrirlestrinum verður hugað að útgáfuritum Hrappseyjarprentsmiðju sem eru eins konar sýnishorn af bókmenntum átjándu aldar og hugðarefnum upplýsingarinnar.
Islandske Maaneds-Tidender, 250 ára útgáfuafmæli.
Tilurð og efnistök fyrsta íslenska tímaritsins
Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, sagnfræðingur og sérfræðingur á Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns
Í október 1773 kom út fyrsta íslenska tímaritið með fréttum frá Íslandi og síðar einnig fræðsluefni. Tímaritið var fyrsta afurð Hrappseyjarprents og kom út mánaðarlega á árunum 1773–1776, alls 36 tölublöð. Þriðji árgangur 1776 var prentaður í Kaupmannahöfn og kom út í heilu lagi en þrátt fyrir áframhaldandi skrif voru ekki fleiri tölublöð prentuð sem vekur upp spurningar af hverju tímaritaútgáfan leið undir lok.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um hverjir komu að tímaritinu, sem að mestu var eins manns verk, tilurð þess, umfang og efnistök. Hver var markhópurinn og hvaða tilgangi þjónaði útgáfan? Hvað fannst aðstandendum tímaritsins markvert að segja frá varðandi land og þjóð og gáfu skrifin raunsanna mynd af aðstæðum og daglegu lífi landsmanna?
Breytingar á útgáfu bóka fyrir íslenskan almenning
með tilkomu Hrappseyjarprentsmiðju
Kristín Bragadóttir, sagnfræðingur
Eitt af því sem hafði skapað íslenskri bókmenningu sérstöðu á undangengnum tveimur öldum var hagnýting prentlistarinnar á trúarlegu efni. Með Hrappseyjarprentsmiðju varð breyting á. Hérlendis birtust áhrif hinnar nýju stefnu, upplýsingarstefnunnar, meðal annars í auknum áhuga á högum íbúanna, náttúru, sögu og fornum ritum og í kjölfarið fylgdi stóraukin útgáfa á ritum sem tengdust Íslandi. Gerð var krafa um rit sem að gagni kæmu í daglegum störfum.
Nauðsynlegt var að endurnýja tól og tæki. Hrappseyjarprentsmiðja átti 11 leturgerðir í upphafi en síðar var tveimur nýjum bætt við. Rauður litur var ekki notaður á letri prentsmiðjunnar. Tréristur sem notaðar voru til skreytinga voru keyptar erlendis. Rekstur prentsmiðjunnar var erfiður og dreifing örðug.
Í erindinu verður fjallað um nokkur rit sem höfðu þann tilgang að kenna bændum að verða betri bændur.
Af Íslendingum í Kaupmannahöfn á átjándu öld
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 25. mars 2023
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Hið íslenska lærdómslistafélag í Kaupmannahöfn
Margrét Gunnarsdóttir, sagnfræðingur og skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands
Í fyrirlestrinum verður fjallað um stofnun Hins íslenska lærdómslistafélags í Kaupmannahöfn haustið 1779 og starfsemi þess. Félagið hafði að einkunnarorðum, „Gudi! Konúnginum! og Fødurlandinu!“ og naut ríkulegs stuðnings frá krúnunni enda hafði félagið þýðingu við að treysta tengslin á milli Íslands og Danmerkur.
Rit hins íslenska lærdómslistafélags, sem komu út árlega um fjórtán ára skeið, voru einn helsti vettvangur félagsins. Efni þess sýnir að félagið hafði að markmiði að stuðla að atvinnuumbótum á Íslandi og líktist því í ýmsu svokölluðum efnahagsfélögum sem þá voru starfrækt víða í Evrópu og í Norður-Ameríku. Félagsmenn, sem skráðir eru fremst í ritum þess, voru hátt settir danskir embættismenn, íslenskir embættismenn og námsmenn, en einnig komu félagsmenn lengra að, m.a. fengu nokkrir Bretar inngöngu í félagið. Félagið stuðlaði því að auknum tengslum Íslands og umheimsins.
Við andlát forseta félagsins Jóns Eiríkssonar, konferensráðs, vorið 1787 urðu nokkrar væringar í stjórn þess. Gjaldkeri félagsins Magnús Stephensen, vildi flytja starfsemina til Íslands eins og kemur fram í sendibréfum frá Andreasi Thodal, fyrrverandi stiftamtmanni á Íslandi, til Gríms Thorkelín, síðar leyndarskjalavarðar. Thodal, sem búsettur var í Kaupmannahöfn, varð forseti við fráfall Jóns. Stefna Jóns í þessum efnum var sú að aðalstarfsemi félagsins færi ætíð fram í Kaupmannahöfn og það yrði aldrei flutt til Íslands. Með því móti gæti félagið stuðlað að sterkri stöðu Íslands innan Danaveldis. Félagið fékk viðurkenningu krúnunnar sumarið 1787 og nefndist upp frá því Hið konunglega íslenska lærdómslistafélag.
Hlutur Íslendinga í þjóðernismyndun Dana
Auður Hauksdóttir, prófessor emeritus í dönsku við Háskóla Íslands
Kenningar um föðurlandsást (patriotisme) og þjóðernishyggju (nationalisme) ruddu sér til rúms í Danmörku á átjándu og nítjándu öld. Hægt var að vera vinur föðurlands síns án þess að hafa vald á tungu þess, en þau viðhorf breyttust með tilkomu kenninga um þjóðerni og þjóðernismyndun, þar sem móðurmál og menning voru í brennidepli. Slíkt var ekki einfalt í fjöltyngdu ríki eins og því danska.
Hertogadæmin Slésvík og Holstein voru hluti af ríki Danakonungs og skiptu miklu máli í efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Margir Þjóðverjar voru búsettir í Danmörku, einkum í Kaupmannahöfn, þar sem þeir máttu sín mikils. Þýsk áhrif voru áberandi í menningu, vísindum og listum og danskan átti undir högg að sækja vegna sterkra áhrifa frá þýskri tungu. Frá sjónarhóli kenninga um föðurland og þjóðerni þótti slík þróun óæskileg og því fóru Danir í auknum mæli að horfa til fortíðar og þess sem menning þeirra og tunga átti sameiginlegt með öðrum Norðurlandabúum. Straumhvörf urðu á átjándu öld, þegar Danir lögðu til atlögu við þýsk áhrif – einkum á danska tungu. Í því sambandi gegndi íslensk tunga og menning veigamiklu hlutverki.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um kenningar um hlutverk tungumála í tengslum við þjóðernismyndun og hvaða þýðingu þær höfðu í dönsku samhengi. Þá verður varpað ljósi á það hlutverk sem íslenskar bókmenntir gegndu við þjóðernismyndun Dana og hvernig íslensk tunga studdi við hugmyndir þeirra um danskt þjóðerni.
Jón Eiríksson, íslenskur landsfaðir á átjándu öld
Hrafn Sveinbjarnarson, sagnfræðingur og héraðsskjalavörður
Jón Eiríksson er á margan hátt upphafsmaður í íslenskri sögu, í sagnaritun, stjórnmála-, réttar- og verslunarsögu, einnig í félagsmálum og tímaritsútgáfu í Lærdómslistafélaginu og í gjörðum sínum sem embættismaður og fræðimaður. Arfleifð hans og áhrif má sjá í ýmsu og verður tæpt á því að nokkru. Fylgismenn Jóns hófu þegar að skapa honum ímynd að honum látnum og að mörgu leyti var það auðvelt þar sem orðstír hans var góður í lifanda lífi. Helsta heimild um líf Jóns og störf er ævisaga hans eftir Svein Pálsson. Tveir listamenn af íslensku bergi brotnir þeir Bertel Thorvaldsen og Ólafur Ólafsson gerðu myndir af Jóni. Um þær verður einnig fjallað.
Um fræðastörf Jóns Ólafssonar úr Grunnavík í Kaupmannahöfn
Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Í erindinu verður sagt stuttlega frá uppruna Jóns Ólafssonar Grunnvíkings, erindi hans til Kaupmannahafnar haustið 1726 og stöðu hans og kjörum þar í borg nær ævilangt. Nefnd verða helstu ritverk sem Jón vann að sem fyrsti styrkþegi Árnasjóðs við Árnasafn í Kaupmannahöfn sem voru þessi:
Skrár yfir handrita- og bókasafn Árna Magnússonar og skrá yfir íslensk fornbréf.
Uppskriftir á kveðskap og fornyrðaskýringum Páls Vídalíns lögmanns.
Uppskrift á fyrsta hluta Heiðarvíga sögu.
Rúnareiðsla og ritgerð um íslenska réttritun.
Íslensk-latnesk orðabók.
Mannanafnatal.
Rit um ævir og ritverk lærðra manna íslenskra.
Hagþenkir.
Fiskafræði.
Steinafræði.
Undirbúningur að útgáfu Knytlinga sögu.
Undirbúningur að útgáfu Snorra Eddu.
Contractismus og Polychrestis.
Yfirlit yfir ævi Jóns Ólafssonar Grunnvíkings:
Fæddur að Stað í Grunnavík í Jökulfjörðum um miðjan ágúst 1705.
Ólst upp í Víðidalstungu og var þénari Páls Vídalíns lögmanns 1712–1726.
Sigldi með Skagastrandarskipi til Kaupmannahafnar haustið 1726.
Skrifari Árna Magnússonar 1726–1730.
Lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1731.
Styrkþegi Árnasjóðs í Árnasafni í Kaupmannahöfn 1732–1743.
Var á Íslandi við skriftir, lengst á Þingeyrum, 1743–1751.
Styrkþegi Árnasjóðs í Árnasafni í Kaupmannahöfn 1751–1779.
Jón Ólafsson lést í Kaupmannahöfn 17. júní 1779.
