Af dráttlist, silfursmiðum, silfursmíð, málaralist og höfðaletriá Íslandi á átjándu og nítjándu öld

Dráttlist Sæmundar Hólm 

Ásgeir Ásgeirsson, sagnfræðingur

Sæmundur Magnússon Hólm (1749–1821) er líklega fyrsti íslenski lærði listamaðurinn. Sæmundur var bókhneigður bóndason úr Meðallandi sem fékk tækifæri til að ganga menntaveginn, fyrst í heimaskóla, síðan í Skálholtsskóla, loks í Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann útskrifaðist sem guðfræðingur í ársbyrjun 1783. Hann varð um síðir prestur á Helgafelli (1789–1819) þar sem hann átti í mörgum málaferlum að aldarsið. 

     Það sem einkum heldur nafni hans á lofti er vera hans á Listaakademíunni – fyrstur Íslendinga – þar sem hann vann til verðlauna en varð einnig fyrir vonbrigðum. Eftir hann liggur fjöldi myndverka, einkum kort og teikningar til uppfræðingar eða til að lýsa efni annarra; auk mannamynda (mest rauðkrítarteikningar) sem eru líklega heildstæðasti myndabrunnur hans samtíma. Reynt verður að varpa ljósi á margháttaða dráttlist Sæmundar með hans eigin myndir að leiðarljósi.



Silfursmiðir og silfursmíð á átjándu og nítjándu öld

Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður 

Heitin gullsmiður og silfursmiður eru höfð nokkuð jöfnum höndum um þá menn sem sérhæfðu sig í smíði gripa úr þessum málmum. Þekkt eru nöfn ýmissa silfursmiða hérlendis á öllum öldum, jafnvel á miðöldum, en verk sem eigna megi ákveðnum smiðum þeirra eru fæst þekkt fyrr en kemur fram á nítjándu öld. Líklegt er að fáeinir kaleikar og patínur, sem varðveitzt hafa í kirkjum hér frá miðöldum, séu verk íslenzkra gullsmiða. 

     Á átjándu öld, á tímum upplýsingarstefnunnar, tóku Íslendingar að sækja til Danmerkur til náms í ýmsum iðngreinum, þeirra á meðal allmargir sem lögðu stund á silfursmíð. Þar ytra eru má finna nákvæmar skrár um nema í gullsmíði, og sést þar um námsferil þeirra, meistara og síðan prófsmíð.     

     Sumir þessara smiða urðu síðan meistarar í iðninni og ílentust ytra, og tóku síðan ýmsir þeirra íslenzka nema til kennslu. Flestir þessara smiða komu þó út aftur að sveinsprófi loknu. Þeir gerðust nær allir bændur er hingað kom, en margir stunduðu þó silfursmíð og aðrar smíðar með búskapnum. Lengi vel var enginn grundvöllur til að geta séð sér og sínum farborða með handiðnum eingöngu.

     Í Danmörku hafði lengi verið skylt að meistarar merktu sér gripi sína, einkum vegna skatts sem kóngur lagði á smíðisgripi af silfri yfir ákveðinni þyngd. Nokkrir islenzkir silfursmiðir tóku í lok átjándu  aldar að merkja gripi sína, stimpla í þá fangamark sitt, en hér voru ekki ákvæði um merkingu silfurgripa fyrr en löngu síðar. En eftir stimplum, eða rituðum heimildum, svo sem í kirkjustólum, má sjá nöfn smiða er gripina smíðuðu, og síðan má oft rekja aðra gripi til þeirra eftir handbragði. 

     Námið til sveinsprófs tók að jafnaði um þrjú ár. Að því loknu skiluðu menn sveinsstykki, sem skyldi vera vandaður og vandsmíðaður gripur. Algeng sveinsstykki voru allt frá súpuskeiðum og til kirkjukaleika. Smíðisgripurinn var lagður fram til mats félagsmanna í gullsmiðagildinu og allajafna metinn hæfur til sveinsprófs.

     Það sem silfursmiðir hér heima smíðuðu var einkum silfur á kvenbúninga, matskeiðar, súpuskeiðar, staup og bikarar. Sumir smíðuðu kaleika og patínur í kirkjur, en kirkjusilfur þurfti oft að endurnýja. Tíðum var þó kirkjusilfrið fengið frá Danmörku.

