Af búfjársjúkdómum á átjándu og nítjándu öld

Málþing Félags um átjándu aldar fræði 9. október 2021


Efnisútdrættir úr fyrirlestrum

Yfirlit yfir búfjársjúkdóma á nítjándu öld

Helgi Sigurðsson, dýralæknir og sagnfræðingur


Í erindinu er gefið yfirlit yfir sjúkdóma í íslenskum búpeningi á nítjándu öldinni. Heimilda er leitað í ritgerð Magnúsar Stephensens um íslenskan landbúnað sem kom út í dönsku riti árið 1808. Þar fjallar Magnús um sjúkdóma í hestum, kúm og sauðfé. Önnur heimild er fengin hjá Snorra Jónssyni sem var annar íslenski dýralæknirinn sem kom hingað til lands á seinni hluta nítjándu aldar. Hann skrifaði merka grein um íslenskan landbúnað og húsdýrasjúkdóma sem birtist í danska dýralæknatímaritinu árið 1879. Fékk hann verðlaun fyrir þessa ritgerð sína. Þetta er mjög ítarlegt yfirlit yfir sjúkdóma í búfé hér á landi. Þar telur hann upp sjúkdóma sem hann hefur kynnst af eigin raun eða heyrt um af afspurn. Hann leggur þó áherslu á að þetta sé ekki tölfræði heldur aðeins upptalning á sjúkdómum. Í seinni hluta erindisins er fjallað um bráðapest í sauðfé en sá sjúkdómur olli hvað mestum búsifjum á sautjándu, átjándu og nítjándu öldinni. Þessi sjúkdómur hefur dálítið gleymst en tjón íslensks landbúnaðar var gífurlegt. Líklegt er, ef allt er talið saman, þá hafi tjónið af völdum bráðapestar verið meira en af báðum fjárkláðunum samanlagt. Fjallað er um útbreiðslu sjúkdómsins og eðli, auk nokkurra læknisráða. Þá er lýst aðkomu Jóns Hjaltalíns landlæknis og dýralæknanna Snorra Jónssonar og Magnúsar Einarssonar að rannsóknum á sjúkdómnum. Það var svo ekki fyrr en í lok aldarinnar sem uppgötvaðist að baktería er orsökin. Í framhaldinu var fundið upp bóluefni sem Magnús Einarsson dýralæknir gerði umfangsmiklar tilraunir með.



Miltisbrandur — anthrax — á Íslandi   

Sigurður Sigurðarson, dýralæknir 


Miltisbrandur eða miltisbruni (anthrax) er bráður smitsjúkdómur, lífshættulegur flestum spendýrum og fólki. Orsökin er stór og digur, staflaga baktería, gram jákvæð (Gr+), Bacillus anthracis. Hún myndar öflugt eitur, sem hleypir af stað sjúkdóminum. Ýmist er sjúkdómurinn virkur og bráðdrepandi eða liggur í dvalargróunum og vaknar, þegar skilyrði leyfa og verður þá að drepandi bakteríu á ný. Þennan sjúkdóm hafa menn óttast lengur en flesta aðra sjúkdóma. Fyrstu lýsingar á því, sem líklega hefur verið miltisbrandur, má finna í hinni helgu bók, Biblíunni, frá því um 1500 árum fyrir Krist og fyrstu lýsingar  á slíkum sjúkdómi á Íslandi er að finna í Prestssögu Guðmundar Arasonar í Sturlungu I  árið1203. Fyrst var veikin greind hér á landi, svo öruggt sé, árið 1866. Hún barst þá til landsins með ósútuðum stórgripahúðum. Miltisbruni finnst annað kastið í flestum löndum heims, en er landlægur í Suðurálfu.  

Sjúkdómurinn smitast sjaldan frá einni skepnu til annarrar eða frá manni til manns, en sýklar menga blóð og slím, sem fer frá öllum vitum skepnunnar dauðri og rétt fyrir dauðann. Smithætta er fyrir skepnur og menn af útferð frá miltisbrunaskepnum og einnig af drepkýlum, er myndast á húð, þegar bakterían berst í sár eða nuddast ofan í húðina. Sýklarnir mynda hina langlífu spora eða dvalargró, ef þeir komast í snertingu við súrefni loftsins. Sporar geyma smitið lengi undir yfirborði og í gröfum.








