Hrappseyjarprentsmiðja —250 ár frá stofnun hennar
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 14. október 2023.
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Tilkoma Hrappseyjarprents og helstu aðstandendur prentsmiðjunnar
Hrafnkell Lárusson, nýdoktor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands
Átjándu öldinni hefur víða verið lýst sem öld róttækra hugarfarsbreytinga, einkum í stjórnmálum, trúmálum og vísindum, og ýmsar þær hræringar sem þá áttu sér stað hafa verið kenndar við upplýsinguna. Yfirvöld á þessum tíma leituðust þó jafnan við að stýra umræðu og flæði upplýsinga, með valdbeitingu ef með þurfti. Þrátt fyrir tilvist ritskoðunar jókst blaða- og tímaritaútgáfa í Danmörku á síðustu áratugum átjándu aldar og má tengja tilkomu Hrappseyjarprentsmiðju við hræringar sem þá urðu í dönsku þjóðlífi.
Í þessu erindi verður rætt um tilurð þess að fyrsta veraldlega prentsmiðja landsins var sett upp í Hrappsey á Breiðafirði og sagt frá hlutverki þeirra sem voru mest áberandi í hópi aðstandenda Hrappseyjarprents.
Helstu efnisflokkar í útgáfuritum Hrappseyjarprentsmiðju
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands
Frá því að prentverk var fyrst flutt til Íslands um 1530 höfðu kirkjunnar menn stjórnað bókaútgáfu í landinu og lagt höfuðáherslu á trúarleg rit. Einokun kirkjunnar á prentun bóka var ekki aflétt fyrr en 1773 með stofnun prentsmiðju í Hrappsey á Breiðafirði og urðu þá tímamót í útgáfu veraldlegra rita á Íslandi. Þar voru prentuð 83 rit, flest veraldlegs eðlis, en trúarrit sem komu þar út má telja á fingrum annarrar handar enda var markmiðið að skemmta og fræða í anda upplýsingarinnar. Meðal ritanna voru lögbækur, rímur, kvæði, fræðslurit, annálar og Íslendingasögur. Þar var líka gefið út fyrsta íslenska tímaritið, Islandske Maaneds-Tidender, sem reyndar var skrifað á dönsku og einkum ætlað þeim mörgu áskrifendum útgáfunnar sem búsettir voru í Danmörku.
Í fyrirlestrinum verður hugað að útgáfuritum Hrappseyjarprentsmiðju sem eru eins konar sýnishorn af bókmenntum átjándu aldar og hugðarefnum upplýsingarinnar.
Islandske Maaneds-Tidender, 250 ára útgáfuafmæli.
Tilurð og efnistök fyrsta íslenska tímaritsins
Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, sagnfræðingur og sérfræðingur á Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns
Í október 1773 kom út fyrsta íslenska tímaritið með fréttum frá Íslandi og síðar einnig fræðsluefni. Tímaritið var fyrsta afurð Hrappseyjarprents og kom út mánaðarlega á árunum 1773–1776, alls 36 tölublöð. Þriðji árgangur 1776 var prentaður í Kaupmannahöfn og kom út í heilu lagi en þrátt fyrir áframhaldandi skrif voru ekki fleiri tölublöð prentuð sem vekur upp spurningar af hverju tímaritaútgáfan leið undir lok.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um hverjir komu að tímaritinu, sem að mestu var eins manns verk, tilurð þess, umfang og efnistök. Hver var markhópurinn og hvaða tilgangi þjónaði útgáfan? Hvað fannst aðstandendum tímaritsins markvert að segja frá varðandi land og þjóð og gáfu skrifin raunsanna mynd af aðstæðum og daglegu lífi landsmanna?
Breytingar á útgáfu bóka fyrir íslenskan almenning
með tilkomu Hrappseyjarprentsmiðju
Kristín Bragadóttir, sagnfræðingur
Eitt af því sem hafði skapað íslenskri bókmenningu sérstöðu á undangengnum tveimur öldum var hagnýting prentlistarinnar á trúarlegu efni. Með Hrappseyjarprentsmiðju varð breyting á. Hérlendis birtust áhrif hinnar nýju stefnu, upplýsingarstefnunnar, meðal annars í auknum áhuga á högum íbúanna, náttúru, sögu og fornum ritum og í kjölfarið fylgdi stóraukin útgáfa á ritum sem tengdust Íslandi. Gerð var krafa um rit sem að gagni kæmu í daglegum störfum.
Nauðsynlegt var að endurnýja tól og tæki. Hrappseyjarprentsmiðja átti 11 leturgerðir í upphafi en síðar var tveimur nýjum bætt við. Rauður litur var ekki notaður á letri prentsmiðjunnar. Tréristur sem notaðar voru til skreytinga voru keyptar erlendis. Rekstur prentsmiðjunnar var erfiður og dreifing örðug.
Í erindinu verður fjallað um nokkur rit sem höfðu þann tilgang að kenna bændum að verða betri bændur.