     Hér á Íslandi er tiltölulega mikið af gömlu dönsku silfursmíð, og er margt af  því gert af íslenzkum smiðum ytra, en verk þeirra eru að jafnaði í ritum færð undir danska silfursmíð. 

     Silfureign var nokkuð algeng meðal hinna æðri stétta þjóðfélagsins, sýslumanna, presta og embættismanna, sem sumir lögðu nokkurn metnað í að eiga fagra og fáséða gripi svo sem sem vandaða silfurgripi. 

     Flest af hinu gamla, íslenzka silfri, og silfri eftir íslenzka smiði erlendis, er nú komið í söfn, en sumt er þó enn í kirkjum og eitthvað er í einkaeigu. Íslenzkir smiðir munu allajafna hafa smíðað tiltölulega fáa gripi, enda var silfur dýr málmur og vandfenginn, og allajafna urðu menn að leggja silfrið til sjálfir, brotasilfur eða silfurpeninga. Því er tiltölulega lítið til af gömlu íslenzku silfri og eftir fæsta nafnkennda smiði fyrri tíðar er nokkur gripur þekktur, í sumum tilvikum rétt aðeins einn eða tveir.


Þrjú málverk í Nesi. Vangaveltur um táknmynd 

Halldór Baldursson, læknir og sagnfræðingur

Blómsturmálarinn Sören Johannes Helt málaði tvær táknmyndir í Nesstofu að beiðni Bjarna Pálssonar landlæknis og myndskreytti einnig prédikunarstól sem var smíðaður í Kaupmannahöfn fyrir kirkjuna í Nesi.  Þessi málverk Helts hafa ekki varðveist.

     Málverkin tvö í Nesstofu voru endurgerð árið 1987, eftir lýsingu í lokaúttekt hússins 1767. Á öðru málverkinu er merki Íslands sýnt sem flattur fiskur með þrem kórónum í boga þar yfir. Könnun á táknmyndum bendir til þess að kórónurnar þrjár yfir fiskinum séu á misskilningi byggðar. Líklegra er að flatti fiskurinn hafi verið málaður hvítur eða silfurlitur á rauðum grunni með einni gylltri kórónu yfir og þar fyrir ofan á bláum grunni þrjár gylltar kórónur að auki, svipað og var í skjaldarmerki konungs.


Höfðaletur – séríslensk skrautleturgerð 

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir Sesseljudóttir, sérfræðingur við Þjóðminjasafn Íslands 

Hið séríslenska höfðaletur þróaðist út frá gotnesku letri á sextándu öld og í fjórar aldir var það fyrst og fremst notað til skreytis í tréskurði. Efniviðurinn og útskurðaráhöld mótuðu útlit stafanna. Höfðaletrið var alþýðulist og nöfn útskurðarmanna eru alla jafna óþekkt. Þrátt fyrir ákveðnar „reglur“ í höfðaleturshefðinni eru afbrigði hennar nánast jafn mörg þeim er skáru. 

     Höfðaletur var notað á hversdagsgripi og áletranir voru oftast vísur, trúarlegir textar eða sögðu til um eignarhald. Höfðaletrið átti að vera dularfullt og torrætt og ekki áreynslulaust til lesturs. Fjöldi varðveittra gripa með höfðaletursáletrunum ber vitni um vinsældir letursins. Það virðist hafa höfðað ríkt til fegurðarskyns Íslendinga og hefur þann eiginleika að jafnvel þótt útskurðarfærnin sé takmörkuð, og hver og einn stafur klaufalegur og ljótur, er heildarútkoman alla jafna gullfalleg. Þrátt fyrir að blómaskeiði höfðaletursins hafi lokið á ofanverðri nítjándu öld lifði það engu að síður áfram. Efnisnotkun varð fjölbreytilegri og í dag sjáum við höfðaletur einna helst á hvers kyns minjagripum

Previous
Previous

Veiðar við Ísland á sautjándu, átjándu og nítjándu öld 

Next
Next

Rannsóknir ungra sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld