Málþing undir yfirskriftinni „Áhrif jarðskjálfta á Íslandi fyrr á öldum“ verður haldið laugardaginn 15. janúar 2022 í Þjóðarbókhlöðu, fyrirlestrasal á 2. hæð. Flutt verða fjögur erindi sem hér segir:
Bjarni Bessason, verkfræðingur, mun fjalla um hvernig íslenskar byggingar fyrr á öldum stóðu sig í jarðskjálftum í samanburði við kortlagt tjón í Suðurlandsskjálftunum 2000 og 2008. Leitast verður við að útskýra þann mun sem fram kemur við þennan samanburð.
Helgi Torfason, jarðfræðingur, flytur erindi sem ber heitið: „Hvikular laugar: Staðsetningar og breytingar á jarðhitavirkni tengdri jarðskjálftum. Nútíma – og þjóðsögulegar skýringar á þeim“.
Páll Halldórsson, jarðskjálftafræðingur og sagnfræðingur, mun fjalla um jarðskjálfta sem ollu tjóni í Ölfusi eins langt aftur og heimildir ná og leitast við að bera þá saman. Einnig eru skoðuð áhrif jarðskjálfta á byggð og afkomu fólks, bæði til lengri og skemmri tíma. Er þar einkum horft til skjálftanna í Ölfusi 1706 og 1896 en einnig atburða á öðrum svæðum.
Sveinbjörn Björnsson, jarðeðlisfræðingur, mun fjalla um bergsprungur, tjónasvæði og hrun bæjarhúsa í jarðskjálftahrinum á Suðurlandi 1784–1789 og 1896.
Fundarstjóri: Ingi Þorleifur Bjarnason, jarðeðlisfræðingur og rannsóknaprófessor.