Af heilbrigðismálum á Íslandi á átjándu og nítjándu öld

Efnisútdrættir úr fyrirlestrum

Heilsufar skólapilta í Hólavallarskóla 1785–1804 

Sveinn Magnússon, læknir 

Farsóttir, harðindi og hallæri herjuðu endurtekið á Íslendinga á átjándu öld og léku heilsufar þjóðarinnar grátt. Þjóðfélagsbreytingar og endurteknar náttúruhamfarir urðu til þess að Skálholtsskóli var lagður niður 1784, eftir aldalanga starfsemi. Í stað hans var Hólavallarskóli settur á laggirnar í Reykjavík og tók hann til starfa 1786. Ýmsar frásagnir má finna um bágborinn aðbúnað nemenda í skólanum, ekki síst vegna þess hve skólabyggingin með heimavistinni var léleg.

Í erindinu verður greint frá heilsufari nemendanna, einkum verður rakin skýrsla Sveins Pálssonar setts landlæknis, sem skoðar alla piltana vorið 1804.  

Helsta sjúkdómsgreining hans er skyrbjúgur og verður lauslega greint frá eðli hans. Segja má að dapurleg lýsing Sveins Pálssonar á hörmulegu ástandi á heilsufari skólapiltanna vegi þungt í þeirri ákvörðun yfirvalda að leggja skólann niður og flytja hann til Bessastaða.


Saga flogaveiki á Íslandi á átjándu og nítjándu öld 

Brynhildur Lea Ragnarsdóttir, sagnfræðingur 

Aðeins ein ritgerð hefur verið tekin saman um flogaveiki á Íslandi fyrir aldamótin 1900. Þó hefur veikin verið þekkt hér á landi að minnsta kosti frá sautjándu öld. Fjallað er um flogaveiki í handriti í lækningabók frá árinu 1686. Í öðrum handritum frá átjándu öld má finna hin ýmsu „lækningaráð” við niðurfallssýki, líkt og sjúkdómurinn var oftast kallaður í þá daga, og mögulegar orsakir hans. 

Ekki eru til heimildir um hve margir voru flogaveikir á átjándu öld. Frá og með árinu 1804 var héraðslæknum gert skylt að senda heilbrigðisskýrslur til Kaupmannahafnar, meðal annars um þá sjúkdóma sem þeir greindu hjá landsmönnum. Þar eru að minnsta kosti 344 tilfelli skráð, þó aðeins 64 fyrir árið 1876 enda fjölgaði þá læknishéruðum úr átta í 20. Flestir læknar á Íslandi virðast þó hafa þekkt sjúkdóminn en þess má til dæmis geta að fyrsti landlæknir Íslands, Bjarni Pálsson (1719–1779), var sjálfur flogaveikur undir lok ævi sinnar.

Ekki er gott að segja til um hvert viðhorf samfélagsins til flogaveikra var á þessum árum en tilgátur eru um það og má ef til vill lesa á milli línanna í drauga- og álfasögum frá tuttugustu öld, þar sem persónur þeirra þjóðsagna áttu sér hliðstæður í lifanda lífi á átjándu og nítjándu öld.

Í fyrirlestrinum verður farið yfir hvað vitað var um flogaveiki á átjándu og nítjándu öld, hvað talið var orsaka sjúkdóminn og helstu lækningar og ráð við honum. Einnig verður skoðað hve margir greindust með flogaveiki á nítjándu öld og reynt að varpa ljósi á samfélagsstöðu þeirra sem þjáðust af sjúkdómnum.



Refsing fyrir skottulækningar (kvaksalverí) á Íslandi – 

230 ár frá gildistöku tilskipunarinnar 

Erla Dóris Halldórsdóttir, sagnfræðingur og formaður Félags um 

átjándu aldar fræði 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um tilurð tilskipunar um refsingu fyrir skottulækningar (kvaksalverí) á Íslandi. Þann 5. september 1794 gekk umrædd tilskipun í gildi fyrir Danmörku og Noreg og var hún lesin upp á Alþingi á Þingvöllum 10. júlí 1795. Dæmi er um að þessi tilskipun hafi kallast „hlaupalæknastraff“ á íslensku. 