Ástarjátningar í bréfum og dagbókum á átjándu og nítjándu öld
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 11. febrúar 2023
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
„Ég er þinn elskari“: Orðræða ástarinnar í bréfum Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1824–1832
Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Ástir tókust með Baldvini Einarssyni, sem þá var í Bessastaðaskóla, og Kristrúnu Jónsdóttur, heimasætu í Stærra-Árskógi veturinn 1824. Þau ætluðu að eigast og höfðu áform um að hún færi með Baldvini til Kaupmannahafnar þegar hann fór þangað til náms árið 1826. Það gekk ekki eftir og svo fór, þrátt fyrir hástemmdar ástarjátningar, að Baldvin féll fyrir danskri fegurðardís. Hún varð barnshafandi og þau giftust 1828. Ástarbréfin héldu þó áfram að streyma til Kristrúnar allt til þess Baldvin dó af eldi snemma árs 1833. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ástina eins og hún birtist í sendibréfum Baldvins til Kristrúnar (aðeins hans hlið er varðveitt) og hún sett í samhengi við orðræðu ástarinnar í sendibréfum (og bókmenntum) á þessum tíma.
„Elskan brenndu bréfið“: Ástarbréfin í Kvennasögusafni Íslands
Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri Kvennasögusafns Íslands
Ástarbréf eru vitnisburður um tjáða ást. Sem efnislegur hlutur eiga þau sér framhaldslíf óháð tímanum sem þau voru skrifuð á. Hægt er að halda á bréfunum, faðma þau að sér og lesa aftur og aftur. Bréfin geta breyst með tímanum og borið merki þess hvernig þau voru meðhöndluð. Til að mynda geta þau varðveitt tárin sem hafa fallið við lestur þeirra. Það er líka hægt að brenna þau.
Það er fágætt að ástarbréf endi á skjalasafni þar sem þau eru gerð aðgengileg rannsakendum og öðrum enda eru þau oftast í eðli sínu tilfinningarík og persónuleg. Sum ástarbréf eru þó skrifuð með það í huga að þau verði varðveitt á skjalasöfnum eins og söfnum Landsbókasafns. Hvers konar ástarbréf eru afhent Kvennasögusafni til varðveislu? Hver skrifaði þau og fyrir hvern var verið að skrifa? Hver afhendir þau og er þeim ritstýrt fyrir afhendingu? Hvernig er aðgengi að þeim og hvernig er að kafa ofan í einkalíf annarra í fræðilegum tilgangi?
„Loksins varð ég þó skotinn!“: Um leynda staði í dagbók Ólafs Davíðssonar
Þorvaldur Kristinsson, bókmennta- og kynjafræðingur
Dagbók Ólafs Davíðssonar sem varðveitt er á Landsbókasafni birtist fyrst á bók árið 1955, en í ritskoðaðri útgáfu. Meðal annars hafði útgefandi þar eytt einu og öðru sem varðaði bæjarslúður í Reykjavík veturinn 1881–1882, en einnig hafði hann máð út alla þá staði, smáa og stóra, þar sem dagbókarritarinn, 19 ára, víkur að ástarhug sínum til ungs skólabróður og þörfum hvatalífsins. Dagbókin kom síðan út á bók í annað sinn, óstytt og þá án allra úrfellinga, árið 2018.
Í fyrirlestrinum er vikið að þessum stöðum, leitast við að greina inntak þeirra og varpa á þá ljósi, en síðan rætt um sögulegar forsendur textans og það vitundarlíf sem stýrði skrifum dagbókarritara. Í hvaða vitundarheimi var sá ungi Ólafur staddur þegar hann ritaði dagbók sína?
Af tilhugalífi Sighvats Grímssonar Borgfirðings og Ragnhildar Brynjólfsdóttur
Davíð Ólafsson, lektor í menningarfræði við Háskóla Íslands
Hinn 29. nóvember 1865 gengu vinnuhjúin Ragnhildur Brynjólfsdóttir og Sighvatur Grímsson í hjónaband í Múlakirkju á Barðaströnd. Hjúskapur þeirra stóð í 65 ára, allt þar til Sighvatur lést í janúar 1930, en Ragnhildur lifði mann sinn í rúmt ár.
Sighvatur hélt dagbók öll sín fullorðinsár, frá árinu 1863 til dánardags. Þar má finna skráningar sem tengjast samdrætti þeirra og hjónabandi, sem þó eru jafnan bæði fálátar og stuttorðar. Samhliða dagbókaskrifunum safnaði Sighvatur frumsömdum kvæðum sínum í kver sem hann nefndi Syrpu og þar kveður við annan tón.
Í þessum fyrirlestri verða þessar ólíku heimildir um tilhugalíf og hjúskap Ragnhildar og Sighvats lesnar saman, auk þess sem þær verða bornar saman við aðra vitnisburði um tilfinningasamband þeirra.
Gunnlaugur Briem sýslumaður - 250 ára fæðingarafmæli
Valgerður Árnadóttir Briem
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 14. janúar 2023
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Gunnlaugur Briem
Gunnlaugur Briem og jarðamatsnefndin 1800–1806
Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Meðfram námi í höggmyndalist við Listaháskólann í Kaupmannahöfn kynnti Gunnlaugur sér lögfræði og önnur hagnýt málefni, vitandi vits að fáum tókst að lifa af listinni. Frami hans var skjótur því fljótlega að loknu lögfræðiprófi varð hann aðstoðarsýslumaður í Eyjafjarðarsýslu — og ekki nóg með það heldur gekk hann að eiga systurdóttur sýslumanns. Gunnlaugur var þó ekki fyrr tekinn til starfa vorið 1800 að hann var skipaður í nefnd um nýtt jarðamat á Íslandi sem átti að koma í stað hinnar fornu skipunar um dýrleika jarða. Með honum voru þrír ungir menn á hraðri uppleið, þeir Ludvig Erichsen, Stefán Stephensen og Árni Sívertsen. Hugmyndin var að næstu sex árin færi nefndin um allt land og hitti bændur og jarðeigendur, með það að markmiði að mat á jörðum yrði framvegis í betra samræmi við landgæði og hlunnindi. Önnur verkefni nefndarinnar voru að endurskoða sóknaskipan og meta hvaða kirkjur mætti leggja niður. Einnig var henni ætlað að gera tillögur um embættisbústaði sýslumanna og lækna. Gunnlaugur var atkvæðamikill í þessu starfi og annaðist einkum Norðurland og Vesturland. Hann skrifaði stjórnvöldum ytra ótal bréf, ýmist einn eða með öðrum. Sum þeirra sýna skapgerð hans og jafnframt birtast óraunhæfar væntingar og líka vitund um eigin takmarkanir. Í erindinu verður lögð áhersla á slík textabrot um leið og lýst verður framvindu hins mikla en misheppnaða verkefnis sem jarðamatið var.
Gunnlaugur Briem sýslumaður — embættisverk
Rúnar Már Þráinsson, sagnfræðingur
Embættisverk Gunnlaugs Briem eru um margt athyglisverð. Hann fór ekki varhluta af byltingaranda meginlandsins en starfaði þó fyrir upphaf sterkrar þjóðernishyggju á Íslandi. Þetta umhverfi virðist hafa hentað Gunnlaugi vel og hann átti velgengni að fagna í lífi og starfi. Hann var sýslumaður í tæplega 30 ár og bjó lengst af á höfuðbólinu Grund í Eyjafirði. Með konu sinni Valgerði Árnadóttur eignaðist hann tíu börn og af þeim komust sjö á legg. Hann lét skoðanir sínar óspart í ljós og eftir hann liggja fræðilegar ritgerðir og álitsgerðir.
Í erindinu verður gerð tilraun til að varpa ljósi á persónu Gunnlaugs á grundvelli embættisverka hans sem sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu. Helst verða tekin til umfjöllunar tvö atriði. Annars vegar viðbrögð hans við tilskipunum Jörgen Jörgensen í júní og júlí 1809, sem voru um margt einstök, og hins vegar strangleiki hans gagnvart níðvísum og meiðyrðum.
Valgerður Árnadóttir Briem — Frúin á Grund 1779–1872
Guðný Hallgrímsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur
Valgerður Árnadóttir Briem
Lengst af var Valgerður Árnadóttir Briem sýslumannsfrú í Eyjafirði og oft kölluð „Frúin á Grund“ enda bjó hún næstum sextíu ár ævi sinnar á þeim bæ. Valgerður fæddist hins vegar á Snæfellsnesi og rak ættir sínar til útvegsbænda og virðulegra embættismanna. Aðeins fjögurra ára gömul var hún send í fóstur til ættingja í Eyjafirði, þar sem hún forframaðist á virtu sýslumannssetri. Allt til fullorðinsára naut hún faglegrar uppfræðslu fósturmóður sinnar, Sigríðar Stefánsdóttur, einnar valdamestu konu landsins á þeim tíma. Tvítug giftist hún síðan Gunnlaugi Briem, aðstoðarmanni föður hennar, en með honum eignaðist hún tíu börn.
Valgerður þótti gáfuð og glæsileg og naut virðingar meðal fólks. Svo vinsæl var hún að erlendir gestir sem hér ferðuðust um í upphafi nítjándu aldar minntust á hana í skrifum sínum. Í erindinu verður stiklað á stóru um líf Valgerðar og skoðað hvernig hún beitti valdi sínu til að storka úreltu kynjakerfi tímabilsins.
Úr bréfi frá íslendskum qvennmanni“: Kristjana Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem
Helga Kress, prófessor emerita í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands
Kristjana Jóhanna (1805–1886) var þriðja elst af tíu börnum foreldra sinna, Gunnlaugs Guðbrandssonar Briem, sýslumanns á Grund í Eyjafirði, og konu hans Valgerðar Árnadóttur, og önnur tveggja dætra þeirra, samnafna yngri systurinnar, Jóhönnu Kristjönu (1813–1878). Tíu ára að aldri fékk hún að fara með föður sínum og tveimur bræðrum til Kaupmannahafnar þar sem hún, að sögn frænku hennar, rithöfundarins Benedicte Arnesen Kall (1813–1889), hreifst svo af glæstri menningu stórborgarinnar, að hún undi sér ekki eftir það á Íslandi. Frá þessu segir Benedicte í stórmerkum endurminningum sínum, Livserindringer (1886), sem eru ein helsta heimild um ævi Jóhönnu og mjög verður stuðst við í fyrirlestrinum. Átján ára fékk Jóhanna því að fara aftur til Kaupmannahafnar, þar sem henni var í fyrstu komið fyrir og hún „kaupmannahafnarseruð“ hjá móðurbróður sínum, og föður Benedicte, Páli Árnasyni (Arnesen), orðabókarhöfundi, en síðan á heimili prófessorsins Børge (Birgis) Thorlacius sem fylgismær konu hans, einnig að nafni Benedicte. Með þeim fór hún vorið 1826 í tveggja ára „grand tour“ um Evrópu með lengstri viðdvöl í Róm, þar sem hún m.a. hitti myndhöggvarann Bertel Thorvaldsen, gamlan vin og skólabróður föður hennar frá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn, og var hjá honum í jólaboði.
