Tvö rannsóknarverkefni í sagnfræði

Tvö rannsóknarverkefni í sagnfræði:

Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins. 

Fjölskylda og heimilisbúskapur á Íslandi í byrjun átjándu aldar og útgáfa skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770–1772

Málþing Félags um átjándu aldar fræði 8. október 2022  

Efnisútdrættir úr fyrirlestrum

„Gamla bændasamfélagið“. Hvers konar samfélag var það?

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands  

Hugtakið bændasamfélag hefur lengi verið notað um samfélagsgerð Íslendinga fyrir daga iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar. Bændafjölskyldan er hornsteinn samfélagsins, allur þorri íbúanna býr í sveit og lifir á landbúnaði, verkaskipting er fábreytt og tækni frumstæð. En um félagslega uppbyggingu bændasamfélagsins, valdakerfi, stéttaskiptingu og önnur félagstengsl hafa skoðanir verið skiptar.

Rannsókn okkar, Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins, snýst í grunninn um að skilja betur hvers konar samfélagsgerð var við lýði á Íslandi á öndverðri átjándu öld. Er bændasamfélag réttnefni um þetta samfélag? Við könnum sérstaklega nokkrar grunnstoðir samfélagsins – fjölskylduna, heimilið, jörðina og heimilisbúskapinn – og könnum hvernig félagslegu og efnahagslegu umhverfi þeirra, m.a. tekju- og eignaskiptingu og stéttaskipan, var háttað.

Í erindinu er rannsóknin kynnt og sýnt hvernig hún getur varpað skýrara ljósi á fyrirbærið bændasamfélag. Efniviður rannsóknarinnar er aðallega gagnagrunnur ásamt landupplýsingum, byggður á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1702–1714 og manntalinu og kvikfjártalinu 1703. Saman gefa þessar heimildir einstaklega nákvæma mynd af högum þjóðarinnar á þessum tíma.

Vegferðin til fullorðinsára á tímum harðinda

Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og prófessor í félagssögu við Háskóla Íslands 

Síðustu áratugir sautjándu aldar og upphaf þeirrar átjándu var mikið harðindaskeið um alla Norðurálfu og færð hafa verið rök fyrir því að helsta félagslega áhyggjuefni yfirvalda á þessum tíma hafi verið sveitarþyngsli, húsgangur, lausagangur og betl sem virðist hafa náð hámarki í kringum aldamótin 1700. Manntalinu 1703 var ætlað að leggja mat á sveitarþyngsli hér á landi og sýnir manntalið að rúmlega 15% íbúa var í stöðu þurfafólks. Þetta er hærra hlutfall en í nokkru öðru manntali. 

Eins og gefur að skilja bitnuðu harðindin með ólíkum hætti á íbúum landsins. Þannig var dánartíðnin hæst meðal barna og gamalmenna og þau sem neðst stóðu í samfélagsstiganum voru líklegri til að verða hungurvofunni að bráð en önnur. En harðindin höfðu ekki síður áhrif á félagsstöðu fólks. Þetta á einkum við um ungt fólk sem hér er til umfjöllunar.  

Líkt og annars staðar í norðan- og vestanverðri Evrópu var giftingaraldur hér á landi hár fyrr á öldum. Íslandi hefur þannig verið lýst sem ýktu dæmi um hið vesturevrópska hjúskaparmynstur þar sem giftingaraldur var hár og hlutur þeirra sem aldrei giftist hár. Einkennandi fyrir þetta fyrirkomulag var að drjúgur hluti ungs fólks var í stöðu vinnuhjús áður en það gekk í hjónaband. Fyrri rannsóknir hér á landi hafa sýnt að þegar harðnaði í ári fjölgaði fólki á vinnufærum aldri í hópi þurfamanna. Vegferðin til fullorðinsaldurs gat þannig verið með nokkuð ólíkum hætti allt eftir efnahagslegum aðstæðum. Hér er sjónum beint að aldurshópnum 15–34 ára í manntalinu 1703 og til samanburðar sama aldurshópi í manntalinu 1729. Hversu algengt var að fólk væri í stöðu vinnuhjús og hversu margir þurftu að sætta sig við hlutskipti ómaga? Höfðu harðindin áhrif á möguleika fólks á að ganga í hjónaband og var munur á körlum og konum í þessi tilliti?      