Um sullaveiki á Íslandi á liðnum öldum

Karl Skírnisson, dýrafræðingur


Lífsferill ígulbandormsins Echinococcus granulosus varð ljós árið 1852 þegar þýski læknirinn Philipp Franz von Siebold sýndi fram á að ígulbandormur í hundi og ígulsullur í húsdýrum og mönnum voru mismunandi lífsform sömu lífveru. Eftir að þetta varð ljóst gat skipuleg barátta hafist gegn sullaveiki. Nokkrum árum áður (1847 og 1848) hafði danski læknirinn Peter Anton Schleisner dvalist á Íslandi og gefið sullaveikinni gaum. Þeir Jón Thorstensen, landlæknir, áætluðu að sjötti til sjöundi hver Íslendingur hafi þá verið sullaveikur. Síðar kom í ljós að smittíðnin upp úr miðri 19. öld hafði líkast til verið enn hærri og að allt að fimmtungur þjóðarinnar hafi þá verið sullaveikur. Sullaveikin var gífurlegt heilbrigðisvandamál sem olli fólki ómældum sársauka og dóu margir þeirra sem smituðust. Á sama hátt hrjáði sullaveikin auðvitað sauðfé og nautgripi landsmanna. Svín geta einnig smitast en ígulsullur þroskast ekki í hrossum.

Til að átta sig á því hvers vegna ígulsullur gat orðið svona algengur í fólki á Íslandi er rétt að skoða aðstæður í landinu um miðja 19. öld. Híbýlin voru frumstæð, fólk bjó í torfbæjum við bágar hreinlætisaðstæður. Mannfjöldinn var um 70 þúsund. Flestir bjuggu í sveitum þar sem búskapur með sauðfé og kýr hélt lífi í fólki. Þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna voru iðulega með smábúskap. Mikill fjöldi sauðfjár var í landinu á þessum árum – á bilinu 600–700 þúsund vetrarfóðraðar kindur. 

Hundaeign var afar útbreidd en í þeim lifði ígulbandormurinn og dreifðust egg hans út frá skít hundanna. Eggin loddu við gróður, þannig smituðust grasbítarnir. Fólk smitaðist þegar eggin bárust óviljandi niður í meltingarveg (mengun frá hundaskít). Fjöldi hunda í landinu um miðbik 19. aldar er talinn hafa verið á bilinu 15–20 þúsund, eða einn hundur á hverja þrjá eða fjóra landsmenn. Samskipti manna, hunda og annarra húsdýra voru náin. Þrengsli innanhúss voru mikil og þéttbýlt var í sveitum landsins. Smalar áttu gjarnan sína eigin hunda og hundar héldu oftast til inni í torfbæjunum. Kýr voru gjarnan haldnar undir sama þaki sem hitagjafar og bitu gróður heima við bæi þar sem hundarnir hægðu sér og skítur þeirra lá óhreyfður. Slátrað var heima við bæi þar sem sollnum líffærum var oft hent fyrir hunda áður en menn þekktu lífsferil ígulbandormsins. Vegna alls þessa var ígulsullur margfalt algengari í fólki á Íslandi en til dæmis í Kaupmannahöfn. Upp úr miðri 19. öld voru aðeins um 0,6% hunda í Kaupmannahöfn með ígulbandorm en 28% hunda á Íslandi voru smitaðir. Munurinn var 47-faldur.

Viðnámsaðgerðir hérlendis báru tiltölulega skjótan árangur. Þar skipti miklu máli að rjúfa lífsferilinn með því að meina hundum aðgang að hráum, sollnum líffærum. Nýsmitun manna var að mestu horfin strax við lok 19. aldar, ekki er vitað um nema 8 manneskjur sem smituðust af ígulsulli á allri 20. öld. Síðasta dauðsfallið var árið 1960, kona lést af völdum óstöðvandi blæðinga þegar reynt var að fjarlægja sull. Stöku hundar voru þó greinilega smitaðir af ígulbandorminum allt fram á áttunda áratug síðustu aldar, smitið grasseraði hvað lengst á Austfjörðum. Lyf (praziquantel) sem drap alla bandorma í þörmum hunda kom ekki á markað fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar. Fram að því notuðust menn við niðurgangslyf sem hafði takmarkaða virkni þannig að sumir hundar voru áfram smitaðir. Síðast fannst ígulsullur í nautgrip á Íslandi árið 1961, síðasta smitaða sauðkindin fannst á Stöðvarfirði árið 1979. Síðan þá, nú í bráðum hálfa öld, hefur ígulbandormurinn ekki sést í landinu þannig að talið er að honum hafi verið útrýmt. Er það einstakt afrek á heimsvísu.  