Að sögn frænkunnar Benedicte vakti Jóhanna mikla athygli í Róm fyrir fegurð og fágaða framkomu og var flautað á eftir henni á götu. Er viðurnefni Jóhönnu, „fagra“, Danir kölluðu hana „den skønne Islænderinde“, ef til vill þaðan komið. Frá þessari ferð segir Jóhanna sjálf í tveimur bréfum sem varðveist hafa, annað til föðurins á Íslandi, skrifað á íslensku, og hitt til móðurbróðurins í Kaupmannahöfn, skrifað á dönsku, bæði dagsett í Róm í janúar 1827. Ellefu árum síðar birtist bréfið til föðurins nafnlaust og nokkuð stytt í Sunnanpóstinum 1838 undir heitinu „Úr bréfi frá íslendskum quennmanni. Skrifað í Róm 21ta Janúar 1827“. Ekki vitað hver kom bréfinu til Sunnanpóstsins, en ekki hefur það verið Jóhanna sjálf sem kom aldrei aftur til Íslands, þá löngu gift kona þýskum menntamanni, Carl Schütz að nafni, í Bielefeld í Þýskalandi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi bréf og því velt fyrir sér, með tilvísunum í ýmsar samtímaheimildir, hvaða hlutskipti hefði beðið Jóhönnu hefði hún komið aftur til Íslands sem hún hafnaði.
Heimild mynda: Briemsætt: Niðjatal Gunnlaugs Guðbrandssonar Briem, sýslumanns á Grund og konu hans, Valgerðar Árnadóttur. Eggert P. Briem og Þorsteinn Jónsson tóku saman niðjatal. Reykjavík: Sögusteinn, 1990, bls. 21, 25, 53.
Af sjálfsævisögum frá átjándu og nítjándu öld
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 12. nóvember 2022
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 12. nóvember 2022
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Þorsteinn Pétursson á Staðarbakka og sjálfsævisaga hans
Hjalti Hugason, prófessor emeritus í kirkjusögu við Háskóla Íslands
Séra Þorsteinn Pétursson (17101785) á Staðarbakka í Miðfirði hóf prestskap á merkilegu skeiði í íslenskri kirkjusögu. Þar er átt við tímabilið sem mótaðist af eftirlitsstörfum séra Ludvig Harboe hér á landi en á því skeiði gerði Danakonungur markvissa atlögu að því að „nútímavæða“ kirkjuna hér og störf hennar.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um séra Þorstein Pétursson en þó einkum ævisögu hans sem hann hann hóf að færa í letur 1750 og jók við hartnær til æviloka.
Sýnt verður fram á að ævisagan gefur um margt einstaka sýn á íslensku kirkjuna á því tímabili sem hún spannar. Einnig verður bent á hvernig efnistök og skráningaraðferð Þorsteins, sem vissulega var ætlað að auka trúverðugleika sjálfsskrifa hans, draga í raun úr heimildagildi þeirra og gera þau stöðluð og klisjukennd. — Þrátt fyrir það má víða greina persónuleg átök einstaklings í gleði en þó ekki síður þraut!
Dirfska og vandræðagangur Magnúsar Stephensen dómstjóra
Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands
Magnús Stephensen
Í erindinu verður rætt um sjálfsævisögu Magnúsar Stephensen dómstjóra (1762–1833) en þar sem hún nær eingöngu til 1788 verður leitað í aðrar persónulegar heimildir, m.a. ferðadagbækur hans (allar nú útgefnar), varnarritið 1815 og einkabréf. Áhersla verður lögð á frammistöðu hans á Napóleons-styrjaldarárunum 1807–1814.
Hvernig karakter var Magnús Stephensen? Eitt er víst, hann þjáðist ekki af minnimáttarkennd. Hann var „merkur Íslendingur“ og því viðeigandi að sjálfsævisaga hans sé birt í ritröðinni Merkir Íslendingar. „Mikill áhrifavaldur í sögu Íslands“ skrifar Örn Hrafnkelsson og er sjálfsagt að taka undir þau orð. Hann var dyggur embættismaður konungs en einnig mikill föðurlandsvinur, sannkallaður patríót. Hann var raunsær og djarfur. Þegar ófriður milli Dana og Breta hófst 1807, áttaði hann sig á „veldi Englendinga“ og máttleysi Dana og hratt af stað atburðarás sem bjargaði Íslandsversluninni og forðaði landsmönnum frá alvarlegri hungursneyð. Bjargvættur Íslendinga.
Magnús var umdeildur á sínum tíma og átti í útistöðum við margan samtímamanninn. Þótti hann til dæmis tvöfaldur í roðinu í samskiptum sínum við Jörgensen 1809. Neyddist hann til að sigla til Kaupmannahafnar eftir að styrjöldinni lauk og leggja fram varnarrit sitt fyrir Kaas dómsmálaráðherra. Hann fékk uppreisn æru.
Dönsk sýslumannsfrú á Austurlandi. Endurminningar Gythe Thorlacius um árin 1801–1815
Margrét Gunnarsdóttir, sagnfræðingur og skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands
Gythe Thorlacius
Í fyrirlestrinum verður fjallað um Gythe (Gyðu) Thorlacius, f. Howitz (1782–1861), og líf hennar á Íslandi í upphafi nítjándu aldar eins og það birtist í endurminningum hennar. Gyða fluttist hingað til lands frá Kaupmannahöfn nítján ára gömul árið 1801. Þá var hún nýgift Þórði Thorlacius (1774–1850), nýskipuðum sýslumanni á Austurlandi. Napóleonsstríð geisuðu og í þeirri óvissutíð sem fylgdi þurfti hin unga Gyða að takast á við gleði og sorgir lífsins víðsfjarri heimahögunum.
Gyðu var margt til lista lagt og samhliða önnum við heimilisstörf og barnauppeldi hóf hún m.a. garðrækt. Danska Landhusholdningsselskabet verðlaunaði Gyðu fyrir þá iðju. Matjurtarækt gæti orðið Íslendingum, sem lítt þekktu til garðyrkju, gott fordæmi. Þá kenndi Gyða nýjar prjónaaðferðir í heimasveit sinni og lærði að jurtalita ullargarn með íslenskum aðferðum. Móðirin Gyða þurfti einnig oft við erfiðar aðstæður að sýna hugrekki og þolgæði við umönnun barna sinna en þau komu öll í heiminn á þessum árum.
Endurminningarnar eru um margt einstakt rit. Þær lýsa hversdagslífi í íslensku þorpi, Eskifirði og í íslenskri sveit frá sjónarhóli borgaralegrar Kaupmannahafnardömu sem greinilega var ekki fisjað saman þegar á móti blés. Ritið er sjálfsævisaga Gyðu frá Íslandsárunum og á köflum afar innilegt, þ.e.a.s. þar sem rödd Gyðu fær að lifa. Tengdasonur Gyðu, séra Victor Bloch, gaf Endurminningar út árið 1845 en hann birti ekki frásögn Gyðu í heilu lagi heldur aðeins textabrot frá höfundinum. Sjálfur endursegir hann stóra hluta verksins. Úr þessu verður ekki bætt þar sem handrit Gyðu brann árið 1881.
Af fjandfrændum í Dölum. Dómar séra Friðriks Eggerz um Dalamenn í sjálfsævisögu hans
Svavar Sigmundsson, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Friðrik Eggerz
Séra Friðrik Eggerz sem var fæddur 1802 og lést 1894 skrifaði ævisöguverk sitt á árunum 1875–1880. Séra Jón Guðnason gaf það út í tveimur bindum undir heitinu Úr fylgsnum fyrri aldar I og II 1950 og 1952. Fyrra bindið fjallar um Bjarna Pétursson á Skarði (f. 1681) og niðja hans og þá aðallega séra Eggert Jónsson, föður Friðriks en seinna bindið er sjálfsævisaga Friðriks. Verkið spannar því um tvær aldir. Jón Guðnason segir að það megi í fljótu bragði þykja undrunarefni að séra Friðrik skyldi á áttræðisaldri leggja í að skrá svo ítarlega sögu sína og ættmenna sinna. En rit hans beri því vitni að andstreymi og elli hafi ekki náð að beygja hann, hvorki andlega né líkamlega, það sé líkt og miklu yngri maður haldi á penna. Þau mál sem Friðrik fjallar um í ævisögu sinni voru ekki einkamál hans heldur þekkt víða um land.
Sjálfsævisagan fjallar að miklu leyti um deilur þær sem þeir feðgar, séra Eggert og séra Friðrik áttu í við Skarðverja. Ástæðurnar fyrir þessum óvinskap eru nefndar þær að séra Eggert taldi tengdaföður sinn, Magnús Ketilsson hafa haldið arfi eftir föður sinn og héldust þessar deilur við afkomendur Magnúsar, Skúla Magnússen sýslumann og son hans Kristján kammerráð. Eggert var kvæntur systur Skúla, Guðrúnu, en það breytti engu um óvinskapinn og erfðist óvinátta við Skarðverja þannig til Friðriks. Séra Eggert fékk ekki Skarð og sveið það alla ævi.
Því hefur verið haldið fram að séra Friðrik hafi meðal annars tekið til við ævisöguskrifin sem andsvar við Skarðstrendinga sögu sem Gísli fræðimaður Konráðsson skrifaði á árunum eftir 1852 þegar hann kom til Flateyjar. Friðrik skrifaði að Gísli hefði ritað eftir óvinum séra Eggerts og sona hans, Friðriks og Stefáns „ýmislegan ósannindaþvætting um nefnda feðga“.
