Veiðar við Ísland á sautjándu, átjándu og nítjándu öld
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Hafrannsóknir á síðustu árum átjándu aldar
Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Að morgni 1. júní árið 1791, gekkst Sveinn Pálsson, 29 ára læknanemi við Hafnarháskóla, undir próf í náttúrufræðum hjá Naturhistorie Selskabet í Kaupmannahöfn, fyrstur manna. Að launum fékk hann þriggja ára styrk til rannsókna í heimalandi sínu og viðfangsefnið var bókstaflega allt sem varðaði náttúru þess, meðal annars hafið. Í erindisbréfi Sveins frá 16. júní 1791, var honum gert að kanna fæðuöflun innlendra dýra, ekki síst fiska, með sérstöku tilliti til „fiskenes træk eller reiser eller søgen hen til landet, da derpaa og paa fiskenes føde fiskerierne formodentlig beroe og derved bestemmes.“ Betri skilningur á atferli fiska gat með öðrum orðum stuðlað að auknum afla!
Meðal fárra verkfæra sem Sveinn tók með sér um sumarið voru fiskikarfa úr járni, 400 faðma langur strengur og tvö kíló af snæri sem nýttust með poka sem mun hafa fylgt körfunni. Annað var það ekki.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um veikburða viðleitni Sveins á þessum grundvelli næstu fjögur árin og það í samhengi við tilburði annarra styrkþega Náttúrufræðafélagsins á sömu árum. Byggt verður á ferðabók Sveins en einkum á óbirtum bréfum hans til Náttúrufræðafélagsins þar sem hann oft á tíðum harmar eigin frammistöðu vegna tímaskorts, fjárskorts og tækjaskorts.
Umsvif Hollendinga og starfsemi þeirra á Ströndum á sautjándu og átjándu öld
Ragnar Edvardsson, sjávarfornleifafræðingur á
Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum
Nýlegar rannsóknir benda til þess að umsvif erlendra þjóða við Ísland hafi verið mun meiri en áður var talið allt frá fjórtándu öld og fram á nútíma. Ein þessara þjóða voru Hollendingar, en frá öndverðri sautjándu öld sóttu þeir af krafti til norðurslóða til verslunar, fisk- og hvalveiða.
Íslenskar ritheimildir eru fáorðar um starfsemi Hollendinga á Íslandi á sautjándu og átjándu öld en fornleifarannsóknir á sautjándu aldar hvalveiðistöðvum, öskuhaugum valinna bæjarstæða á Ströndum, íslenskum og hollenskum ritheimildum sýna mikil umsvif Hollendinga að minnsta kosti frá miðri sautjándu öld og langt fram á átjándu öldina. Að auki benda rannsóknirnar til þess að Hollendingar hafi spilað mun stærra hlutverk í einokunarversluninni og að þeir hafi haft talsverð áhrif á sautjándu og átjándu aldar samfélag Íslendinga.
Selveiðar á Íslandi á átjándu og nítjándu öld
Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra
Það hafa löngum þótt viðtekin sannindi í íslenskri söguskoðun – sem sjá má víða – að selveiðar hafi verið stundaðar til búdrýginda hér á landi frá landnámi og fram á tuttugustu öld. Það hefur þó lítið farið fyrir eiginlegum rannsóknum á þessu viðfangsefni.
Í erindinu verður fjallað um selveiðar og selveiðihlunnindi á Íslandi frá átjándu öld til tuttugustu aldar. Byggt verður á rannsókn höfundar á selveiðum við Húnaflóa á þessu tímabili en einnig verður vikið að selveiðum víðar um land. Rætt verður um þátt selveiða og nýtingu selaafurða í lífskjörum og búrekstri á fyrri tíð og velt upp spurningum um hvort og þá hvernig framkvæmd selveiða, nýting selveiðihlunninda og viðhorf til sela og selveiðihlunninda kunni að hafa breyst í tímans rás.
Huldufiskur í hafi: Viðhorf hákarlamanna til hákarlsins á nítjándu öld
Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur
Ætla má að hákarlar nítjándu aldar syndi enn við strendur Íslands með hliðsjón af langlífi þessarar fisktegundar. Hákarlamenn nítjándu aldar og þeirra fley eru hins vegar löngu horfin af haffletinum – en þó ekki af sögusviðinu. Saga hákarlaveiða á nítjándu öld lifir í rituðum heimildum og munnmælum; saga sem gefur einstaka innsýn í samband hákarlamanna og huldufisks norðurhvelsins, hákarlsins (Somniosus microcephalus). Saga sú vitnar um stórbrotið samspil millum manna, hákarla og náttúruafla á hafi úti, sem náði sögulegu hámarki á nítjándu öld þegar mikil uppsveifla varð í hákarlaveiðum. Í fyrirlestrinum er haldið út á hákarlamið nítjándu aldar í því skyni að fanga hugmyndir hákarlamanna þess tíma um hákarlinn. Í anda dýrasögunnar (e. animal history) er hákarlinum hér léð meginvægi.
Rætt er um viðhorf nítjándu aldar hákarlamanna til hákarlsins sem lífveru og afurðar út frá veiðum þeirra og verkun á hákarlinum – og reifað hvernig hákarlinn mótaði sjálfsmynd hákarlamanna.