Af sjálfsævisögum frá átjándu og nítjándu öld

Málþing Félags um átjándu aldar fræði 12. nóvember 2022

Efnisútdrættir úr fyrirlestrum


Þorsteinn Pétursson á Staðarbakka og sjálfsævisaga hans

Hjalti Hugason, prófessor emeritus í kirkjusögu við Háskóla Íslands 



Séra Þorsteinn Pétursson (17101785) á Staðarbakka í Miðfirði hóf prestskap á merkilegu skeiði í íslenskri kirkjusögu. Þar er átt við tímabilið sem mótaðist af eftirlitsstörfum séra Ludvig Harboe hér á landi en á því skeiði gerði Danakonungur markvissa atlögu að því að „nútímavæða“ kirkjuna hér og störf hennar. 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um séra Þorstein Pétursson en þó einkum ævisögu hans sem hann hann hóf að færa í letur 1750 og jók við hartnær til æviloka. 

Sýnt verður fram á að ævisagan gefur um margt einstaka sýn á íslensku kirkjuna á því tímabili sem hún spannar. Einnig verður bent á hvernig efnistök og skráningaraðferð Þorsteins, sem vissulega var ætlað að auka trúverðugleika sjálfsskrifa hans, draga í raun úr heimildagildi þeirra og gera þau stöðluð og klisjukennd. — Þrátt fyrir það má víða greina persónuleg átök einstaklings í gleði en þó ekki síður þraut!  


Dirfska og vandræðagangur Magnúsar Stephensen dómstjóra  

Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands  

Magnús Stephensen 

Í erindinu verður rætt um sjálfsævisögu Magnúsar Stephensen dómstjóra (1762–1833) en þar sem hún nær eingöngu til 1788 verður leitað í aðrar persónulegar heimildir, m.a. ferðadagbækur hans (allar nú útgefnar), varnarritið 1815 og einkabréf. Áhersla verður lögð á frammistöðu hans á Napóleons-styrjaldarárunum 1807–1814. 

Hvernig karakter var Magnús Stephensen? Eitt er víst, hann þjáðist ekki af minnimáttarkennd. Hann var „merkur Íslendingur“ og því viðeigandi að sjálfsævisaga hans sé birt í ritröðinni Merkir Íslendingar. „Mikill áhrifavaldur í sögu Íslands“ skrifar Örn Hrafnkelsson og er sjálfsagt að taka undir þau orð. Hann var dyggur embættismaður konungs en einnig mikill föðurlandsvinur, sannkallaður patríót. Hann var raunsær og djarfur. Þegar ófriður milli Dana og Breta hófst 1807, áttaði hann sig á „veldi Englendinga“ og máttleysi Dana og hratt af stað atburðarás sem bjargaði Íslandsversluninni og forðaði landsmönnum frá alvarlegri hungursneyð. Bjargvættur Íslendinga. 

Magnús var umdeildur á sínum tíma og átti í útistöðum við margan samtímamanninn. Þótti hann til dæmis tvöfaldur í roðinu í samskiptum sínum við Jörgensen 1809. Neyddist hann til að sigla til Kaupmannahafnar eftir að styrjöldinni lauk og leggja fram varnarrit sitt fyrir Kaas dómsmálaráðherra. Hann fékk uppreisn æru. 


Dönsk sýslumannsfrú á Austurlandi. Endurminningar Gythe Thorlacius um árin 1801–1815 

Margrét Gunnarsdóttir, sagnfræðingur og skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands 

Gythe Thorlacius 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Gythe (Gyðu) Thorlacius, f. Howitz (1782–1861), og líf hennar á Íslandi í upphafi nítjándu aldar eins og það birtist í endurminningum hennar. Gyða fluttist hingað til lands frá Kaupmannahöfn nítján ára gömul árið 1801. Þá var hún nýgift Þórði Thorlacius (1774–1850), nýskipuðum sýslumanni á Austurlandi. Napóleonsstríð geisuðu og í þeirri óvissutíð sem fylgdi þurfti hin unga Gyða að takast á við gleði og sorgir lífsins víðsfjarri heimahögunum. 