Fjárkláðafaraldrar á átjándu og nítjándu öld

Ólafur R. Dýrmundsson, sjálfstætt starfandi doktor í búvísindum


Allt frá landnámstíð var íslenska sauðkindin, stuttrófukyn af norður-evrópskum stofni, einangruð fram á 18. öld. Hið sama gilti um önnur landnámskyn búfjár hér á landi eftir því sem best er vitað. Kindakjöt og aðrar sláturafurðir treystu mjög fæðuöryggi í landinu, ullin var þjóðinni veigamikil afurð, fólkið gekk að mestu í fötum úr ull og gærurnar nýttust einnig vel. Þá voru ullarvörur, bæði vaðmál og prjónles, verðmætar útflutningsafurðir, en lengi vel voru hægar framfarir í vinnsluaðferðum. Efling ullariðnaðar og innflutningur fjár með fínni ull voru á meðal þeirra aðgerða til framfara sem áttu sterkan hljómgrunn hjá ráðamönnum, bæði hér á landi og í Danmörku, fyrir og um miðja 18. öld. Þarna komu iðnaðaráform og umsvif Innréttinganna töluvert við sögu. Með konungsúrskurði og góðum fjárstuðningi var stofnað sauðfjárkynbótabú á Elliðavatni í Seltjarnarneshreppi hinum forna um sumarmál 1756 til að bæta ullina. Bústjórinn, Friedrich Wilhelm Hastfer, sænskur barón og mikill áhugamaður um sauðfjárrækt, kom þá strax með 10 hrúta, sagða af enskum stofni, og stýrði byggingu reisulegs fjárhúss. Skemmst er frá að segja að búskapurinn gekk ekki vel fyrsta kastið og lifði aðeins einn hrútanna fyrsta veturinn af en fleiri hrútar voru fluttir inn árin 1757, 1759 og 1761, bæði af ensku og holsteinsku kyni. Talið var að með þeim síðarnefndu hafi lungnaveiki borist 1759 en áður óþekktur og illvígur smitandi húðsjúkdómur með ensku hrútunum 1761. Auk hins nýja húðsjúkdóms og lungnaveikinnar er sennilegt að bráðapest hafi einnig borist til landsins með þessum innflutningi, jafnvel með smygli. Hugsanlegt er að þarna hafi spánskættaðir merínó-hrútar komið einnig við sögu en þeir ensku hafa sennilega verið af þeim stofni sem þá var að móta bæði Leicester- og Cheviot-kynin. Fjölda hrúta var dreift frá Elliðavatni, einkum haustið 1761, smitgát virtist lítil sem engin og strax árið eftir var útbreiðsla hins nýja húðsjúkdóms orðin veruleg á sunnan- og vestanverðu landinu. Fé drapst í stórum stíl. Var svo komið 1769 að sýkingin var komin um allt land vestan Jökulsár á Sólheimasandi og Skjálfandafljóts, að undanteknum stórum hluta Vestfjarða. Tilraunir til lækninga báru ekki árangur og með konunglegri tilskipun hófst niðurskurður og síðan fjárskipti haustið 1771, allt framkvæmt í áföngum alveg til haustsins 1779. Fénu í landinu fækkaði mikið á þessum árum og tjónið var gífurlegt. Þarna tókst þó, með samstilltu átaki bænda, undir umsjá sýslumanna og stiftamtmanns, að vinna stórvirki, ekki síst vegna þess að varnargirðingar voru engar, samgöngur torveldar og erfitt að koma við eftirliti. Fénu var farið að fjölga aftur, var komið í 236.000 árið 1783, en fækkaði niður í aðeins 50.000 í Móðuharðindinum 1783–1784, mesta fjárfelli í sögu þjóðarinnar, aðeins fimm árum eftir að hinum smitandi húðsjúkdómi var útrýmt. Eftir að fjárkláði af völdum fjárkláðamaura (Psoroptes ovis) barst til landsins árið 1855 var farið að tala um fyrri fjárkláðann og síðari fjárkláðann. Húðsjúkdómurinn sem barst til landsins á 18. öld var ekki maurakláði. Kláðamaurar fundust ekki og einkenni þessara tveggja sjúkdóma voru gjörólík eins. Tilraunir til að bæta ullina með kynbótum fjárins á 18. öld höfðu mistekist.

Previous
Previous

Áhrif jarðskjálfta á Íslandi fyrr á öldum