Í tilskipuninni var notast við orðið „kvaksalverí“ um ólöglegar lækningar og þeir sem stunduðu þannig lækningar, konur og karlar, voru kallaðir „kvaksalvere“. Ef þeir ollu heilsutjóni hjá fólki með ólöglegum lækningum sínum skyldi þeim refsað. 

Á Íslandi, sem og í öðrum ríkjum Danakonungs, var í gildi tilskipun um lærða lækna og lyfsala frá 4. desember 1672 (hún var lesin upp á Alþingi á Þingvöllum 20. júlí 1773) og í henni kom fram að til þess að fá viðurkenningu sem læknir og lyfsali urðu læknar að hafa lokið doktorsprófi frá læknadeild Hafnarháskóla, og lyfsalar einnig prófi frá  deildinni, fengið starfsleyfi og svarið eið.    

Í fyrirlestrinum verður m.a. leitað svara við því hvenær íslenska orðið „skottulæknir“ kemur til sögunnar. Í tilskipuninni um refsingu fyrir kvaksalverí frá 5. september 1794 var almenningur varaður stórlega við því að leita til ólærðra kvenna eða karla og eiga á hættu að fá skaðlega læknismeðferð hjá þeim. Fólk átti þvert á móti að nýta sér þjónustu lærðra lækna og þeirra sem höfðu leyfi yfirvalda til að sinna lækningum. En læknisembættin hér á landi voru fá og ef fólk átti við heilsubrest að stríða leitaði það á náðir þeirra sem höfðu orð á sér fyrir að vera góðir „læknar“.   




Kæra á hendur Árna Sveinssyni, hlaupalækni, fyrir lækningatilraunir hans á nítjándu öld 

Jón Torfason, íslenskufræðingur

Árni Sveinsson (1771–1839) var ólærður læknir sem starfaði í Húnaþingi á árunum 1817–1820. Hann var fæddur á Suðurlandi en dvaldi í Húnaþingi í fimm til sex ár. Þaðan fór hann til Vestfjarða og bar þar beinin. Árið 1820 var hann kærður fyrir ólöglegar lækningar, lausamennsku og fals og hlaut dóm fyrir flakk og lausamennsku en var sýknaður í yfirrétti fyrir lækningarnar, m.a. með þeim rökum að hann hefði engan skaðað og enginn lærður læknir væri til staðar í héraðinu.

Í yfirheyrslum yfir Árna kom ýmislegt fram um lækningar hans, hvar og af hverjum hann nam það sem hann kunni og hvaða bækur hann studdist við. Fram kemur að hann notaði mikið íslenskar jurtir og bjó til úr þeim seyði til inngjafar. Einnig gerði hann plástra og bakstra til að leggja við meinsemdir. Þá hankaði hann menn og tók þeim blóð, aðallega með svonefndri hornsetningu.

Með dómsskjölunum liggja 38 vottorð frá fólki sem hafði notið aðstoðar Árna og eru 11 þeirra undirrituð af konum, nær því þriðjungur. Þar er lýst meinsemdum sem höfðu yfirleitt batnað við aðgerðir Árna og stundum er greint frá því hvaða læknisaðgerðum hann beitti.

Hér fyrir neðan er sýnishorn af vottorði frá Ingveldi Sigurðardóttur á Illugastöðum, dagsett 9. október 1820, þar sem hún gefur Árna Sveinssyni bestu meðmæli vegna tilraunahreinsunar hans með stólpípu og batnaði henni þembingurinn. 


Previous
Previous

Rannsóknir ungra sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld

Next
Next

Hrappseyjarprentsmiðja —250 ár frá stofnun hennar