Af nýjum rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslandsá átjándu og nítjándu öld

Málþing Félags um átjándu aldar fræði 12. febrúar 2022 

Efnisútdrættir úr fyrirlestrum



Fóðrun og hagaganga aðkomufjár í kvikfjártalinu 1703

Ragnhildur Anna Kjartansdóttir, sagnfræðingur og skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands 


Kvikfjártal var tekið samhliða manntali árið 1703 í mikilli rannsókn á landshögum á Íslandi sem Árni Magnússon og Páll Vídalín framkvæmdu. Það sýnir að það tíðkaðist að taka skepnur í fóðrun og hagagöngu fyrir aðra. Í þessum fyrirlestri er þessi siður kannaður og skýrður í samhengi við tilkomu kvikfjártalsins. Leitast er við að svara því hverjir áttu fénaðinn og af hverju hann var í fóðrun eða hagagöngu hjá öðrum en eigendum sínum. Til að svara þessum spurningum er skráning aðkomufjár í kvikfjártalinu sérstaklega skoðuð, sem og útbreiðsla slíkrar fóðrunar. Bent er á hverjir voru eigendur fjárins og þær ástæður sem kunna að hafa legið að baki því að fé var í fóðrun hjá öðrum. Upplýsingar um fóðrun aðkomufjár í Seltjarnarneshreppi í Gullbringusýslu og Miðfjarðarhreppi í Húnavatnssýslu eru sérstaklega skoðaðar. Mikill munur var á milli þessara hreppa. Aðeins 13,4% ábúenda í Seltjarnarneshreppi höfðu aðkomufé í fóðri eða hagagöngu en 91,9% í Miðfjarðarhreppi. Ýmsar ástæður voru fyrir fóðruninni en má þá einkum nefna að hún var notuð sem laun vinnufólks sem voru borguð að hluta eða öllu leyti með þessum hætti. Í Miðfjarðarhreppi var einnig áberandi fóðrun fyrir álögur og gjöld til jarðeigenda og presta.



Út fyrir mörk kvenleikans á nítjándu öld 

Ása Ester Sigurðardóttir, sagnfræðingur


Þorbjörg Sveinsdóttir (1827–1903) var ljósmóðir og kvenréttindakona í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar. Hún var ákveðin, hafði sterkar skoðanir og þótti vera mikill skörungur. Hún var að mörgu leyti óhefðbundin og henni leyfðist margt sem aðrar konur máttu ekki, eins og að tala á stjórnmálafundum þar sem aðeins þeir sem höfðu kosningarétt máttu kveðja sér hljóðs. Hún gekk oft þvert á hugmyndir samfélagsins um hlutverk og eðli kvenna og þótti stundum haga sér afar ókvenlega. Markmið rannsóknarinnar var að kanna af hverju Þorbjörgu leyfðist að haga sér á þennan hátt þegar margar aðrar konur í svipaðri stöðu komust ekki upp með slíka hegðun og hlutu jafnvel samfélagslegan skaða af. Rannsóknin er skrifuð út frá sjónarhorni kvenna- og kynjasögu og er að mörgu leyti ævisöguleg en þó með kenningarmiðaðri nálgun þar sem hugtakið kvenleiki er notað til að greina íslenskt samfélag seinni hluta nítjándu aldar og hvernig konur gátu við viss skilyrði stigið út fyrir, eða teygt, ramma æskilegrar hegðunar kvenna á þessum tíma. Í tilviki Þorbjargar virðist það hafa verið sambland fjögurra atriða eða þátta, það er, aldur hennar, hjúskaparstaða, samfélagsleg staða og aðferðir hennar við að ögra ríkjandi hugmyndum og kvenleika. Þessi fyrirlestur er byggður á BA-ritgerð höfundar.