Ævisaga séra Friðriks er ekki sem áreiðanlegust sagnfræðiheimild en hann bjó þó yfir mikilli þekkingu á skjalagögnum og rituðum heimildum frá því tímabili sem sagan spannar. En ekki verður af séra Friðriki skafið að ævisagan er frábærlega stíluð og lýsir háttum hans og hugarfari mætavel.
Tvö rannsóknarverkefni í sagnfræði
Tvö rannsóknarverkefni í sagnfræði:
Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins.
Fjölskylda og heimilisbúskapur á Íslandi í byrjun átjándu aldar og útgáfa skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770–1772
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 8. október 2022
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
„Gamla bændasamfélagið“. Hvers konar samfélag var það?
Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Hugtakið bændasamfélag hefur lengi verið notað um samfélagsgerð Íslendinga fyrir daga iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar. Bændafjölskyldan er hornsteinn samfélagsins, allur þorri íbúanna býr í sveit og lifir á landbúnaði, verkaskipting er fábreytt og tækni frumstæð. En um félagslega uppbyggingu bændasamfélagsins, valdakerfi, stéttaskiptingu og önnur félagstengsl hafa skoðanir verið skiptar.
Rannsókn okkar, Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins, snýst í grunninn um að skilja betur hvers konar samfélagsgerð var við lýði á Íslandi á öndverðri átjándu öld. Er bændasamfélag réttnefni um þetta samfélag? Við könnum sérstaklega nokkrar grunnstoðir samfélagsins – fjölskylduna, heimilið, jörðina og heimilisbúskapinn – og könnum hvernig félagslegu og efnahagslegu umhverfi þeirra, m.a. tekju- og eignaskiptingu og stéttaskipan, var háttað.
Í erindinu er rannsóknin kynnt og sýnt hvernig hún getur varpað skýrara ljósi á fyrirbærið bændasamfélag. Efniviður rannsóknarinnar er aðallega gagnagrunnur ásamt landupplýsingum, byggður á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1702–1714 og manntalinu og kvikfjártalinu 1703. Saman gefa þessar heimildir einstaklega nákvæma mynd af högum þjóðarinnar á þessum tíma.
Vegferðin til fullorðinsára á tímum harðinda
Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og prófessor í félagssögu við Háskóla Íslands
Síðustu áratugir sautjándu aldar og upphaf þeirrar átjándu var mikið harðindaskeið um alla Norðurálfu og færð hafa verið rök fyrir því að helsta félagslega áhyggjuefni yfirvalda á þessum tíma hafi verið sveitarþyngsli, húsgangur, lausagangur og betl sem virðist hafa náð hámarki í kringum aldamótin 1700. Manntalinu 1703 var ætlað að leggja mat á sveitarþyngsli hér á landi og sýnir manntalið að rúmlega 15% íbúa var í stöðu þurfafólks. Þetta er hærra hlutfall en í nokkru öðru manntali.
Eins og gefur að skilja bitnuðu harðindin með ólíkum hætti á íbúum landsins. Þannig var dánartíðnin hæst meðal barna og gamalmenna og þau sem neðst stóðu í samfélagsstiganum voru líklegri til að verða hungurvofunni að bráð en önnur. En harðindin höfðu ekki síður áhrif á félagsstöðu fólks. Þetta á einkum við um ungt fólk sem hér er til umfjöllunar.
Líkt og annars staðar í norðan- og vestanverðri Evrópu var giftingaraldur hér á landi hár fyrr á öldum. Íslandi hefur þannig verið lýst sem ýktu dæmi um hið vesturevrópska hjúskaparmynstur þar sem giftingaraldur var hár og hlutur þeirra sem aldrei giftist hár. Einkennandi fyrir þetta fyrirkomulag var að drjúgur hluti ungs fólks var í stöðu vinnuhjús áður en það gekk í hjónaband. Fyrri rannsóknir hér á landi hafa sýnt að þegar harðnaði í ári fjölgaði fólki á vinnufærum aldri í hópi þurfamanna. Vegferðin til fullorðinsaldurs gat þannig verið með nokkuð ólíkum hætti allt eftir efnahagslegum aðstæðum. Hér er sjónum beint að aldurshópnum 15–34 ára í manntalinu 1703 og til samanburðar sama aldurshópi í manntalinu 1729. Hversu algengt var að fólk væri í stöðu vinnuhjús og hversu margir þurftu að sætta sig við hlutskipti ómaga? Höfðu harðindin áhrif á möguleika fólks á að ganga í hjónaband og var munur á körlum og konum í þessi tilliti?
Dálítil innsýn í akuryrkju og jarðrækt í skjölum Landsnefndarinnar fyrri
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, verkefnastjóri heimildaútgáfu á Þjóðskjalasafni Íslands
Mikið er fjallað um akuryrkju og hvers kyns jarðrækt í skjölum Landsnefndarinnar fyrri. Gera átti átak í túnrækt með garðahleðslu og þúfnasléttun, auka skyldi áburðarnotkun og koma upp áveitum. Kornrækt og garðrækt voru til sérstakrar skoðunar, einnig skógarnytjar, skógrækt og seljabúskapur. Í erindinu er reynt að gefa dálitla innsýn í hvernig skjölin varpa ljósi á gamla bændasamfélagið á síðari hluta átjándu aldar. Hver er staðan í akuryrkju og jarðrækt í landinu um 1770 út frá umfjöllun í skjölum nefndarinnar? Hvernig mátu menn ástandið og hvaða ráð voru helst talin til úrbóta? Í skjölunum er almennt gengið út frá því að jarðrækt í landinu hafi farið mikið aftur síðan á miðöldum og núverandi ástand talið slæmt.
Uppblásin lönd og fjöldi eyðibýla eru því til vitnis. Fáir höfðu orðið trú á að korn gæti vaxið í landinu og ekki lengur forsvaranlegt að verja miklu af opinberu fé í slíka tilraunastarfsemi. Fleiri höfðu trú á garðræktinni til búdrýginda en aðrir vildu ekki taka áhættuna og töldu best að reiða sig áfram á fjallagrösin. Stærsta málið var þó að gera þurfti átak í túnrækt. Menn sáu fyrir sér betri tíma ef tún yrðu ræktuð upp, túngarðar hlaðnir, mýrar ræstar fram, gamlar selstöður aftur teknar í notkun og komið upp heyforðageymslum. Tilskipun um garðahleðslu og þúfnasléttun sem gefin var út 13. maí 1776 á sér rætur í þessari umræðu en drögin að henni liggja einmitt í skjalasafni Landsnefndarinnar.
Byggðir og búsvæði
Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við Háskóla Íslands, og Óskar Guðlaugsson, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands
Með tilkomu sagnfræðilegs landupplýsingakerfis um jarðir, býli og mannfjölda í byrjun átjándu aldar gefst færi á að skoða ýmsa þætti er varða dreifingu byggðar og eiginleika hennar. Gagnagrunnur verkefnisins felst í vigragögnum, þ.e. punktum, fyrir hvert býli og jörð á landinu, tengdum stöðluðum upplýsingum úr manntali, kvikfjártali og jarðabók. Þannig er unnt að kortleggja og setja fjölbreyttar upplýsingar um býlin í samhengi.
Í erindinu er fjallað um tvö efni. Í fyrsta lagi er lagt mat á búsæld mismunandi svæða; hversu byggileg þau voru miðað við þá búskaparhætti og tækni sem ríkjandi var í byrjun átjándu aldar. Til viðmiðunar er hæðarlíkan af landinu, vatnafarsgögn, upplýsingar um gróðurfar og yfirborð lands, sem og upplýsingar um svæði sem tekið hafa varanlegum breytingum á athugunartímanum. Eyðibýli eru könnuð sérstaklega, bæði þau sem voru tilgreind 1703 og þau héruð sem síðar hafa lagst í auðn. Vísar að þéttbýlissvæðum eru einnig metnir, bæði út frá mannfjölda í hreppum og í 10 km reitum. Rýnt er í ástæður dreifingarinnar og hvernig ólíkum héruðum hefur vegnað í gegnum aldirnar.
Í öðru lagi eru búsvæði landsins skilgreind og afmörkuð landfræðilega í þeim tilgangi að fá yfirsýn yfir breytileikann í búskaparháttum og afkomu manna eftir hreppum og sýslum. Með því að meta þátt sauðfjárræktar, nautgriparæktar, fiskveiða og hlunninda í hverjum hreppi fyrir sig fæst betri innsýn í atvinnu og rekstur heimila á mismunandi svæðum. Til grundvallar liggur, auk gagnagrunnsins, talning Skúla Magnússonar landfógeta á mannfjölda og atvinnuskiptingu 1703, þar sem hann greinir á milli sveitabænda og sjávarbænda.
Enn af nýjum rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 2. apríl 2022
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 2. apríl 2022
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Þegar fylgdarskipið fórst
Halldór Baldursson, læknir og sagnfræðingur
Vegna styrjaldar milli Danakonungs ríkis og Svíþjóðar sigldu kaupför Íslandsverslunarinnar í skipalestum með herskipafylgd á árunum 1714—1720. Í nóvember 1718 fórst fylgdarskipið Gautaborg við Hraunsskeið í Ölfusi og 174 skipbrotsmenn þurftu að hafa vetursetu á Íslandi. Yfirvöld Íslands stóðu þá frammi fyrir stórum, aðkallandi og óvenjulegum verkefnum. Stærsta og brýnasta verkefnið var að útvega skipverjum húsaskjól og mat. Sýslumanni bar skylda til að rannsaka tildrög skiptapans. Bjarga skyldi verðmætum sem unnt var, en flakið var konungs eign. Að lokum þurfti að senda skipverja utan til áframhaldandi herþjónustu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig yfirvöld hér á landi tóku á þeim verkefnum sem leiddi af strandi Gautaborgar.
