Starfið framundan

Málþing á síðustu mánuðum ársins 2021 (með fyrirvara um breytingar)

Ítrekað hefur þurft að fresta málþingum félagsins á starfsárinu 2020–2021. Stjórn félagsins hefur ákveðið að málþing komi aftur á dagskrá haustið 2021.

Árið 2021: 9. október kl. 13:30–16:30: Af búfjársjúkdómum á átjándu og nítjándu öld

Fyrirlesarar á málþinginu verða: Helgi Sigurðsson, dýralæknir ogsagnfræðingur, mun veita yfirlit um búfjársjúkdóma á nítjándu öld; Karl Skírnisson, dýrafræðingur, mun fjalla um sullaveiki; Ólafur R. Dýrmundsson, búvísindamaður, mun fjalla um fjárkláðafaraldra og Sigurður Sigurðarson, dýralæknir, mun fjalla um miltisbrand.

Árið 2021: 12. febrúar kl. 13:30–16:45: Nýjar rannsóknir ungra sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld

Fjórir nýlega útskrifaðir sagnfræðingar, sem lokið hafa BA-prófi frá Háskóla Íslands á undanförnum árum, munu fjalla um rannsóknir sem lokaverkefni þeirra byggðust á (heiti lokaverkefna eru tilgreind innan sviga í kynningunni hér að neðan). Það eru þau Ása Esther Sigurðardóttir (Út fyrir mörk kvenleikans? Þorbjörg Sveinsdóttir og kvenleikahugmyndir nítjándu aldar); Kristjana Vigdís Ingvadóttir (Embættismál Íslendinga á 18. öld. Um dönsk áhrif og mikilvægi íslensku); Ragnhildur Anna Kjartansdóttir (Fóðrun og hagaganga aðkomufjár í kvikfjártalinu 1703) og Þórunn Þorsteinsdóttir (Lestir lausamennsku og lifnaður við sjávarsíðuna. Afbrot og siðferði á Akureyri 1810–1840).

Málþing á fyrstu mánuðum ársins 2022

Árið 2022: 2. apríl kl. 13:30–16:45: Nýjar rannsóknir á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld

Fyrirlesarar á málþinginu verða: Arnór Gunnar Gunnarsson, sagnfræðingur, mun fjalla um áhuga sem sjálfstæðishreyfing Grikkja á þriðja áratug nítjándu aldar vakti innan danska ríkisins, eins og víðsvegar í Evrópu. Skoðuð verða dæmi um áhuga Íslendinga á þessari sjálfstæðishreyfingu Grikkja; Eiríkur Hermannsson, sagnfræðingur, mun fjalla um meðferð dómskerfisins á nokkrum brotlegum bændum og fjölskyldum þeirra á árunum 1792–1808, svo og um afdrif þeirra. Bændurnir tóku sumir út refsingu sína í Stokkhúsinu í Kaupmannahöfn; Guðrún Hildur Rosenkjær, sagnfræðingur og klæðskera- og kjólameistari í Annríki – Þjóðbúningar og skart, mun fjalla um prjónaðan fatnað eins og honum er lýst í uppskriftum dánarbúa á átjándu og nítjándu öld; Halldór Baldursson, sagnfræðingur og læknir, mun fjalla um viðbrögð yfirvalda og þær aðgerðir sem hófust eftir strand herskipsins Gautaborgar á Hraunskeiði í Ölfusi í nóvember 1718 en koma þurfti 174 skipsbrotsmönnum fyrir til vetursetu; þá mun Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra og annar ritstjóri tímaritsins Sögu, fjalla um sáttanefndir á Íslandi og störf þeirra á nítjándu öld.

Árið 2022: 8. október kl. 13:30–16:30

Kynnt verða tvö viðamikil rannsóknarverkefni sem varða sögu Íslands á átjándu öld. Verkefnin, sem kynnt verða, eru annars vegar útgáfa á skjölum landsnefndarinnar fyrri, sem staðið hefur yfir undanfarin ár, og hins vegar verkefni sem ber yfirskriftina „Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins. Fjölskyldur og heimilisbúskapur á Íslandi í byrjun 18. aldar“.

Fyrirhugað að halda málþing:

Haust 2022: Um sögu raunvísinda og um sjálfsævisögur.

Sumarferð frestað til júní 2022

Sumarferð Félags um átjándu aldar fræði um Vestur-Húnavatnssýslu, sem átti að fara í júní 2021, verður frestað fram til sumarsins 2022. Frekari upplýsingar um ferðina verða veittar í fundarboði í febrúar 2022.

