Af Íslendingum í Kaupmannahöfn á átjándu öld
Málþing Félags um átjándu aldar fræði 25. mars 2023
Efnisútdrættir úr fyrirlestrum
Hið íslenska lærdómslistafélag í Kaupmannahöfn
Margrét Gunnarsdóttir, sagnfræðingur og skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands
Í fyrirlestrinum verður fjallað um stofnun Hins íslenska lærdómslistafélags í Kaupmannahöfn haustið 1779 og starfsemi þess. Félagið hafði að einkunnarorðum, „Gudi! Konúnginum! og Fødurlandinu!“ og naut ríkulegs stuðnings frá krúnunni enda hafði félagið þýðingu við að treysta tengslin á milli Íslands og Danmerkur.
Rit hins íslenska lærdómslistafélags, sem komu út árlega um fjórtán ára skeið, voru einn helsti vettvangur félagsins. Efni þess sýnir að félagið hafði að markmiði að stuðla að atvinnuumbótum á Íslandi og líktist því í ýmsu svokölluðum efnahagsfélögum sem þá voru starfrækt víða í Evrópu og í Norður-Ameríku. Félagsmenn, sem skráðir eru fremst í ritum þess, voru hátt settir danskir embættismenn, íslenskir embættismenn og námsmenn, en einnig komu félagsmenn lengra að, m.a. fengu nokkrir Bretar inngöngu í félagið. Félagið stuðlaði því að auknum tengslum Íslands og umheimsins.
Við andlát forseta félagsins Jóns Eiríkssonar, konferensráðs, vorið 1787 urðu nokkrar væringar í stjórn þess. Gjaldkeri félagsins Magnús Stephensen, vildi flytja starfsemina til Íslands eins og kemur fram í sendibréfum frá Andreasi Thodal, fyrrverandi stiftamtmanni á Íslandi, til Gríms Thorkelín, síðar leyndarskjalavarðar. Thodal, sem búsettur var í Kaupmannahöfn, varð forseti við fráfall Jóns. Stefna Jóns í þessum efnum var sú að aðalstarfsemi félagsins færi ætíð fram í Kaupmannahöfn og það yrði aldrei flutt til Íslands. Með því móti gæti félagið stuðlað að sterkri stöðu Íslands innan Danaveldis. Félagið fékk viðurkenningu krúnunnar sumarið 1787 og nefndist upp frá því Hið konunglega íslenska lærdómslistafélag.
Hlutur Íslendinga í þjóðernismyndun Dana
Auður Hauksdóttir, prófessor emeritus í dönsku við Háskóla Íslands
Kenningar um föðurlandsást (patriotisme) og þjóðernishyggju (nationalisme) ruddu sér til rúms í Danmörku á átjándu og nítjándu öld. Hægt var að vera vinur föðurlands síns án þess að hafa vald á tungu þess, en þau viðhorf breyttust með tilkomu kenninga um þjóðerni og þjóðernismyndun, þar sem móðurmál og menning voru í brennidepli. Slíkt var ekki einfalt í fjöltyngdu ríki eins og því danska.
Hertogadæmin Slésvík og Holstein voru hluti af ríki Danakonungs og skiptu miklu máli í efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Margir Þjóðverjar voru búsettir í Danmörku, einkum í Kaupmannahöfn, þar sem þeir máttu sín mikils. Þýsk áhrif voru áberandi í menningu, vísindum og listum og danskan átti undir högg að sækja vegna sterkra áhrifa frá þýskri tungu. Frá sjónarhóli kenninga um föðurland og þjóðerni þótti slík þróun óæskileg og því fóru Danir í auknum mæli að horfa til fortíðar og þess sem menning þeirra og tunga átti sameiginlegt með öðrum Norðurlandabúum. Straumhvörf urðu á átjándu öld, þegar Danir lögðu til atlögu við þýsk áhrif – einkum á danska tungu. Í því sambandi gegndi íslensk tunga og menning veigamiklu hlutverki.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um kenningar um hlutverk tungumála í tengslum við þjóðernismyndun og hvaða þýðingu þær höfðu í dönsku samhengi. Þá verður varpað ljósi á það hlutverk sem íslenskar bókmenntir gegndu við þjóðernismyndun Dana og hvernig íslensk tunga studdi við hugmyndir þeirra um danskt þjóðerni.
Jón Eiríksson, íslenskur landsfaðir á átjándu öld
Hrafn Sveinbjarnarson, sagnfræðingur og héraðsskjalavörður
Jón Eiríksson er á margan hátt upphafsmaður í íslenskri sögu, í sagnaritun, stjórnmála-, réttar- og verslunarsögu, einnig í félagsmálum og tímaritsútgáfu í Lærdómslistafélaginu og í gjörðum sínum sem embættismaður og fræðimaður. Arfleifð hans og áhrif má sjá í ýmsu og verður tæpt á því að nokkru. Fylgismenn Jóns hófu þegar að skapa honum ímynd að honum látnum og að mörgu leyti var það auðvelt þar sem orðstír hans var góður í lifanda lífi. Helsta heimild um líf Jóns og störf er ævisaga hans eftir Svein Pálsson. Tveir listamenn af íslensku bergi brotnir þeir Bertel Thorvaldsen og Ólafur Ólafsson gerðu myndir af Jóni. Um þær verður einnig fjallað.
Um fræðastörf Jóns Ólafssonar úr Grunnavík í Kaupmannahöfn
Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Í erindinu verður sagt stuttlega frá uppruna Jóns Ólafssonar Grunnvíkings, erindi hans til Kaupmannahafnar haustið 1726 og stöðu hans og kjörum þar í borg nær ævilangt. Nefnd verða helstu ritverk sem Jón vann að sem fyrsti styrkþegi Árnasjóðs við Árnasafn í Kaupmannahöfn sem voru þessi:
Skrár yfir handrita- og bókasafn Árna Magnússonar og skrá yfir íslensk fornbréf.
Uppskriftir á kveðskap og fornyrðaskýringum Páls Vídalíns lögmanns.
Uppskrift á fyrsta hluta Heiðarvíga sögu.
Rúnareiðsla og ritgerð um íslenska réttritun.
Íslensk-latnesk orðabók.
Mannanafnatal.
Rit um ævir og ritverk lærðra manna íslenskra.
Hagþenkir.
Fiskafræði.
Steinafræði.
Undirbúningur að útgáfu Knytlinga sögu.
Undirbúningur að útgáfu Snorra Eddu.
Contractismus og Polychrestis.
Yfirlit yfir ævi Jóns Ólafssonar Grunnvíkings:
Fæddur að Stað í Grunnavík í Jökulfjörðum um miðjan ágúst 1705.
Ólst upp í Víðidalstungu og var þénari Páls Vídalíns lögmanns 1712–1726.
Sigldi með Skagastrandarskipi til Kaupmannahafnar haustið 1726.
Skrifari Árna Magnússonar 1726–1730.
Lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1731.
Styrkþegi Árnasjóðs í Árnasafni í Kaupmannahöfn 1732–1743.
Var á Íslandi við skriftir, lengst á Þingeyrum, 1743–1751.
Styrkþegi Árnasjóðs í Árnasafni í Kaupmannahöfn 1751–1779.
Jón Ólafsson lést í Kaupmannahöfn 17. júní 1779.