Niels Fuhrmann kom til landsins sem amtmaður síðsumars 1718. Hann stjórnaði aðgerðum vegna strands Gautaborgar. Skipbrotsmönnum var komið fyrir á bæjum í Gullbringusýslu, Kjósarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Landfógeti greiddi fæðispeninga til þeirra sem hýstu skipbrotsmenn, alls 4.421 ríkisdal. Sýslumaður Árnessýslu hélt héraðsþing (sjópróf) til að rannsaka skiptapann. Verðmætum var bjargað eftir því sem tækjabúnaður leyfði. Það sem sjóherinn gat notað var sent utan en annað selt, að mestu á uppboðum. Skipbrotsmenn voru sendir utan 1719 með kaupskipum og fylgdarskipi.
Niðurstaða rannsóknarinnar er að yfirvöldum á Íslandi tókst prýðilega að leysa úr þeim erfiðu verkefnum sem leiddi af strandi Gautaborgar. Það má að verulegu leyti þakka styrkri stjórn Niels Fuhrmanns amtmanns.
Torf sem byggingarefni á átjándu öld
Sigríður Sigurðardóttir, sagnfræðingur og lektor við Háskólann á Hólum
Híbýli fólks á átjándu öld voru meira og minna úr torfi og grjóti. Torf var staðbundið, ódýrt efni sem auðvelt var að nálgast ef rétt verkfæri voru tiltæk. Torfhlaðnir veggir veittu fólki skjól og einangrun og gáfu skilyrði fyrir lífshætti og langanir, sköpun og skemmtanir. Í erindinu verður farið yfir hvers vegna og hvernig torf var notað til bygginga og hvort þróun torfhúsa var mögulega háð því efni. Komið verður inn á efnisöflun og hleðslugerðir, mismun eftir landshlutum og ýmis afbrigði skoðuð. Stuttlega verður farið yfir hvernig húsin í bænum þróuðust og hvernig hlutverk þeirra breyttust, horft til timburverks torfbygginga og öflun húsviða innanlands og skoðað hvernig skortur á timbri kemur fram í þróun torfhúsanna og í kyndingu þeirra. Horft er til þess hvernig hægt er að meta heimildir um átjándu aldar híbýli út frá fyrri og seinni tíma heimildum og komið inn á hvernig torfhleðslur og orðafar tengt efninu voru mismunandi eftir landshlutum og í tímans rás.
Prjónaðar gersemar og þarfaþing í fataeign Íslendinga á átjándu öld
Guðrún Hildur Rosenkjær, sagnfræðingur og klæðskera- og kjólameistari í Annríki – þjóðbúningar og skart
Í erindinu verður fjallað um heimildir sem fyrirfinnast um prjónaðan fatnað á átjándu öld út frá fjölbreyttum heimildum. Heimildir er víða að finna um prjón og það er ljóst að prjónaðar fatnaður var mikilvægur í fataeign flestra Íslendinga. Nokkuð hefur varðveist af prjónuðum flíkum en flest frá því um 1800 eða yngra. Ýmsar ritaðar samtímaheimildir um fatnað og fatagerð er að finna en frammámenn átjándu aldar skráðu fræðslurit fyrir landsmenn í anda upplýsingarinnar. Einnig geta lýsingar erlendra gesta oft komið að notum því glöggt er gests augað. Dánarbú eru merkar og mikilvægar heimildir um eigur landsmanna því þar voru skráðar allar eigur hinna látnu, þar með talinn fatnaður. Þær heimildir bera oft í sér marglaga skýringar því auk heiti flíkur fylgja gjarnan orð eins og slitinn, garmur, borinn, forn, bættur og fleira sem lýsa vel ástandi og stöðu flíkurinnar. Tilgangurinn minn í upphafi var bæta þekkingu okkar á búningasögu Íslendinga á átjándu öld. Nú hefur tekist að finna nægar upplýsingar til að endurgera fatnað frá átjándu öld sem sýnir og sannar að Íslendingar höfðu mikla tækniþekkingu í prjónaskap. Sú vinna hefur í sjálfu sér skapað nýjar og merkilegar heimildir til frekari rannsókna á fatagerð fyrri alda.
Íslenskir Stokkhúsþrælar, aðstæður og afdrif 1805–1811
Eiríkur Hermannsson, sagnfræðingur
Árið 1805 voru sjö Íslendingar sendir til Kaupmannahafnar í ævilangan þrældóm eða aftöku. Fyrir þann tíma hafði verið nokkurt hlé á fangaflutningum til Kaupmannahafnar, eða allt frá 1792. Annað hlé varð á fangaflutningum til Kaupmannahafnar eftir átök Dana og Breta 1807.
Allt þetta fólk hafði verið svipt æru og eignum, fimm brotamannanna höfðu verið dæmdir til ævilangrar þrælkunar og kagstrýkingar vegna sauðaþjófnaðar og annarra brota en tvennt hafði verið dæmt til dauða vegna morðtilraunar, en dómnum yfir þeim breytt með konungsúrskurði í ævilanga fangavist „upp á kóngsins náð“, eftir að þau komu til Kaupmannahafnar.
Samkvæmt dönskum lögum gátu ærulausir þrælar ekki vænst þess að fá náðun en þrátt fyrir það voru fjórir fanga að lokum náðaðir af konungi og þrír þeirra náðu að snúa aftur til fósturjarðarinnar, sá síðasti 1811.
Í erindinu er farið rakin saga þessa fólks, aðstæður í Stokhúsinu og kvennafangelsinu í Kristjánshöfn, sem og athyglisverðar ástæður fyrir náðun þeirra eins og þær birtast í skjalasafni fangelsanna.
Af nýjum rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslandsá átjándu og nítjándu öld
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 12. febrúar 2022
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Fóðrun og hagaganga aðkomufjár í kvikfjártalinu 1703
Ragnhildur Anna Kjartansdóttir, sagnfræðingur og skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands
Kvikfjártal var tekið samhliða manntali árið 1703 í mikilli rannsókn á landshögum á Íslandi sem Árni Magnússon og Páll Vídalín framkvæmdu. Það sýnir að það tíðkaðist að taka skepnur í fóðrun og hagagöngu fyrir aðra. Í þessum fyrirlestri er þessi siður kannaður og skýrður í samhengi við tilkomu kvikfjártalsins. Leitast er við að svara því hverjir áttu fénaðinn og af hverju hann var í fóðrun eða hagagöngu hjá öðrum en eigendum sínum. Til að svara þessum spurningum er skráning aðkomufjár í kvikfjártalinu sérstaklega skoðuð, sem og útbreiðsla slíkrar fóðrunar. Bent er á hverjir voru eigendur fjárins og þær ástæður sem kunna að hafa legið að baki því að fé var í fóðrun hjá öðrum. Upplýsingar um fóðrun aðkomufjár í Seltjarnarneshreppi í Gullbringusýslu og Miðfjarðarhreppi í Húnavatnssýslu eru sérstaklega skoðaðar. Mikill munur var á milli þessara hreppa. Aðeins 13,4% ábúenda í Seltjarnarneshreppi höfðu aðkomufé í fóðri eða hagagöngu en 91,9% í Miðfjarðarhreppi. Ýmsar ástæður voru fyrir fóðruninni en má þá einkum nefna að hún var notuð sem laun vinnufólks sem voru borguð að hluta eða öllu leyti með þessum hætti. Í Miðfjarðarhreppi var einnig áberandi fóðrun fyrir álögur og gjöld til jarðeigenda og presta.
Út fyrir mörk kvenleikans á nítjándu öld
Ása Ester Sigurðardóttir, sagnfræðingur
Þorbjörg Sveinsdóttir (1827–1903) var ljósmóðir og kvenréttindakona í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Hún var ákveðin, hafði sterkar skoðanir og þótti vera mikill skörungur. Hún var að mörgu leyti óhefðbundin og henni leyfðist margt sem aðrar konur máttu ekki, eins og að tala á stjórnmálafundum þar sem aðeins þeir sem höfðu kosningarétt máttu kveðja sér hljóðs. Hún gekk oft þvert á hugmyndir samfélagsins um hlutverk og eðli kvenna og þótti stundum haga sér afar ókvenlega. Markmið rannsóknarinnar var að kanna af hverju Þorbjörgu leyfðist að haga sér á þennan hátt þegar margar aðrar konur í svipaðri stöðu komust ekki upp með slíka hegðun og hlutu jafnvel samfélagslegan skaða af. Rannsóknin er skrifuð út frá sjónarhorni kvenna- og kynjasögu og er að mörgu leyti ævisöguleg en þó með kenningarmiðaðri nálgun þar sem hugtakið kvenleiki er notað til að greina íslenskt samfélag seinni hluta nítjándu aldar og hvernig konur gátu við viss skilyrði stigið út fyrir, eða teygt, ramma æskilegrar hegðunar kvenna á þessum tíma. Í tilviki Þorbjargar virðist það hafa verið sambland fjögurra atriða eða þátta, það er, aldur hennar, hjúskaparstaða, samfélagsleg staða og aðferðir hennar við að ögra ríkjandi hugmyndum og kvenleika. Þessi fyrirlestur er byggður á BA-ritgerð höfundar.
Um notkun dönsku og erlend áhrif á íslensku
Kristjana Vigdís Ingvadóttir, sagnfræðingur og skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands
Árið 1771 skrifaði rektor Skálholtsskóla, Bjarni Jónsson bréf til Landsnefndarinnar fyrri þar sem hann lagði til að íslenska yrði lögð niður og Íslendingar tækju upp dönsku, tungumál herraþjóðarinnar. Í ríki danska konungsins var danska mikið notuð og sérstaklega þegar kom að stjórnsýslu. Á Íslandi var því eins farið. Til umfjöllunar er bréfarannsókn höfundar sem varpar ljósi á tungumálanotkun Íslendinga á átjándu og nítjándu öld. Skrifuðu íslenskir amtmenn ómenntuðum bændum á dönsku? Hvaða tungumál notaði vinnufólk í samskiptum við yfirvöld — og konung? Hvort tungumálið var meira notað, danska eða íslenska? Meðal þess sem leitað er svara við er hvort dönskunotkun á Íslandi hafi verið svo mikil að það hefði verið hægðarleikur einn að taka upp dönsku í stað íslensku.