Vefnir. Tímarit Félags um átjándu aldar fræði

Félag um átjándu aldar fræði gefur út vefritið Vefni, þ.e. Vefnir. Tímarit Félags um átjándu aldar fræði. Útgáfa Vefnis er nú komin í góðan farveg. Á síðasta ári voru birtar þrjár fræðigreinar. Höfundar þeirra eru Gísli Gunnarsson, Ólafur R. Dýrmundsson og Sigurgeir Guðjónsson. Greinarnar eru aðgengilegar á slóðinni http://vefnir.is/ Ritstjóri Vefnis er Margrét Gunnarsdóttir. Í ritstjórn auk hennar sitja Gunnar Skarphéðinsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Kristín Bragadóttir. Ritstjóri tekur við greinum, netfang: mag59@hi.is

1700-tal: Nordic Journal for Eighteenth-Century Studies 

Félagið á aðild að ársritinu 1700-tal: Nordic Journal for Eighteenth-Century Studies. Sænska átjándu aldar félagið gefur gefur ritið út í samvinnu við hin fjögur átjándu aldar félögin á Norðurlöndum. Greinar eru birtar á sex tungumálum (sænsku, dönsku, norsku (bæði bókmáli og nýnorsku), ensku, frönsku og þýsku). Kristín Bragadóttir er ritstjóri fyrir hönd félagsins og Sigurgeir Guðjónsson annast ritdómaritstjórn fyrir hönd félagsins. Anna Agnarsdóttir situr í ráðgjafarnefnd ársritsins. Ritið er í opnum aðgangi á slóðinni: https://septentrio.uit.no/index.php/1700 

Fréttir af ISECS (The International Society for Eighteenth-Century Studies)

Félag um átjándu aldar fræði á aðild að alþjóðasamtökum félaga um átjándu aldar fræði, ISECS. Kristín Bragadóttir er fulltrúi félagsins í framkvæmdanefnd (executive committee) samtakanna. Að undanförnu hafa alþjóðasamtökin unnið að undirbúningi heimsþings alþjóðasamtakanna sem haldið verður í Róm 9.–14. júlí 2023.

Hlaðvarp Félags um átjándu aldar fræði

Félag um átjándu aldar fræði vinnur að undirbúningi þess að stofna hlaðvarp um átjándu aldar fræði og skyld efni. Vonir standa til að fyrsta hlaðvarpið verði tilbúið í sumar. Þar mun fræðimönnum gefast tækifæri til að ræða saman um fjölbreytileg viðfangsefni á sviði átjándu aldar fræða og skyldra efna. Umsjónarmenn hlaðvarpsins eru Helga Hlín Bjarnadóttir, netfang: helga.h.bjarnadottir@skjalasafn.is og Jón Kristinn Einarsson, netfang: jke5@hi.is 

Greiðsla árgjalds

Komið er að greiðslu árgjalds fyrir árið 2021. Árgjaldið er 2.000 kr. Greiðsluseðlar munu berast félagsmönnum fljótlega, en einnig verður hægt að greiða árgjaldið í heimabanka. Gjalddagi er 4. júní og eindagi 25. júní. Skilvís greiðsla árgjalds skiptir öllu fyrir starfsemi félagsins, eins og nærri má geta.

Félag um átjándu aldar fræði á Facebook

Á Facebook-síðu Félags um átjándu aldar fræði eru málþing, ferðir og annað fréttnæmt tengt starfinu og átjándu aldar fræðum og skyldum efnum kynnt. Félagsmenn eru hvattir til þess að tengjast síðunni. Heiti hennar er: „Félag um átjándu aldar fræði“ https://www.facebook.com/Félag-um-átjándu-aldar-fræði-205782410183622/?modal=admin_todo_tour

Væntanleg ráðstefna í Kaupmannahöfn

Þriðja ráðstefna norrænna félaga um átjándu aldar fræði verður haldin í Kaupmannahöfn 24.–27. ágúst 2022. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Right(s) and Wrong(s) in the 18th Century. Frekari upplýsingar um ráðstefnuna verðar sendar til félagsmanna í tölvupósti þegar nær dregur.

Upplýsingar um starfsemi Félags um átjándu aldar fræði veitir Helga Kristín Gunnarsdóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Arngrímsgötu 3, 107

Reykjavík, netfang: helga.k.gunnarsdottir@landsbokasafn.is, sími: 525 5755.

Previous
Previous

Málþing um búfjársjúkdóma

Next
Next

Fréttir af aðalfundi 2021