Sumarferð félagsins, í júní 2022, verður farin um Vestur-Húnavatnssýslu. Dagsetning ekki ákveðin.
Leiðsögumaður í ferðinni verður Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, sem er höfundur Árbókar Ferðafélags Íslands 2015, Vestur-Húnavatnssýsla: Frá Hrútafjarðará að Gljúfurá. Ferðin verður auglýst nánar síðar.
Ferðatilhögun í grófum dráttum: Lagt verður af stað frá Þjóðarbókhlöðu og ekið áleiðis norður í land með stuttri viðdvöl í Borgarnesi. Ekið yfir Holtavörðuheiði og komið verður við á Hvammstanga. Ekið verður kringum Vatnsnes. Þar verður stansað í skamma stund á fáeinum stöðum, m.a. í námunda við Hvítserk, sérkennilegan klettadrang sem rís úr sjó örskammt frá austurströnd Vatnsness og nýtur sín vel, og svo á Illugastöðum. Síðan verður ekið inn í Víðidal, farið fram hjá höfðingjasetrinu Víðidalstungu og komið að Kolugljúfrum í Víðidalsá þar sem náttúrufegurð er mikil.