Af vinnukonum á átjándu og nítjándu öld
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Kvenfólksvinna – eða hvað? Um störf vinnukvenna árið um kring
Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Í endurminningabókum, sendibréfum og opinberum heimildum frá lokum átjándu aldar og þeirri nítjándu má sjá vinnukonum bregða fyrir þar sem þær bera skít á tún, mjólka kindur og kýr, fara í hákarlalegur, spinna, vefa og prjóna, elda mat, þurrka af borðum í stássstofum, draga blaut föt af vinnumönnum, fá kinnhesta fyrir að vera ekki nógu fljótar, bera fram kaffi í postulínsbollum, raka á engjum votar í fætur eða slá með orfi og ljá. Þær fá lægri laun en vinnumenn þótt vinnudagur þeirra sé oft lengri og þær gangi stundum í sömu störf og þeir. Talað er um kvenfólksvinnu og karlmannaverk en mörkin þar á milli eru oft óljós.
Í þessu erindi verður fjallað um störf vinnukvenna, eins og þau birtast í heimildum átjándu og nítjándu aldar, og þau flokkuð niður eftir árstíðum. Jafnframt verður rætt um fjölbreytileika þessa stóra hóps því staða vinnukvenna og störf voru misjöfn eftir því hvar þær störfuðu, í sveit eða bæ, og hvenær á þessu tímabili.
Hún hefur „gjört sig hvað eptir annað seka í hirðuleysi og óhlýðni“. Vinnukonur mæta fyrir sáttanefndir
Ása Ester Sigurðardóttir, sagnfræðingur
Árið 1798 voru sáttanefndir settar á fót á Íslandi eftir danskri fyrirmynd. Þeim var ætlað að taka fyrir og leysa úr minniháttar deilumálum almennings og með því létta undir dómskerfinu og auðvelda almenningi að leita réttar síns.
Vinnukonur voru meðal þeirra sem komu fyrir sáttanefndirnar og gegndu þá bæði hlutverkum stefnenda og innstefndra. Deiluefni þeirra gátu verið nokkuð fjölbreytt en voru að stórum hluta tengd lífi í vist. Deilt var um kaup, aðbúnað, slæma hegðun eða framkomu, illa unna vinnu ásamt brotthlaupi eða brottvísun úr vist, svo eitthvað sé nefnt. Gjörðabækur sáttanefnda veita því einstaka innsýn inn í samskipti húsbænda og hjúa, valdaafstæður og hugmyndir um æskilega (og óæskilega) hegðun vinnufólks.
Í þessu erindi verður fjallað um nokkur mál vinnukvenna fyrir sáttanefndum á nítjándu öld og þau meðal annars skoðuð í samhengi við réttarstöðu kvenna og ríkjandi hugmyndir um kvenleika á tímabilinu.
„Í gylltu bandi“. Bækur í höndum vinnukvenna
Guðrún Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur
Í fyrirlestrinum verður fjallað um sambúð vinnukvenna og bóka. Áttu vinnukonur bækur og þá hvers konar bækur? Voru það aðallega rauðu ástarsögurnar eða var það eitthvað seigara undir tönn? Áttu bara fjáðar vinnukonur bækur eða voru fátæku vinnukonurnar helstu lestrarhestarnir? Og hvað segja þjóðsögur okkur um lesandi vinnukonur og viðhorfið til bóka?
Vistráðin í arðbæru aukastarfi?
Guðný Hallgrímsdóttir, sagnfræðingur
Þegar fjallað er um vinnukonur á tímum vistarbandsins er iðulega dregin upp neikvæð mynd af stöðu þeirra. Þær hafi flestar verið ungar og undirokaðar, búið fjarri heimahögum undir ægivaldi húsbænda. Vinnutími þeirra óhóflega langur og flestar aðeins ráðnar sem matvinnungar. Rannsóknir hafa þó sýnt fram á að vinnukonur höfðu ákveðið svigrúm til að afla sér tekna með aukastörfum sem ekki voru undir stjórn húsbænda þeirra. Þetta má til dæmis greina þegar unnið er með eftirlátnar eigur vinnukvenna sem dóu ungar með fulla starfsgetu. En dánarbú endurspegla safn hluta sem fólk taldi sig hafa not fyrir skömmu fyrir andlátið.
Í þessu erindi verður sagt frá vinnukonunni Björgu Ingimundardóttur sem andaðist árið 1813, aðeins þrítug að aldri. Af uppskrifuðum eigum hennar má sjá að Björg var óvenju efnuð kona sem átti meðal annars verðmæt kvenreiðtygi, ær, peningaseðla og mynt. Rýnt verður í æviferil og dánarbú Bjargar og kannað hvernig hún gat nýtt eigur sínar til verðmætasköpunar. Að lokum verður gerð tilraun til að bera saman dánarbú Bjargar og ungs menntamanns á uppleið í embættiskerfinu.