Gyðu var margt til lista lagt og samhliða önnum við heimilisstörf og barnauppeldi hóf hún m.a. garðrækt. Danska Landhusholdningsselskabet verðlaunaði Gyðu fyrir þá iðju. Matjurtarækt gæti orðið Íslendingum, sem lítt þekktu til garðyrkju, gott fordæmi. Þá kenndi Gyða nýjar prjónaaðferðir í heimasveit sinni og lærði að jurtalita ullargarn með íslenskum aðferðum. Móðirin Gyða þurfti einnig oft við erfiðar aðstæður að sýna hugrekki og þolgæði við umönnun barna sinna en þau komu öll í heiminn á þessum árum.

Endurminningarnar eru um margt einstakt rit. Þær lýsa hversdagslífi í íslensku þorpi, Eskifirði og í íslenskri sveit frá sjónarhóli borgaralegrar Kaupmannahafnardömu sem greinilega var ekki fisjað saman þegar á móti blés. Ritið er sjálfsævisaga Gyðu frá Íslandsárunum og á köflum afar innilegt, þ.e.a.s. þar sem rödd Gyðu fær að lifa. Tengdasonur Gyðu, séra Victor Bloch, gaf Endurminningar út árið 1845 en hann birti ekki frásögn Gyðu í heilu lagi heldur aðeins textabrot frá höfundinum. Sjálfur endursegir hann stóra hluta verksins. Úr þessu verður ekki bætt þar sem handrit Gyðu brann árið 1881. 


Af fjandfrændum í Dölum. Dómar séra Friðriks Eggerz um Dalamenn í sjálfsævisögu hans 

Svavar Sigmundsson, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 

Friðrik Eggerz

Séra Friðrik Eggerz sem var fæddur 1802 og lést 1894 skrifaði ævisöguverk sitt á árunum 1875–1880. Séra Jón Guðnason gaf það út í tveimur bindum undir heitinu Úr fylgsnum fyrri aldar I og II 1950 og 1952. Fyrra bindið fjallar um Bjarna Pétursson á Skarði (f. 1681) og niðja hans og þá aðallega séra Eggert Jónsson, föður Friðriks en seinna bindið er sjálfsævisaga Friðriks. Verkið spannar því um tvær aldir. Jón Guðnason segir að það megi í fljótu bragði þykja undrunarefni að séra Friðrik skyldi á áttræðisaldri leggja í að skrá svo ítarlega sögu sína og ættmenna sinna. En rit hans beri því vitni að andstreymi og elli hafi ekki náð að beygja hann, hvorki andlega né líkamlega, það sé líkt og miklu yngri maður haldi á penna. Þau mál sem Friðrik fjallar um í ævisögu sinni voru ekki einkamál hans heldur þekkt víða um land.

Sjálfsævisagan fjallar að miklu leyti um deilur þær sem þeir feðgar, séra Eggert og séra Friðrik áttu í við Skarðverja. Ástæðurnar fyrir þessum óvinskap eru nefndar þær að séra Eggert taldi tengdaföður sinn, Magnús Ketilsson hafa haldið arfi eftir föður sinn og héldust þessar deilur við afkomendur Magnúsar, Skúla Magnússen sýslumann og son hans Kristján kammerráð. Eggert var kvæntur systur Skúla, Guðrúnu, en það breytti engu um óvinskapinn og erfðist óvinátta við Skarðverja þannig til Friðriks. Séra Eggert fékk ekki Skarð og sveið það alla ævi.

Því hefur verið haldið fram að séra Friðrik hafi meðal annars tekið til við ævisöguskrifin sem andsvar við Skarðstrendinga sögu sem Gísli fræðimaður Konráðsson skrifaði á árunum eftir 1852 þegar hann kom til Flateyjar. Friðrik skrifaði að Gísli hefði ritað eftir óvinum séra Eggerts og sona hans, Friðriks og Stefáns „ýmislegan ósannindaþvætting um nefnda feðga“.

Ævisaga séra Friðriks er ekki sem áreiðanlegust sagnfræðiheimild en hann bjó þó yfir mikilli þekkingu á skjalagögnum og rituðum heimildum frá því tímabili sem sagan spannar. En ekki verður af séra Friðriki skafið að ævisagan er frábærlega stíluð og lýsir háttum hans og hugarfari mætavel.

Previous
Previous

Gunnlaugur Briem sýslumaður - 250 ára fæðingarafmæli

Next
Next

Tvö rannsóknarverkefni í sagnfræði