Gunnlaugur Briem sýslumaður - 250 ára fæðingarafmæli
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 14. janúar 2023
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Gunnlaugur Briem
Gunnlaugur Briem og jarðamatsnefndin 1800–1806
Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Meðfram námi í höggmyndalist við Listaháskólann í Kaupmannahöfn kynnti Gunnlaugur sér lögfræði og önnur hagnýt málefni, vitandi vits að fáum tókst að lifa af listinni. Frami hans var skjótur því fljótlega að loknu lögfræðiprófi varð hann aðstoðarsýslumaður í Eyjafjarðarsýslu — og ekki nóg með það heldur gekk hann að eiga systurdóttur sýslumanns. Gunnlaugur var þó ekki fyrr tekinn til starfa vorið 1800 að hann var skipaður í nefnd um nýtt jarðamat á Íslandi sem átti að koma í stað hinnar fornu skipunar um dýrleika jarða. Með honum voru þrír ungir menn á hraðri uppleið, þeir Ludvig Erichsen, Stefán Stephensen og Árni Sívertsen. Hugmyndin var að næstu sex árin færi nefndin um allt land og hitti bændur og jarðeigendur, með það að markmiði að mat á jörðum yrði framvegis í betra samræmi við landgæði og hlunnindi. Önnur verkefni nefndarinnar voru að endurskoða sóknaskipan og meta hvaða kirkjur mætti leggja niður. Einnig var henni ætlað að gera tillögur um embættisbústaði sýslumanna og lækna. Gunnlaugur var atkvæðamikill í þessu starfi og annaðist einkum Norðurland og Vesturland. Hann skrifaði stjórnvöldum ytra ótal bréf, ýmist einn eða með öðrum. Sum þeirra sýna skapgerð hans og jafnframt birtast óraunhæfar væntingar og líka vitund um eigin takmarkanir. Í erindinu verður lögð áhersla á slík textabrot um leið og lýst verður framvindu hins mikla en misheppnaða verkefnis sem jarðamatið var.
Gunnlaugur Briem sýslumaður — embættisverk
Rúnar Már Þráinsson, sagnfræðingur
Embættisverk Gunnlaugs Briem eru um margt athyglisverð. Hann fór ekki varhluta af byltingaranda meginlandsins en starfaði þó fyrir upphaf sterkrar þjóðernishyggju á Íslandi. Þetta umhverfi virðist hafa hentað Gunnlaugi vel og hann átti velgengni að fagna í lífi og starfi. Hann var sýslumaður í tæplega 30 ár og bjó lengst af á höfuðbólinu Grund í Eyjafirði. Með konu sinni Valgerði Árnadóttur eignaðist hann tíu börn og af þeim komust sjö á legg. Hann lét skoðanir sínar óspart í ljós og eftir hann liggja fræðilegar ritgerðir og álitsgerðir.
Í erindinu verður gerð tilraun til að varpa ljósi á persónu Gunnlaugs á grundvelli embættisverka hans sem sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu. Helst verða tekin til umfjöllunar tvö atriði. Annars vegar viðbrögð hans við tilskipunum Jörgen Jörgensen í júní og júlí 1809, sem voru um margt einstök, og hins vegar strangleiki hans gagnvart níðvísum og meiðyrðum.
Valgerður Árnadóttir Briem — Frúin á Grund 1779–1872
Guðný Hallgrímsdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur
Valgerður Árnadóttir Briem
Lengst af var Valgerður Árnadóttir Briem sýslumannsfrú í Eyjafirði og oft kölluð „Frúin á Grund“ enda bjó hún næstum sextíu ár ævi sinnar á þeim bæ. Valgerður fæddist hins vegar á Snæfellsnesi og rak ættir sínar til útvegsbænda og virðulegra embættismanna. Aðeins fjögurra ára gömul var hún send í fóstur til ættingja í Eyjafirði, þar sem hún forframaðist á virtu sýslumannssetri. Allt til fullorðinsára naut hún faglegrar uppfræðslu fósturmóður sinnar, Sigríðar Stefánsdóttur, einnar valdamestu konu landsins á þeim tíma. Tvítug giftist hún síðan Gunnlaugi Briem, aðstoðarmanni föður hennar, en með honum eignaðist hún tíu börn.
