Nýjar rannsóknir í þjóðfræði

Efnisútdrættir úr fyrirlestrum


Smalastúlkur, drykkjurútar og galdranornir: 

Birtingarmyndir kvenna í íslenskum þjóðsögum 

Dagrún Ósk Jónsdóttir, aðjúnkt í þjóðfræði við Háskóla Íslands 

Þjóðsagnir geta sagt okkur ýmislegt um þau samfélög sem þær tilheyra, þær endurspegla að einhverju leyti þann hugmyndaheim og jarðveg sem þær spretta úr. Úr sögnum má lesa viðhorf fólks, meðal annars um hvað er æskileg og óæskileg hegðun. Í erindinu verður fjallað um breyttar hugmyndir og viðhorf til kynjanna á 18. og 19. öld, í samhengi við birtingarmyndir kvenna í íslenskum þjóðsögum frá 19. öld. Fjallað verður um þann boðskap sem sagnirnar innihalda varðandi hlutverk, hegðun og eftirsóknarverða eiginleika kvenna út frá þjóðfræði, sögulegum og kynjafræðilegum sjónarhornum. Rætt verður um það félagslega taumhald sem sögurnar fela í sér og beinist að konum. Þá verður því velt upp hvort þær hugmyndir sem dregnar eru upp í sögnunum séu hugsanlega enn til staðar í íslensku samfélagi í dag.


„Þessi saga er ósöguleg“: Áhrif Guðbrands Vigfússonar á þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar

Rósa Þorsteinsdóttir, rannsóknardósent á Árnastofnun

Segja má að skipuleg þjóðsagnasöfnun hafi hafist á Íslandi árið 1845 þegar þeir Magnús Grímsson og Jón Árnason ákváðu að hefja slíka söfnun. Eftir að þeir gáfu út fyrsta þjóðsagnasafnið árið 1852 kom í ljós að áhugi Íslendinga á slíku efni var ekki mikill. Þeir félagar höfðu því að mestu gefist upp þegar þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer kom til Íslands 1858. Hann hvatti þá til dáða og lofaði að finna útgefanda í Þýskalandi. Magnús lést 1860 og það kom í hlut Jóns Árnasonar að ljúka verkinu sem kom út í tveimur bindum 1862–64. Ýmsir söfnuðu fyrir Jón og sendu honum sögur, hann fór yfir, valdi efni og hreinritaði og sendi til Maurers í München, sem hafði síðan umsjón með prentuninni. Fljótlega stakk Maurer upp á því við Jón að allt efni sem færi þeirra á milli hefði viðkomu í Kaupmannahöfn hjá Guðbrandi Vigfússyni, sem læsi yfir þar sem Maurer treysti íslenskukunnáttu sinni ekki nógu vel. Meirihluti prentsmiðjuhandrits þjóðsagnasafnins varð eftir í fórum Maurers og endaði á ríkisbókasafninu í München. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem ég lét verða af því að fara þangað og skoða handritið með það í huga að sjá hvort Guðbrandur hefði gert miklar breytingar á handriti Jóns og hverju hann hefði þá breytt. Í erindinu verður sagt frá handritinu, sem nú er að láni í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, og þeim hlutum prentsmiðjuhandritsins sem áður voru þangað komin. Fjallað verður nánar um breytingar og athugasemdir Guðbrands og sýnd dæmi um þær.



Listævintýri í evrópsku samhengi og á Íslandi 

Romina Werth, doktor í íslenskum bókmenntum og umsjónarmaður doktorsnám á hugvísindasviði við Háskóla Íslands 


Í fyrirlestrinum er sjónum beint að frásagnategund sem ýmist er kölluð listævintýri eða nóvella. Þar sækir höfundur efnivið í munnlega geymd en blandar honum saman við eigin skáldskap, þannig að úr verður sjálfstætt höfundaverk. Listævintýri nutu sérstakra vinsælda í Evrópu á 18. öld, þó fyrsta safn þeirra hafi verið gefið út á árunum 1550–51 á Ítalíu.

Vinsældir listævintýra dvínuðu í byrjun 19. aldar, en þá færðist áhuginn frá listrænum ævintýrum yfir á söfnun þjóðsagna og ævintýra úr munnlegri geymd alþýðunnar. Nákvæm skráning þeirra varð grundvöllur fyrir rannsóknir á menningararfi þjóða og þróun þjóðsagnafræða. Hér má helst nefna ævintýrasafn Jacobs og Wilhelms Grimms, Kinder- und Hausmärchen (1812–15), sem markaði tímamót í fræðilegri nálgun á þessu sviði.

Meðal íslenskra listævintýra má helst nefna Ólandssögu eftir Eirík Laxdal, sem hann samdi á síðari hluta 18. aldar. Verkið sækir efni sitt í íslensk munnmælaævintýri en færir þeim bókmenntalegt yfirbragð. Auk þess þýddi Jónas Hallgrímsson listævintýri um miðbik 19. aldar og samdi nokkur sjálfur. Í fyrirlestrinum verður farið yfir þróun listævintýra og hvernig evrópskir bókmenntastraumar höfðu áhrif á íslenskar bókmenntir á 18. og 19. öld.



Sagnameistarar sólarlagsins: Sagnaskemmtanir og félagslíf kvenna í torfbæjarsamfélaginu

Júlíana Magnúsdótti, doktor í þjóðfræði frá Háskóla Íslands


Í erindinu verður fjallað um helstu niðurstöður doktors-rannsóknar höfundar á munnlegri sagnaskemmtun kvenna í gamla samfélagi torfbæjarins eins og hún endurspeglast í segulbandsupptökum þjóðfræðasafnarans Hallfreðar Arnar Eiríkssonar. Meginheimildir rannsóknarinnar voru viðtöl hans við 200 heimildarkonur, fæddar á seinna skeiði 19. aldar, auk lítils hóp karla úr sama heimildasafni sem skoðaðir voru til samanburðar í ákveðnum hlutum verkefnisins. Þetta hljóðrita-safn veitir einstaka innsýn inn í bæði sagnaskemmtun og sögu íslenskra kvenna í fyrri tíð þar sem það birtir okkur ekki aðeins heildstæða skráningu á sagnasjóðum kvennanna með þeirra eigin orðum og röddum heldur einnig mikilvægar samhengis-upplýsingar sem lúta að sagnaskemmtun þeirra, ævi, störfum og umhverfi. Þetta gerði það að verkum að hægt var að kort-leggja helstu þætti í sagnasjóðum kvennanna og skoða í tengslum við bakgrunn og umhverfi þeirra. Rannsóknin leiddi margt áhugavert í ljós í tengslum við landfræðilegan hreyfanleika kvenna og félagslíf þeirra og tengsl þess við sagnaskemmtun og hlutverk í útbreiðslu sagna. Þá leiddi hún í ljós margt áhugavert hvað varðar inntak og form sagnanna og tengsl þess við umhverfi og reynslu kvenna. 

Next
Next

Veiðar við Ísland á sautjándu, átjándu og nítjándu öld