Um notkun dönsku og erlend áhrif á íslensku 

Kristjana Vigdís Ingvadóttir, sagnfræðingur og skjalavörður við  Þjóðskjalasafn Íslands


Árið 1771 skrifaði rektor Skálholtsskóla, Bjarni Jónsson bréf til Landsnefndarinnar fyrri þar sem hann lagði til að íslenska yrði lögð niður og Íslendingar tækju upp dönsku, tungumál herraþjóðarinnar. Í ríki danska konungsins var danska mikið notuð og sérstaklega þegar kom að stjórnsýslu. Á Íslandi var því eins farið. Til umfjöllunar er bréfarannsókn höfundar sem varpar ljósi á tungumálanotkun Íslendinga á átjándu og nítjándu öld. Skrifuðu íslenskir amtmenn ómenntuðum bændum á dönsku? Hvaða tungumál notaði vinnufólk í samskiptum við yfirvöld — og konung? Hvort tungumálið var meira notað, danska eða íslenska? Meðal þess sem leitað er svara við er hvort dönskunotkun á Íslandi hafi verið svo mikil að það hefði verið hægðarleikur einn að taka upp dönsku í stað íslensku. 

Við sögu koma íslenskir málhreinsunarmenn og „baráttumenn“ íslenskunnar en einnig danskir áhugamenn um íslensku — norrænuna fornu — og handritin sem geyma sögu Norðurlanda. Í því samhengi er fjallað um viðhorf danskra stjórnvalda til íslensku en einnig til færeysku og grænlensku. Íslenskir mennta- og embættismenn voru þeir sem notuðu dönsku mest en „ómenntuð“ alþýðan notaði nær eingöngu íslensku. Þó lögðu mennta- og embættismenn nítjándu aldar mikla áherslu á að íslensku ætti að nota á Íslandi, sérstaklega í stjórnsýslunni. En hvað gerði það að verkum að framtíð íslenskunnar var tryggð?

Fjallað er um „dönsk áhrif“ á Íslandi á átjándu og nítjándu öld en einnig um mikilvægi íslensku frá siðaskiptum. Hvaða áhrif hafði það á íslenskt samfélag og tungumálanotkun Íslendinga að vera undir stjórn Dana? Fræðslustarf, tímaritaútgáfa, verslun og viðskipti eru meðal þess sem rætt er í erindinu en sérstaklega er athygli beint að tungumálinu sem notað var á þessum sviðum. 



Grikkland norðursins? Umfjöllun Íslendinga um gríska sjálfstæðisstríðið 1821–1830

Arnór Gunnar Gunnarsson, sagnfræðingur 


Gríska sjálfstæðisstríðið á 3. áratug 19. aldar vakti mikla athygli og eldmóð um alla Evrópu. Svokallaðir fílhellenistar skrifuðu um atburðina, söfnuðu peningum og ferðuðust jafnvel til Grikklands til að taka þátt. Þessi fjölþjóðlegi áhugi á sjálfstæði Grikkja frá Ottómanaveldinu hefur vakið athygli fræðimanna á undanförnum árum og áratugum. Meðal annars hefur verið skrifað um fílhellenisma í Danmörku — en hvað sögðu Íslendingar um málið?

Í þessum fyrirlestri verður einblínt á umfjöllun um gríska sjálfstæðisstríðið í Klausturpósti Magnúsar Stephensen og Íslenzkum sagnablöðum Finns Magnússonar og skrifin sett í samhengi við fílhellenisma. Skoðað verður hvað var líkt og hvað ólíkt með þessum íslensku ritum og umfjöllun um stríðið annars staðar í Evrópu. Umfjöllunin er ekki síst athyglisverð fyrir þær sakir að með gríska sjálfstæðisstríðinu urðu miklar umræður um tungumál, menningararf og sjálfstæði. Árið 1830 átti Baldvin Einarsson einmitt eftir að líkja Íslandi við Grikkland. Það þarf vitaskuld ekki að þýða að orsakasamhengi hafi verið milli gríska sjálfstæðisstríðsins og íslenskrar þjóðernishyggju, en hugmyndafræðilegur skyldleiki var þó að einhverju leyti til staðar.


Previous
Previous

Enn af nýjum rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld

Next
Next

Áhrif jarðskjálfta á Íslandi fyrr á öldum