Valgerður þótti gáfuð og glæsileg og naut virðingar meðal fólks. Svo vinsæl var hún að erlendir gestir sem hér ferðuðust um í upphafi nítjándu aldar minntust á hana í skrifum sínum. Í erindinu verður stiklað á stóru um líf Valgerðar og skoðað hvernig hún beitti valdi sínu til að storka úreltu kynjakerfi tímabilsins.
Úr bréfi frá íslendskum qvennmanni“: Kristjana Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem
Helga Kress, prófessor emerita í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands
Kristjana Jóhanna (1805–1886) var þriðja elst af tíu börnum foreldra sinna, Gunnlaugs Guðbrandssonar Briem, sýslumanns á Grund í Eyjafirði, og konu hans Valgerðar Árnadóttur, og önnur tveggja dætra þeirra, samnafna yngri systurinnar, Jóhönnu Kristjönu (1813–1878). Tíu ára að aldri fékk hún að fara með föður sínum og tveimur bræðrum til Kaupmannahafnar þar sem hún, að sögn frænku hennar, rithöfundarins Benedicte Arnesen Kall (1813–1889), hreifst svo af glæstri menningu stórborgarinnar, að hún undi sér ekki eftir það á Íslandi. Frá þessu segir Benedicte í stórmerkum endurminningum sínum, Livserindringer (1886), sem eru ein helsta heimild um ævi Jóhönnu og mjög verður stuðst við í fyrirlestrinum. Átján ára fékk Jóhanna því að fara aftur til Kaupmannahafnar, þar sem henni var í fyrstu komið fyrir og hún „kaupmannahafnarseruð“ hjá móðurbróður sínum, og föður Benedicte, Páli Árnasyni (Arnesen), orðabókarhöfundi, en síðan á heimili prófessorsins Børge (Birgis) Thorlacius sem fylgismær konu hans, einnig að nafni Benedicte. Með þeim fór hún vorið 1826 í tveggja ára „grand tour“ um Evrópu með lengstri viðdvöl í Róm, þar sem hún m.a. hitti myndhöggvarann Bertel Thorvaldsen, gamlan vin og skólabróður föður hennar frá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn, og var hjá honum í jólaboði.
Að sögn frænkunnar Benedicte vakti Jóhanna mikla athygli í Róm fyrir fegurð og fágaða framkomu og var flautað á eftir henni á götu. Er viðurnefni Jóhönnu, „fagra“, Danir kölluðu hana „den skønne Islænderinde“, ef til vill þaðan komið. Frá þessari ferð segir Jóhanna sjálf í tveimur bréfum sem varðveist hafa, annað til föðurins á Íslandi, skrifað á íslensku, og hitt til móðurbróðurins í Kaupmannahöfn, skrifað á dönsku, bæði dagsett í Róm í janúar 1827. Ellefu árum síðar birtist bréfið til föðurins nafnlaust og nokkuð stytt í Sunnanpóstinum 1838 undir heitinu „Úr bréfi frá íslendskum quennmanni. Skrifað í Róm 21ta Janúar 1827“. Ekki vitað hver kom bréfinu til Sunnanpóstsins, en ekki hefur það verið Jóhanna sjálf sem kom aldrei aftur til Íslands, þá löngu gift kona þýskum menntamanni, Carl Schütz að nafni, í Bielefeld í Þýskalandi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi bréf og því velt fyrir sér, með tilvísunum í ýmsar samtímaheimildir, hvaða hlutskipti hefði beðið Jóhönnu hefði hún komið aftur til Íslands sem hún hafnaði.
Heimild mynda: Briemsætt: Niðjatal Gunnlaugs Guðbrandssonar Briem, sýslumanns á Grund og konu hans, Valgerðar Árnadóttur. Eggert P. Briem og Þorsteinn Jónsson tóku saman niðjatal. Reykjavík: Sögusteinn, 1990, bls. 21, 25, 53.