Rannsóknir ungra sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
„Eins og ein heimilispersóna“. Saumavélar á íslenskum heimilum á nítjándu öld
Arnheiður Steinþórsdóttir, sagnfræðingur
Tilkoma saumavélarinnar hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag. Þegar fyrstu vélarnar bárust til landsins í kringum 1866 upphófst athyglisverð þróun þegar saumavélar fóru úr því að vera munaðarvara yfir í þarfaþing sem finna mátti á flestum heimilum landsins. En hvernig var saumavélinni fundinn staður á íslenskum heimilum? Hvaða áhrif hafði hún á störf kvenna innan heimilisins og hvaða tækifæri fylgdu henni? Í fyrirlestrinum verður fjallað um saumavélar sem heimilistæki á seinni hluta nítjándu aldar og hvernig þær urðu smám saman sem „ein heimilispersóna“.
Legorðsbrot, staða foreldra og trúlofunarsambúð til sjávar og sveita 1750–1800
Unnur Helga Vífilsdóttir, sagnfræðingur
Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn höfundar á legorðsbrotum í íslensku samfélagi á síðari hluta átjándu aldar. Í þessari rannsókn var athuguð tíðni legorðsbrota á tímabilinu 1750–1800 í fjórum prestaköllum á landinu og niðurstöðurnar bornar saman. Einnig kemur þjóðfélagsstaða foreldra inn í myndina þar sem ógiftir og fátækir einstaklingar urðu oft uppvísir af lauslæti. Mikilvægi trúlofunarsambúðar í samfélaginu hafði áhrif, einkum hjá einstaklingum sem ekki gátu eða vildu ganga í hjónaband en bjuggu samt sem áður í hjúskap. Harðindi þessa tímabils settu svip sinn á samfélagið í heild sinni. Almenn fæðingartíðni féll til muna á tímum móðuharðinda. Fæðingartíðni óskilgetinna barna var þó heldur flóknara fyrirbæri og breytileg milli prestakalla og verður gerð skýr grein fyrir þeim muni og hvað gæti hafa haft áhrif.
Eigur vinnuhjúa í Skagafirði um miðja nítjándu öld
Kolbeinn Sturla G. Heiðuson, sagnfræðingur
Í fyrirlestrinum verður fjallað um eignastöðu vinnuhjúa í Skagafirði um miðbik nítjándu aldar. Hin hefðbundna ímynd sem fólk gjarnan hefur af vinnumennsku einkennist einna helst af fátækt, undirokun og erfiðri lífsbaráttu. Vinnuhjú hafa þá gjarnan verið skilgreind sem afmörkuð samfélagsstétt. Raunveruleikinn var þó margslungnari en svo og oft voru skilin milli þess að vera bóndi og vinnuhjú mjög óskýr. Með því að styðjast við heimildir líkt og dánarbú, skiptabækur, manntöl og prestsþjónustubækur er hægt að rekja æviferil einstaklinga og bera hann saman við þær eignir sem þeir skildu eftir sig. Vinnuhjú á fleiri en einum bæ eru þá borin saman með tilliti til eignastöðu, aldurs, kyns og uppruna til að gera grein fyrir því hversu fjölbreyttur hópur þetta var í raun og veru.
Fyrirmyndarmenn. Karlmennskuhugmyndir í Árbókum Lærða skólans á nítjándu öld
Þórey Einarsdóttir, sagnfræðingur
Erindið fjallar um rannsókn höfundar á karlmennskuhugmyndum í Lærða skólanum, og hvernig þær birtast á síðum Árbóka Lærða skólans, einskonar annálum sem skólapiltar skrifuðu á tæplega 30 ára tímabili seint á nítjándu öld og í upphafi tuttugustu aldar. Höfundur athugar fimm ár við upphaf og endi Árbóka Lærða skólans þ.e. tímabilin 1874–1879 og 1897–1902. Stuðst var við kenningar Raewyn Connell um stigveldi karlmennskunnar og samfélagsstaða skólapilta skoðuð út frá hugmyndum Connell. Markmið rannsóknarinnar var að lesa af síðum Árbóka Lærða skólans hvaða hugmyndir skólapiltar í Lærða skólanum höfðu um karlmennsku og hvernig þær samræmdust viðhorfum í samtíð þeirra.