Við sögu koma íslenskir málhreinsunarmenn og „baráttumenn“ íslenskunnar en einnig danskir áhugamenn um íslensku — norrænuna fornu — og handritin sem geyma sögu Norðurlanda. Í því samhengi er fjallað um viðhorf danskra stjórnvalda til íslensku en einnig til færeysku og grænlensku. Íslenskir mennta- og embættismenn voru þeir sem notuðu dönsku mest en „ómenntuð“ alþýðan notaði nær eingöngu íslensku. Þó lögðu mennta- og embættismenn nítjándu aldar mikla áherslu á að íslensku ætti að nota á Íslandi, sérstaklega í stjórnsýslunni. En hvað gerði það að verkum að framtíð íslenskunnar var tryggð?
Fjallað er um „dönsk áhrif“ á Íslandi á átjándu og nítjándu öld en einnig um mikilvægi íslensku frá siðaskiptum. Hvaða áhrif hafði það á íslenskt samfélag og tungumálanotkun Íslendinga að vera undir stjórn Dana? Fræðslustarf, tímaritaútgáfa, verslun og viðskipti eru meðal þess sem rætt er í erindinu en sérstaklega er athygli beint að tungumálinu sem notað var á þessum sviðum.
Grikkland norðursins? Umfjöllun Íslendinga um gríska sjálfstæðisstríðið 1821–1830
Arnór Gunnar Gunnarsson, sagnfræðingur
Gríska sjálfstæðisstríðið á 3. áratug 19. aldar vakti mikla athygli og eldmóð um alla Evrópu. Svokallaðir fílhellenistar skrifuðu um atburðina, söfnuðu peningum og ferðuðust jafnvel til Grikklands til að taka þátt. Þessi fjölþjóðlegi áhugi á sjálfstæði Grikkja frá Ottómanaveldinu hefur vakið athygli fræðimanna á undanförnum árum og áratugum. Meðal annars hefur verið skrifað um fílhellenisma í Danmörku — en hvað sögðu Íslendingar um málið?
Í þessum fyrirlestri verður einblínt á umfjöllun um gríska sjálfstæðisstríðið í Klausturpósti Magnúsar Stephensen og Íslenzkum sagnablöðum Finns Magnússonar og skrifin sett í samhengi við fílhellenisma. Skoðað verður hvað var líkt og hvað ólíkt með þessum íslensku ritum og umfjöllun um stríðið annars staðar í Evrópu. Umfjöllunin er ekki síst athyglisverð fyrir þær sakir að með gríska sjálfstæðisstríðinu urðu miklar umræður um tungumál, menningararf og sjálfstæði. Árið 1830 átti Baldvin Einarsson einmitt eftir að líkja Íslandi við Grikkland. Það þarf vitaskuld ekki að þýða að orsakasamhengi hafi verið milli gríska sjálfstæðisstríðsins og íslenskrar þjóðernishyggju, en hugmyndafræðilegur skyldleiki var þó að einhverju leyti til staðar.
Áhrif jarðskjálfta á Íslandi fyrr á öldum
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 15. janúar 2022
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 15. janúar 2022
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Tjónasvæði jarðskjálfta á Suðurlandi 1784 og 1896
Sveinbjörn Björnsson, jarðeðlisfræðingur
Undir Suðurlandi er brotabelti sem tengir eystra gosbeltið frá Heklu við vestara gosbeltið í Hengli og liggur þaðan eftir Reykjanesskaga vestur að Reykjanesi þar sem Reykjaneshryggurinn kemur á land. Á löngum tíma færist berg norðan brotabeltisins til vesturs en berg sunnan þess til austurs. Þessi hreyfing er þó ekki samfelld heldur gerist hún í hrinum og þá með landskjálftum. Ein slík hrina varð eftir gosið í Lakagígum 1783, með stórum skjálftum á Suðurlandi 1784 og kvikuhlaupi með hrinu af smærri skjálftum í vestara gosbeltinu frá Hengli suður í Selvog 1789. Önnur skjálftahrina byrjaði með stórum skjálftum á Suðurlandi 1896, skjálfta við Selsund nærri Heklu 1912, skjálfta í Brennisteins-fjöllum 1929 og umbrotum á Reykjanesskaga allt frá 1900 til 1940. Enn ein hrina hófst með skjálftum 2000 og 2008 á Suðurlandi og umbrotum og eldgosi á Reykjanesskaga 2020–2021 sem enn sér ekki fyrir endann á.
Biskupar í Skálholti, Finnur Jónsson og Hannes Finnsson, fengu presta til að gefa nákvæmar skýrslur um tjón á bæjum í hverju prestakalli 1784 og prestar söfnuðu einnig gögnum um tjón í skjálftunum 1896. Þorvaldur Thoroddsen gerði ítarlega grein fyrir þessum gögnum í riti sínu Landskjálftar á Íslandi (1899). Af þeim má ráða hvar skjálftarnir voru harðastir og hvernig fólki og húsum reiddi af. Manntjón varð töluvert í landskjálftum á 11.–13. öld (10–20 manns) en fólk lærði af reynslu, lá við tjöld eftir fyrstu hrinu og hugsanlega breyttu menn rúmstæðum húsa svo að þau væru örugg þótt húsin gjörféllu þar sem skjálftarnir voru harðastir.
Þótt hreyfing bergsins undir niðri sé í A-V stefnu eru bergsprungur á yfirborði flóknari. Mest áberandi eru sprungusvæði með N-S stefnu en innan þeirra eru skástígar sprungur með aðrar stefnur. Hrunsvæði í skjálftum 1896 benda sterklega til sprungna með austlæga stefnu. Torfbæir með hlöðnum veggjum úr torfi og grjóti höfðu lítinn styrk til að standast stærri jarðskjálfta en það hefur einnig orðið reyndin um hús hlaðin úr vikursteinum og jafnvel járnbent steypt hús.
Jarðskjálftar í Ölfusi fyrir 1800 — Almennt um áhrif jarðskjálfta á byggð og búskap
Páll Halldórsson, jarðskjálftafræðingur og sagnfræðingur
Þegar fjallað er um sögulega jarðskjálfta byggist sú umfjöllun á heimildum sem greina frá áhrifum þeirra, aðallega skemmdum á húsum. Þegar hér er talað um Ölfusskjálfta er átt við skjálfta sem ollu tjóni í Ölfusi, þó upptökin kunni að hafa verið utan við sveitina.
Fram til 1800 eru til öruggar heimildir um að a.m.k. 11 skjálfta, sem valdið hafa tjóni í Ölfusi.
Ár | Jarðskjálftar í Ölfusi | |
---|---|---|
1370 | 12 bæir féllu í Ölfusi og þar með Hjalli | |
1391 | Tjón í Ölfusi upptök sennilega austar | |
1546 | Tjón í Ölfusi. Hjalli og allt Hjallahverfi hröpuðu | |
1598 | Tjón í Ölfusi. Ein heimild segir að Hjalli hafi hrunið í grunn | |
1632 | Tjón í Ölfusi | |
1671 | Tjón í Ölfusi | |
1706 | Tjón í Ölfusi | |
1734 | Tjón í Ölfusi, upptök sennilega austar | |
1749/1752 | Tjón í Ölfusi, mest á Hjalla | |
1766 | Tjón í Ölfusi | |
1789 | Tjón í Ölfusi, upptök á Hellisheiði eða Hengilssvæði |
Hér á eftir verður einkum fjallað um skjálftahrinuna 1706, hún náði hámarki með öflugum skjálfta 20. apríl, sem olli miklu tjóni.
Um enga aðra skjálfta í Ölfusi fyrir 1896 eru til jafn ítarlegar heimildir og um jarðskjálftann 1706. Í Setbergsannál er ítarleg skrá um skemmdir á bæjum í Ölfusi og frásögn Fitjaannáls bæti nokkru í myndina. Einnig eru til góðar heimildir um byggð og íbúa í Ölfusi frá þessum tíma. Manntal var tekið vorið 1703 og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns fyrir Ölfus var gerð fyrir nyrðri hluta sveitarinnar í september 1706 en fyrir syðri hlutann í ágúst 1708.
Fólk í Ölfusi varð fyrst vart við jarðskjálfta aðfaranótt 20. janúar 1706 og fram til 1. apríl er getið tveggja öflugra kippa. Í öðrum þeirra, skjálftanum 1. apríl, eru nefndar skemmdir á húsum. Í jarðskjálftaskýrslunni sem tekin er upp í Setbergsannál segir að þá hafi tvö hús fallið á Breiðabólsstað og önnur tvö brákast.
Í aðalskjálftanum þann 20. apríl varð mikið tjón í Ölfusi, og einnig á nokkrum bæjum vestast í Flóa, þó heimildir um það séu ófullkomnari. Í skránni í Setbergsannál eru talin 49 lögbýli og hjáleigur í Ölfusi sem urðu fyrir skemmdum. Á fimm býlum féllu öll hús og á 28 býlum urðu verulegar skemmdir. Á einum bæ í Flóa varð kona undir húsum og dó. Á nokkrum bæjum féll eða skaðaðist búpeningur. Þrátt fyrir mikið tjón virðast þessir skjálftar ekki hafa haft mikil áhrif á byggðina, sem komst fljótt í samt lag aftur.
Jarðskjálftinn 1706 var ekki í framhaldi af öðrum jarðskjálftum austar á Suðurlandssvæðinu, eins og skjálftinn 2008 sem kom átta árum á eftir tveim stórum Suðurlandsskjálftum eða Ölfusskjálftanum 6. september 1896 sem kom í kjölfari á öflugum skjálftum austar á Suðurlandssvæðinu. Jarðskjálftinn 2008 kom fyrirvaralaust en 1706 hafði verið talsverð virkni í a.m.k. þrjá mánuði áður en aðalskjálftinn kom. Það er hinsvegar óljóst hvort 20. apríl 1706 hafi orðið fleiri en einn nánast samtímaatburður eins og 2008 sem sannarlega stækkar áhrifasvæðið.
Jarðskjálftarnir 1706 höfðu engin merkjanleg áhrif á byggð eða búskap í Ölfusi. Engar heimildir eru um langvarandi áhrif jarðskjálfta á byggð á Íslandi. Ekki kom til álita að hætta búskap á Hjalla þó að þar hryndi allt hvað eftir annað. Dæmi eru þó um að menn hafi hrökklast tímabundið undan jarðskjálftum og einnig að þeir hafi gert búskap erfiðari a.m.k. um stund. Jarðskjálftar höfðu skammtímaáhrif sem í flestum tilvikum voru minni en önnur áföll sem reglulega dundu á fólki.
Áhrif jarðskjálfta á byggingar fyrr og nú
Bjarni Bessason, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands
Jarðskjálftavá á Íslandi er sú mesta í Norður-Evrópu og sambærileg við þá sem er að finna í suðurhluta álfunnar. Frá landnámi er í heimildum þráfaldlega greint frá jarðskjálftum þar sem fólk ferst, húsdýr drepast, og bæir og úthús hrynja og falla saman. Áætlað er að jarðskjálftar hafi orðið um 100 manns að fjörtóni frá upphafi byggðar eða að jafnaði um tíu á öld.
Til samanburðar má nefna að fræðimenn hafa metið að snjóflóð og skriðuföll hafi grandað um 200 manns á hverri öld. Dauðsföllum vegna ofanflóða hefur lítið fækkað undanfarna áratugi. Á tuttugustu öld er talið að 193 hafi farist í slíkum atburðum. Hér má hafa í huga að ofurkraftar eru á ferðinni þegar snjóflóð falla á mannvirki sem erfitt er að ráða við og því þarf annað og meira en sterkbyggð hús til að koma í veg fyrir eyðileggingarmátt þeirra. Nútímalausnir við að auka öryggi húsa sem útsett eru fyrir snjóflóðum og skriðuföllum ganga því út á að reisa snjóflóðagirðingar ofarlega í fjallshlíðum sem og að byggja jarðkeilur, leiðigarða og þvergarða. Til samanburðar við þessi dauðsföll í ofanflóðum á síðustu öld má nefna að á sama tímabili er einungis eitt dauðsfall rakið til jarðskjálfta, nánar tiltekið sem varð við Selsund á Rangárvöllum, árið 1912.
Á þessari öld hafa þrír stórir jarðskjálftar orðið á Suðurlandi, fyrst tveir í júní árið 2000 og svo einn í lok maí árið 2008. Ekkert dauðsfall eða alvarlegt slys varð í þessum skjálftum enda hrundu hvorki íbúðarhús né iðnaðar- eða þjónustuhúsnæði. Eignatjón varð þó umtalsvert og dæmi voru um að gömul úthús hryndu að hluta til, að minnsta kosti. Þessi árangur varðandi frammistöðu bygginganna og það að engin slys urðu er áhugavert í ljósi þess að íbúafjöldi og þéttleiki byggðar á okkar helstu jarðskjálftasvæðum á Suðurlandi og Norðurlandi er mun meiri en áður fyrr.
Hvert land hefur sínar byggingarhefðir og einkenni. Nútíma íslensk hús eru eðlissterk, hönnunarkröfur hafa aukist jafnt og þétt frá miðri síðustu öld, og meðalaldur bygginga er lágur, en yfir 90% bygginga eru reistar eftir 1940. Í Suður-Evrópu er aldur húsa á tilteknum svæðum almennt mun hærri en hér. Þar eru hús oft á tíðum hlaðin úr náttúrugrjóti, múrsteinum eða holsteini. Algengt byggingarlag nýrra húsa í Suður Evrópu er að steypa plötur, súlur og bita og nota svo hleðslustein inn á milli til mynda útveggi og skilveggi. Tjón í jarðskjálftum af sambærilegri stærð og verða hér er oft mun meira á þessum suðlægu slóðum og mikið er um að hús hrynji og falli saman.
Fyrr á öldum þegar dæmigerðir Suðurlandsskjálftar riðu yfir, af svipaðri stærð og skjálftarnir 2000 og 2008, var reyndin sömuleiðis sú að hús féllu umvörpum saman og þá jafnt íbúðarhús sem útihús. Meginástæðan var byggingarlagið, en hlaðin torfhús henta einstaklega illa til að standast jarðskjálfta. Það er einkum tvennt sem veldur því. Í fyrsta lagi léleg binding milli torfs og hleðslugrjóts bæði í veggjum og þökum, og í öðru lagi stórir tregðukraftar sem eru í réttu hlutfalli við þyngdina sem er til staðar í mannvirkinu. Því meiri massi því meiri krafta þarf virkið að standast. Í erindinu verður fjallað nánar um þetta efni og myndir notaðar til að draga hlutina betur fram.
Hvikular laugar
Helgi Torfason, jarðfræðingur
Ísland er þekkt fyrir jarðhræringar enda liggur landið þvert yfir Mið-Atlantshafshrygginn, eldgos eru tíð og jarðskjálftar eru daglegt brauð, þó ekki séu margir þeirra stórir. Í snörpum jarðskjálftum, yfir 4–5 að stærð, er algengt að breytingar verði á hverum og laugum. Algengast er að rennsli og hiti breytist tímabundið en einnig kemur fyrir að hverir hverfi, færist til eða nýir myndist. Sumir hverir byrja að gjósa eftir jarðskjálfta og er Geysir þekktasta dæmið um það.
Nokkur munur er á hegðun hvera eftir því hvort þeir eru á háhitasvæðum innan gosbeltanna eða á lághitasvæðum utan þeirra. Algengara er að háhitasvæðin breytist í jarðskjálftum því skjálftar eru almennt mun algengari og hveravirkni öflugri innan gosbeltanna en utan þeirra, ef undan er skilið Suðurland.
Jarðhitavatn streymir eftir sprungum og glufum í berggrunninum og þar sem það er eðlisléttara en kalt vatn flýtur það upp til yfirborðs. Í jarðskjálftum myndast sprungur og einnig verður hreyfing á gömlum sprunguflötum. Það fer eftir stærð skjálfta og nálægð hver áhrifin verða á rennslisleiðum vatnsins. Bergið við sprungurnar er oft uppbrotið og stundum fyllt mylsnu og brotum. Verði breyting á rennslisleiðum jarðhitavatnsins til yfirborðs getur það því leitt til þess að hver eða laug færist til á yfirborði.
Fyrst er minnst á Geysi í annálum í sambandi við jarðskjálfta 1294 og segir þar: ,,Í Eyrarfjalli hjá Haukadal komu upp hverir stórir en sumir hurfu er áður höfðu verið.“ Í þessum sama skjálfta, á Húsatóftum á Skeiðum „hvarf á burtu laug sem þar hafði verið alla ævi, þar rifnaði og sprakk svo djúpt að eigi sá niður“. Laugin á Húsatóftum kom þó aftur og var um 70°C heit og er nú nýtt í hitaveitu.
Fyrir jarðskjálftana 17. og 21. júní árið 2000 var Geysir hættur gosum nema þegar hann var fóðraður á sápu. Í jarðskjálftunum hresstist hann og fór að gjósa. Aðrir hverir urðu einnig mun virkari, t.d. gaus Konungshver, sem er í brekkunni ofan við Geysi, um 1 m háum gosum og virkni Strokks jókst til muna.
Því má segja að þótt snarpir jarðskjálftar séu ef til vill ekki þægilegir þá eiga þeir sinn þátt í að mynda rennslisleiðir fyrir heita vatnið og halda þeim leiðum opnum, okkur til hagsbóta.
Af búfjársjúkdómum á átjándu og nítjándu öld
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 9. október 2021
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Yfirlit yfir búfjársjúkdóma á nítjándu öld
Helgi Sigurðsson, dýralæknir og sagnfræðingur
Í erindinu er gefið yfirlit yfir sjúkdóma í íslenskum búpeningi á nítjándu öldinni. Heimilda er leitað í ritgerð Magnúsar Stephensens um íslenskan landbúnað sem kom út í dönsku riti árið 1808. Þar fjallar Magnús um sjúkdóma í hestum, kúm og sauðfé. Önnur heimild er fengin hjá Snorra Jónssyni sem var annar íslenski dýralæknirinn sem kom hingað til lands á seinni hluta nítjándu aldar. Hann skrifaði merka grein um íslenskan landbúnað og húsdýrasjúkdóma sem birtist í danska dýralæknatímaritinu árið 1879. Fékk hann verðlaun fyrir þessa ritgerð sína. Þetta er mjög ítarlegt yfirlit yfir sjúkdóma í búfé hér á landi. Þar telur hann upp sjúkdóma sem hann hefur kynnst af eigin raun eða heyrt um af afspurn. Hann leggur þó áherslu á að þetta sé ekki tölfræði heldur aðeins upptalning á sjúkdómum. Í seinni hluta erindisins er fjallað um bráðapest í sauðfé en sá sjúkdómur olli hvað mestum búsifjum á sautjándu, átjándu og nítjándu öldinni. Þessi sjúkdómur hefur dálítið gleymst en tjón íslensks landbúnaðar var gífurlegt. Líklegt er, ef allt er talið saman, þá hafi tjónið af völdum bráðapestar verið meira en af báðum fjárkláðunum samanlagt. Fjallað er um útbreiðslu sjúkdómsins og eðli, auk nokkurra læknisráða. Þá er lýst aðkomu Jóns Hjaltalíns landlæknis og dýralæknanna Snorra Jónssonar og Magnúsar Einarssonar að rannsóknum á sjúkdómnum. Það var svo ekki fyrr en í lok aldarinnar sem uppgötvaðist að baktería er orsökin. Í framhaldinu var fundið upp bóluefni sem Magnús Einarsson dýralæknir gerði umfangsmiklar tilraunir með.
