Ástarjátningar í bréfum og dagbókum á átjándu og nítjándu öld

Málþing Félags um átjándu aldar fræði 11. febrúar 2023 



Efnisútdrættir úr fyrirlestrum

„Ég er þinn elskari“: Orðræða ástarinnar í bréfum Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1824–1832

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Ástir tókust með Baldvini Einarssyni, sem þá var í Bessastaðaskóla, og Kristrúnu Jónsdóttur, heimasætu í Stærra-Árskógi veturinn 1824. Þau ætluðu að eigast og höfðu áform um að hún færi með Baldvini til Kaupmannahafnar þegar hann fór þangað til náms árið 1826. Það gekk ekki eftir og svo fór, þrátt fyrir hástemmdar ástarjátningar, að Baldvin féll fyrir danskri fegurðardís. Hún varð barnshafandi og þau giftust 1828. Ástarbréfin héldu þó áfram að streyma til Kristrúnar allt til þess Baldvin dó af eldi snemma árs 1833. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ástina eins og hún birtist í sendibréfum Baldvins til Kristrúnar (aðeins hans hlið er varðveitt) og hún sett í samhengi við orðræðu ástarinnar í sendibréfum (og bókmenntum) á þessum tíma.

 



„Elskan brenndu bréfið“: Ástarbréfin í Kvennasögusafni Íslands

Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri Kvennasögusafns Íslands 

Ástarbréf eru vitnisburður um tjáða ást. Sem efnislegur hlutur eiga þau sér framhaldslíf óháð tímanum sem þau voru skrifuð á. Hægt er að halda á bréfunum, faðma þau að sér og lesa aftur og aftur. Bréfin geta breyst með tímanum og borið merki þess hvernig þau voru meðhöndluð. Til að mynda geta þau varðveitt tárin sem hafa fallið við lestur þeirra. Það er líka hægt að brenna þau.

    Það er fágætt að ástarbréf endi á skjalasafni þar sem þau eru gerð aðgengileg rannsakendum og öðrum enda eru þau oftast í eðli sínu tilfinningarík og persónuleg. Sum ástarbréf eru þó skrifuð með það í huga að þau verði varðveitt á skjalasöfnum eins og söfnum Landsbókasafns. Hvers konar ástarbréf eru afhent Kvennasögusafni til varðveislu? Hver skrifaði þau og fyrir hvern var verið að skrifa? Hver afhendir þau og er þeim ritstýrt fyrir afhendingu? Hvernig er aðgengi að þeim og hvernig er að kafa ofan í einkalíf annarra í fræðilegum tilgangi?




„Loksins varð ég þó skotinn!“: Um leynda staði í dagbók Ólafs Davíðssonar

Þorvaldur Kristinsson, bókmennta- og kynjafræðingur

Dagbók Ólafs Davíðssonar sem varðveitt er á Landsbókasafni birtist fyrst á bók árið 1955, en í ritskoðaðri útgáfu. Meðal annars hafði útgefandi þar eytt einu og öðru sem varðaði bæjarslúður í Reykjavík veturinn 1881–1882, en einnig hafði hann máð út alla þá staði, smáa og stóra, þar sem dagbókarritarinn, 19 ára, víkur að ástarhug sínum til ungs skólabróður og þörfum hvatalífsins. Dagbókin kom síðan út á bók í annað sinn, óstytt og þá án allra úrfellinga, árið 2018.

     Í fyrirlestrinum er vikið að þessum stöðum, leitast við að greina inntak þeirra og varpa á þá ljósi, en síðan rætt um sögulegar forsendur textans og það vitundarlíf sem stýrði skrifum dagbókarritara. Í hvaða vitundarheimi var sá ungi Ólafur staddur þegar hann ritaði dagbók sína?  




Af tilhugalífi Sighvats Grímssonar Borgfirðings og  Ragnhildar Brynjólfsdóttur 

Davíð Ólafsson, lektor í menningarfræði við Háskóla Íslands    

Hinn 29. nóvember 1865 gengu vinnuhjúin Ragnhildur Brynjólfsdóttir og Sighvatur Grímsson í hjónaband í Múlakirkju á Barðaströnd. Hjúskapur þeirra stóð í 65 ára, allt þar til Sighvatur lést í janúar 1930, en Ragnhildur lifði mann sinn í rúmt ár. 

     Sighvatur hélt dagbók öll sín fullorðinsár, frá árinu 1863 til dánardags. Þar má finna skráningar sem tengjast samdrætti þeirra og hjónabandi, sem þó eru jafnan bæði fálátar og stuttorðar. Samhliða dagbókaskrifunum safnaði Sighvatur frumsömdum kvæðum sínum í kver sem hann nefndi Syrpu og þar kveður við annan tón.

     Í þessum fyrirlestri verða þessar ólíku heimildir um tilhugalíf og hjúskap Ragnhildar og Sighvats lesnar saman, auk þess sem þær verða bornar saman við aðra vitnisburði um tilfinningasamband þeirra.

Previous
Previous

Af Íslendingum í Kaupmannahöfn á átjándu öld 

Next
Next

Gunnlaugur Briem sýslumaður - 250 ára fæðingarafmæli