Dálítil innsýn í akuryrkju og jarðrækt í skjölum Landsnefndarinnar fyrri

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, verkefnastjóri heimildaútgáfu á Þjóðskjalasafni Íslands

Mikið er fjallað um akuryrkju og hvers kyns jarðrækt í skjölum Landsnefndarinnar fyrri. Gera átti átak í túnrækt með garðahleðslu og þúfnasléttun, auka skyldi áburðarnotkun og koma upp áveitum. Kornrækt og garðrækt voru til sérstakrar skoðunar, einnig skógarnytjar, skógrækt og seljabúskapur. Í erindinu er reynt að gefa dálitla innsýn í hvernig skjölin varpa ljósi á gamla bændasamfélagið á síðari hluta átjándu aldar. Hver er staðan í akuryrkju og jarðrækt í landinu um 1770 út frá umfjöllun í skjölum nefndarinnar? Hvernig mátu menn ástandið og hvaða ráð voru helst talin til úrbóta? Í skjölunum er almennt gengið út frá því að jarðrækt í landinu hafi farið mikið aftur síðan á miðöldum og núverandi ástand talið slæmt.

Uppblásin lönd og fjöldi eyðibýla eru því til vitnis. Fáir höfðu orðið trú á að korn gæti vaxið í landinu og ekki lengur forsvaranlegt að verja miklu af opinberu fé í slíka tilraunastarfsemi. Fleiri höfðu trú á garðræktinni til búdrýginda en aðrir vildu ekki taka áhættuna og töldu best að reiða sig áfram á fjallagrösin. Stærsta málið var þó að gera þurfti átak í túnrækt. Menn sáu fyrir sér betri tíma ef tún yrðu ræktuð upp, túngarðar hlaðnir, mýrar ræstar fram, gamlar selstöður aftur teknar í notkun og komið upp heyforðageymslum. Tilskipun um garðahleðslu og þúfnasléttun sem gefin var út 13. maí 1776 á sér rætur í þessari umræðu en drögin að henni liggja einmitt í skjalasafni Landsnefndarinnar.


Byggðir og búsvæði

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við Háskóla Íslands, og Óskar Guðlaugsson, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands 

Með tilkomu sagnfræðilegs landupplýsingakerfis um jarðir, býli og mannfjölda í byrjun átjándu aldar gefst færi á að skoða ýmsa þætti er varða dreifingu byggðar og eiginleika hennar. Gagnagrunnur verkefnisins felst í vigragögnum, þ.e. punktum, fyrir hvert býli og jörð á landinu, tengdum stöðluðum upplýsingum úr manntali, kvikfjártali og jarðabók. Þannig er unnt að kortleggja og setja fjölbreyttar upplýsingar um býlin í samhengi.

Í erindinu er fjallað um tvö efni. Í fyrsta lagi er lagt mat á búsæld mismunandi svæða; hversu byggileg þau voru miðað við þá búskaparhætti og tækni sem ríkjandi var í byrjun átjándu aldar. Til viðmiðunar er hæðarlíkan af landinu, vatnafarsgögn, upplýsingar um gróðurfar og yfirborð lands, sem og upplýsingar um svæði sem tekið hafa varanlegum breytingum á athugunartímanum. Eyðibýli eru könnuð sérstaklega, bæði þau sem voru tilgreind 1703 og þau héruð sem síðar hafa lagst í auðn. Vísar að þéttbýlissvæðum eru einnig metnir, bæði út frá mannfjölda í hreppum og í 10 km reitum. Rýnt er í ástæður dreifingarinnar og hvernig ólíkum héruðum hefur vegnað í gegnum aldirnar.

Í öðru lagi eru búsvæði landsins skilgreind og afmörkuð landfræðilega í þeim tilgangi að fá yfirsýn yfir breytileikann í búskaparháttum og afkomu manna eftir hreppum og sýslum. Með því að meta þátt sauðfjárræktar, nautgriparæktar, fiskveiða og hlunninda í hverjum hreppi fyrir sig fæst betri innsýn í atvinnu og rekstur heimila á mismunandi svæðum. Til grundvallar liggur, auk gagnagrunnsins, talning Skúla Magnússonar landfógeta á mannfjölda og atvinnuskiptingu 1703, þar sem hann greinir á milli sveitabænda og sjávarbænda.

Previous
Previous

Af sjálfsævisögum frá átjándu og nítjándu öld

Next
Next

Enn af nýjum rannsóknum sagnfræðinga á sögu Íslands á átjándu og nítjándu öld