Miltisbrandur — anthrax — á Íslandi
Sigurður Sigurðarson, dýralæknir
Miltisbrandur eða miltisbruni (anthrax) er bráður smitsjúkdómur, lífshættulegur flestum spendýrum og fólki. Orsökin er stór og digur, staflaga baktería, gram jákvæð (Gr+), Bacillus anthracis. Hún myndar öflugt eitur, sem hleypir af stað sjúkdóminum. Ýmist er sjúkdómurinn virkur og bráðdrepandi eða liggur í dvalargróunum og vaknar, þegar skilyrði leyfa og verður þá að drepandi bakteríu á ný. Þennan sjúkdóm hafa menn óttast lengur en flesta aðra sjúkdóma. Fyrstu lýsingar á því, sem líklega hefur verið miltisbrandur, má finna í hinni helgu bók, Biblíunni, frá því um 1500 árum fyrir Krist og fyrstu lýsingar á slíkum sjúkdómi á Íslandi er að finna í Prestssögu Guðmundar Arasonar í Sturlungu I árið1203. Fyrst var veikin greind hér á landi, svo öruggt sé, árið 1866. Hún barst þá til landsins með ósútuðum stórgripahúðum. Miltisbruni finnst annað kastið í flestum löndum heims, en er landlægur í Suðurálfu.
Sjúkdómurinn smitast sjaldan frá einni skepnu til annarrar eða frá manni til manns, en sýklar menga blóð og slím, sem fer frá öllum vitum skepnunnar dauðri og rétt fyrir dauðann. Smithætta er fyrir skepnur og menn af útferð frá miltisbrunaskepnum og einnig af drepkýlum, er myndast á húð, þegar bakterían berst í sár eða nuddast ofan í húðina. Sýklarnir mynda hina langlífu spora eða dvalargró, ef þeir komast í snertingu við súrefni loftsins. Sporar geyma smitið lengi undir yfirborði og í gröfum.
Um sullaveiki á Íslandi á liðnum öldum
Karl Skírnisson, dýrafræðingur
Lífsferill ígulbandormsins Echinococcus granulosus varð ljós árið 1852 þegar þýski læknirinn Philipp Franz von Siebold sýndi fram á að ígulbandormur í hundi og ígulsullur í húsdýrum og mönnum voru mismunandi lífsform sömu lífveru. Eftir að þetta varð ljóst gat skipuleg barátta hafist gegn sullaveiki. Nokkrum árum áður (1847 og 1848) hafði danski læknirinn Peter Anton Schleisner dvalist á Íslandi og gefið sullaveikinni gaum. Þeir Jón Thorstensen, landlæknir, áætluðu að sjötti til sjöundi hver Íslendingur hafi þá verið sullaveikur. Síðar kom í ljós að smittíðnin upp úr miðri 19. öld hafði líkast til verið enn hærri og að allt að fimmtungur þjóðarinnar hafi þá verið sullaveikur. Sullaveikin var gífurlegt heilbrigðisvandamál sem olli fólki ómældum sársauka og dóu margir þeirra sem smituðust. Á sama hátt hrjáði sullaveikin auðvitað sauðfé og nautgripi landsmanna. Svín geta einnig smitast en ígulsullur þroskast ekki í hrossum.
Til að átta sig á því hvers vegna ígulsullur gat orðið svona algengur í fólki á Íslandi er rétt að skoða aðstæður í landinu um miðja 19. öld. Híbýlin voru frumstæð, fólk bjó í torfbæjum við bágar hreinlætisaðstæður. Mannfjöldinn var um 70 þúsund. Flestir bjuggu í sveitum þar sem búskapur með sauðfé og kýr hélt lífi í fólki. Þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna voru iðulega með smábúskap. Mikill fjöldi sauðfjár var í landinu á þessum árum – á bilinu 600–700 þúsund vetrarfóðraðar kindur.
Hundaeign var afar útbreidd en í þeim lifði ígulbandormurinn og dreifðust egg hans út frá skít hundanna. Eggin loddu við gróður, þannig smituðust grasbítarnir. Fólk smitaðist þegar eggin bárust óviljandi niður í meltingarveg (mengun frá hundaskít). Fjöldi hunda í landinu um miðbik 19. aldar er talinn hafa verið á bilinu 15–20 þúsund, eða einn hundur á hverja þrjá eða fjóra landsmenn. Samskipti manna, hunda og annarra húsdýra voru náin. Þrengsli innanhúss voru mikil og þéttbýlt var í sveitum landsins. Smalar áttu gjarnan sína eigin hunda og hundar héldu oftast til inni í torfbæjunum. Kýr voru gjarnan haldnar undir sama þaki sem hitagjafar og bitu gróður heima við bæi þar sem hundarnir hægðu sér og skítur þeirra lá óhreyfður. Slátrað var heima við bæi þar sem sollnum líffærum var oft hent fyrir hunda áður en menn þekktu lífsferil ígulbandormsins. Vegna alls þessa var ígulsullur margfalt algengari í fólki á Íslandi en til dæmis í Kaupmannahöfn. Upp úr miðri 19. öld voru aðeins um 0,6% hunda í Kaupmannahöfn með ígulbandorm en 28% hunda á Íslandi voru smitaðir. Munurinn var 47-faldur.
Viðnámsaðgerðir hérlendis báru tiltölulega skjótan árangur. Þar skipti miklu máli að rjúfa lífsferilinn með því að meina hundum aðgang að hráum, sollnum líffærum. Nýsmitun manna var að mestu horfin strax við lok 19. aldar, ekki er vitað um nema 8 manneskjur sem smituðust af ígulsulli á allri 20. öld. Síðasta dauðsfallið var árið 1960, kona lést af völdum óstöðvandi blæðinga þegar reynt var að fjarlægja sull. Stöku hundar voru þó greinilega smitaðir af ígulbandorminum allt fram á áttunda áratug síðustu aldar, smitið grasseraði hvað lengst á Austfjörðum. Lyf (praziquantel) sem drap alla bandorma í þörmum hunda kom ekki á markað fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar. Fram að því notuðust menn við niðurgangslyf sem hafði takmarkaða virkni þannig að sumir hundar voru áfram smitaðir. Síðast fannst ígulsullur í nautgrip á Íslandi árið 1961, síðasta smitaða sauðkindin fannst á Stöðvarfirði árið 1979. Síðan þá, nú í bráðum hálfa öld, hefur ígulbandormurinn ekki sést í landinu þannig að talið er að honum hafi verið útrýmt. Er það einstakt afrek á heimsvísu.
Fjárkláðafaraldrar á átjándu og nítjándu öld
Ólafur R. Dýrmundsson, sjálfstætt starfandi doktor í búvísindum
Allt frá landnámstíð var íslenska sauðkindin, stuttrófukyn af norður-evrópskum stofni, einangruð fram á 18. öld. Hið sama gilti um önnur landnámskyn búfjár hér á landi eftir því sem best er vitað. Kindakjöt og aðrar sláturafurðir treystu mjög fæðuöryggi í landinu, ullin var þjóðinni veigamikil afurð, fólkið gekk að mestu í fötum úr ull og gærurnar nýttust einnig vel. Þá voru ullarvörur, bæði vaðmál og prjónles, verðmætar útflutningsafurðir, en lengi vel voru hægar framfarir í vinnsluaðferðum. Efling ullariðnaðar og innflutningur fjár með fínni ull voru á meðal þeirra aðgerða til framfara sem áttu sterkan hljómgrunn hjá ráðamönnum, bæði hér á landi og í Danmörku, fyrir og um miðja 18. öld. Þarna komu iðnaðaráform og umsvif Innréttinganna töluvert við sögu. Með konungsúrskurði og góðum fjárstuðningi var stofnað sauðfjárkynbótabú á Elliðavatni í Seltjarnarneshreppi hinum forna um sumarmál 1756 til að bæta ullina. Bústjórinn, Friedrich Wilhelm Hastfer, sænskur barón og mikill áhugamaður um sauðfjárrækt, kom þá strax með 10 hrúta, sagða af enskum stofni, og stýrði byggingu reisulegs fjárhúss. Skemmst er frá að segja að búskapurinn gekk ekki vel fyrsta kastið og lifði aðeins einn hrútanna fyrsta veturinn af en fleiri hrútar voru fluttir inn árin 1757, 1759 og 1761, bæði af ensku og holsteinsku kyni. Talið var að með þeim síðarnefndu hafi lungnaveiki borist 1759 en áður óþekktur og illvígur smitandi húðsjúkdómur með ensku hrútunum 1761. Auk hins nýja húðsjúkdóms og lungnaveikinnar er sennilegt að bráðapest hafi einnig borist til landsins með þessum innflutningi, jafnvel með smygli. Hugsanlegt er að þarna hafi spánskættaðir merínó-hrútar komið einnig við sögu en þeir ensku hafa sennilega verið af þeim stofni sem þá var að móta bæði Leicester- og Cheviot-kynin. Fjölda hrúta var dreift frá Elliðavatni, einkum haustið 1761, smitgát virtist lítil sem engin og strax árið eftir var útbreiðsla hins nýja húðsjúkdóms orðin veruleg á sunnan- og vestanverðu landinu. Fé drapst í stórum stíl. Var svo komið 1769 að sýkingin var komin um allt land vestan Jökulsár á Sólheimasandi og Skjálfandafljóts, að undanteknum stórum hluta Vestfjarða. Tilraunir til lækninga báru ekki árangur og með konunglegri tilskipun hófst niðurskurður og síðan fjárskipti haustið 1771, allt framkvæmt í áföngum alveg til haustsins 1779. Fénu í landinu fækkaði mikið á þessum árum og tjónið var gífurlegt. Þarna tókst þó, með samstilltu átaki bænda, undir umsjá sýslumanna og stiftamtmanns, að vinna stórvirki, ekki síst vegna þess að varnargirðingar voru engar, samgöngur torveldar og erfitt að koma við eftirliti. Fénu var farið að fjölga aftur, var komið í 236.000 árið 1783, en fækkaði niður í aðeins 50.000 í Móðuharðindinum 1783–1784, mesta fjárfelli í sögu þjóðarinnar, aðeins fimm árum eftir að hinum smitandi húðsjúkdómi var útrýmt. Eftir að fjárkláði af völdum fjárkláðamaura (Psoroptes ovis) barst til landsins árið 1855 var farið að tala um fyrri fjárkláðann og síðari fjárkláðann. Húðsjúkdómurinn sem barst til landsins á 18. öld var ekki maurakláði. Kláðamaurar fundust ekki og einkenni þessara tveggja sjúkdóma voru gjörólík eins. Tilraunir til að bæta ullina með kynbótum fjárins á 18. öld höfðu mistekist.