Enn af nýjum rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld

Málþing Félags um átjándu aldar fræði 2. apríl 2022 

Efnisútdrættir úr fyrirlestrum

Þegar fylgdarskipið fórst

Halldór Baldursson, læknir og sagnfræðingur 

Vegna styrjaldar milli Danakonungs ríkis og Svíþjóðar sigldu kaupför Íslandsverslunarinnar í skipalestum með herskipafylgd á árunum 1714—1720. Í nóvember 1718 fórst fylgdarskipið Gautaborg við Hraunsskeið í Ölfusi og 174 skipbrotsmenn þurftu að hafa vetursetu á Íslandi. Yfirvöld Íslands stóðu þá frammi fyrir stórum, aðkallandi og óvenjulegum verkefnum. Stærsta og brýnasta verkefnið var að útvega skipverjum húsaskjól og mat. Sýslumanni bar skylda til að rannsaka tildrög skiptapans. Bjarga skyldi verðmætum sem unnt var, en flakið var konungs eign. Að lokum þurfti að senda skipverja utan til áframhaldandi herþjónustu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig yfirvöld hér á landi tóku á þeim verkefnum sem leiddi af strandi Gautaborgar

Niels Fuhrmann kom til landsins sem amtmaður síðsumars 1718. Hann stjórnaði aðgerðum vegna strands Gautaborgar. Skipbrotsmönnum var komið fyrir á bæjum í Gullbringusýslu, Kjósarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Landfógeti greiddi fæðispeninga til þeirra sem hýstu skipbrotsmenn, alls 4.421 ríkisdal. Sýslumaður Árnessýslu hélt héraðsþing (sjópróf) til að rannsaka skiptapann. Verðmætum var bjargað eftir því sem tækjabúnaður leyfði. Það sem sjóherinn gat notað var sent utan en annað selt, að mestu á uppboðum. Skipbrotsmenn voru sendir utan 1719 með kaupskipum og fylgdarskipi.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að yfirvöldum á Íslandi tókst prýðilega að leysa úr þeim erfiðu verkefnum sem leiddi af strandi Gautaborgar. Það má að verulegu leyti þakka styrkri stjórn Niels Fuhrmanns amtmanns.

Torf sem byggingarefni á átjándu öld

Sigríður Sigurðardóttir, sagnfræðingur og lektor við Háskólann á Hólum 

Híbýli fólks á átjándu öld voru meira og minna úr torfi og grjóti. Torf var staðbundið, ódýrt efni sem auðvelt var að nálgast ef rétt verkfæri voru tiltæk. Torfhlaðnir veggir veittu fólki skjól og einangrun og gáfu skilyrði fyrir lífshætti og langanir, sköpun og skemmtanir. Í erindinu verður farið yfir hvers vegna og hvernig torf var notað til bygginga og hvort þróun torfhúsa var mögulega háð því efni. Komið verður inn á efnisöflun og hleðslugerðir, mismun eftir landshlutum og ýmis afbrigði skoðuð. Stuttlega verður farið yfir hvernig húsin í bænum þróuðust og hvernig hlutverk þeirra breyttust, horft til timburverks torfbygginga og öflun húsviða innanlands og skoðað hvernig skortur á timbri kemur fram í þróun torfhúsanna og í kyndingu þeirra. Horft er til þess hvernig hægt er að meta heimildir um átjándu aldar híbýli út frá fyrri og seinni tíma heimildum og komið inn á hvernig torfhleðslur og orðafar tengt efninu voru mismunandi eftir landshlutum og í tímans rás.     

Prjónaðar gersemar og þarfaþing í fataeign Íslendinga á átjándu öld

Guðrún Hildur Rosenkjær, sagnfræðingur og klæðskera- og kjólameistari í Annríki – þjóðbúningar og skart    

Í erindinu verður fjallað um heimildir sem fyrirfinnast um prjónaðan fatnað á átjándu öld út frá fjölbreyttum heimildum. Heimildir er víða að finna um prjón og það er ljóst að prjónaðar fatnaður var mikilvægur í fataeign flestra Íslendinga. Nokkuð hefur varðveist af prjónuðum flíkum en flest frá því um 1800 eða yngra. Ýmsar ritaðar samtímaheimildir um fatnað og fatagerð er að finna en frammámenn átjándu aldar skráðu fræðslurit fyrir landsmenn í anda upplýsingarinnar. Einnig geta lýsingar erlendra gesta oft komið að notum því glöggt er gests augað. Dánarbú eru merkar og mikilvægar heimildir um eigur landsmanna því þar voru skráðar allar eigur hinna látnu, þar með talinn fatnaður. Þær heimildir bera oft í sér marglaga skýringar því auk heiti flíkur fylgja gjarnan orð eins og slitinn, garmur, borinn, forn, bættur og fleira sem lýsa vel ástandi og stöðu flíkurinnar. Tilgangurinn minn í upphafi var bæta þekkingu okkar á búningasögu Íslendinga á átjándu öld. Nú hefur tekist að finna nægar upplýsingar til að endurgera fatnað frá átjándu öld sem sýnir og sannar að Íslendingar höfðu mikla tækniþekkingu í prjónaskap. Sú vinna hefur í sjálfu sér skapað nýjar og merkilegar heimildir til frekari rannsókna á fatagerð fyrri alda.

Íslenskir Stokkhúsþrælar, aðstæður og afdrif 18051811

Eiríkur Hermannsson, sagnfræðingur

Árið 1805 voru sjö Íslendingar sendir til Kaupmannahafnar í ævilangan þrældóm eða aftöku. Fyrir þann tíma hafði verið nokkurt hlé á fangaflutningum til Kaupmannahafnar, eða allt frá 1792. Annað hlé varð á fangaflutningum til Kaupmannahafnar eftir átök Dana og Breta 1807. 

Allt þetta fólk hafði verið svipt æru og eignum, fimm brotamannanna höfðu verið dæmdir til ævilangrar þrælkunar og kagstrýkingar vegna sauðaþjófnaðar og annarra brota en tvennt hafði verið dæmt til dauða vegna morðtilraunar, en dómnum yfir þeim breytt með konungsúrskurði í ævilanga fangavist „upp á kóngsins náð“, eftir að þau komu til Kaupmannahafnar.

Samkvæmt dönskum lögum gátu ærulausir þrælar ekki vænst þess að fá náðun en þrátt fyrir það voru fjórir fanga að lokum náðaðir af konungi og þrír þeirra náðu að snúa aftur til fósturjarðarinnar, sá síðasti 1811. 

Í erindinu er farið rakin saga þessa fólks, aðstæður í Stokhúsinu og kvennafangelsinu í Kristjánshöfn, sem og athyglisverðar ástæður fyrir náðun þeirra eins og þær birtast í skjalasafni fangelsanna.

Previous
Previous

Tvö rannsóknarverkefni í sagnfræði

Next
Next

Af nýjum rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslandsá átjándu og nítjándu öld